Yfirlit greina

Ég hef skrifað nokkrar ádrepur undanfarin misseri um það hvernig landið heldur áfram að sporðreisast með ríkisrekinni byggðaröskun og tilefnunum fjölgar enn. Ríflega 80% landsmanna býr nú milli Hvítánna tveggja, Íslandi til mikils framtíðarskaða. Innviðauppbygging víða um landið hefur setið á hakanum og opinber fjárfesting hefur að mestu leyti átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu, með tilheyrandi ruðningsáhrifum og hörmungum á húsnæðismarkaði, sem bæði hefur hækkað verulega og ekki getað fylgt eftir þessari manngerðu fólksfjölgun á afmörkuðum bletti landsins. Að halda núverandi stefnu áfram er að pissa í skóinn sinn Skammgóður vermir á afmörkuðu svæði, en nístingskuldi er vökvinn kólnar. Á sama tíma og höfuðborgarsvæðið rifnar á saumunum, eru stórir hlutar landsins sem ekki búa við grunnþjónustu nútímasamfélags. Byggðastefna er orðin að einhvers konar fúkyrði í pólitískri umræðu, hallærishugtak með hugrenningartengsl við Jónas frá Hriflu. Það hefur gerst því skammsýni og heimóttargangur þingmanna hefur fengið að ráða för í núverandi ríksstjórn sem og hjá fyrirrennurum hennar, en tekur nú á sig nýjar víddir sem fáum gat hafa dottið í hug. Á undanförnum tveimur vikum hefur skipan í stjórnir opinberra hlutafélaga litið ljós. Þessi fyrirtæki í eigu skattgreiðenda eru Landsnet, Landsvirkjun, Íslandspóstur, Isavia og RARIK. Auk þess að vera í eigu allra landsmanna, eiga þau það sameiginlegt að ekki einn einasti maður eða kona í stjórnum þessara fyrirtækja kemur utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki einn. Þetta kann að veita innsýn í heimóttargang núverandi valdhafa, en ég vona að um sé að kenna þröngu tengslaneti ráðherra sem skipa í þesar stjórnir, en ekki beinlinis illum vilja. Ekki eru bara bjánar úti á landi? Við vitum að nærtækast er alltaf að líta ekki langt, fjárfesta sér nær og horfa almennt ekki yfir hólinn, en heimskt er heimaalið barn. Við skulum gefa okkur að almenn nærsýni og illur vilji hafi ekki ráðið því hvernig málin hafa þróast, en framhjá því verður ekki litið að þessi þróun er mannanna verk og skort hefur stefnu og staðfestu til að sporna á móti. Nokkrar aðgerðir eru nærtækar til að vinda ofan af þessari illu þróun. Fyrst ber að telja að ekki einungis kynjakvóti, heldur einnig landshlutakvóti skuli vera í öllum stjórnum opinberra hlutafélaga, fyrir utan auðvitað venjuleg hæfisskilyrði. Reynsla úr fagi eða sérsviði virðist hins vegar ekki áskilin, eins og glöggt má sjá af skipan sumra stjórna, en því ætti einnig að breyta. Þá þarf að setja Isavia eigendastefnu sem miðar að því að félagið þjónusti, haldi við og markaðssetji aðra flugvelli en Keflavík. Með því fæst eðlilegri uppbygging og jafnari ágangur ferðamanna um landið, sem þannig stuðlar að bættum skilyrðum til uppbyggingar ferðaþjónustu víðar um landið. Vitað er að flestir ferðamenn fara ekki lengra en 150 km frá innkomuflugvelli (Keflavík), sem þá þýðir stjórnlausan ágang á afmarkaða þúfu, sem aftur skapar ósjálfbæra bólu á afmörkuðu svæði. Skipta þarf landinu upp í skilgreind áhrifasvæði sem byggð verða upp með staðsetningu opinberra stofnana, uppbyggingu innviða og ríkum hvötum til atvinnustarfsemi á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Í þessari uppskiptingu mætti jafnvel horfa til fylkisvæðingar, sem þá þýðir jafnframt að hvert fylki tekur ríkari ábyrgð á þjónustu á sínu svæði og fær jafnframt megnið af skatttekjum sem aflast á því svæði. Þá mætti horfa til þess að hvert svæði ráði yfir eigin orkuauðlindum og njóti afraksturs af sölu orkunnar inn á grunnet raforku. Þá ætti að dreifa ráðuneytum og opinberum stofnunum eins og best verður við komið, þannig að einstefnunni suður verði snúið við og tengsl allra landshluta styrkt með tíðari ferðum og samgangi fólks um land allt. Ekki bara höfuðborgarbúar norður á skíði og Norðlendingar suður að sækja opinbera þjónustu eða miðlæga innviði, svo dæmi sé tekið. Í stað þess að vera að mylgra út þunnum grauti í sóknaráætlanir landshluta ætti ríkissjóður fremur að beita skattaívilnunum til einstaklinga og fyrirtækja, sem styrkja þá grundvöll fyrir kröftugri atvinnuuppbyggingu og mannlífi um land allt. Til að jafna leikinn verður að skera upp tekju- og útgjaldagrunn ríkis og sveitarfélaga og halda eftir meiri fjármunum á heimaslóð þannig að nýting fjármuna batni og þeir nýtist þar sem þeirra er brýnust þörf á hverjum stað. Auðlindir landsmanna eru um land allt og á miðunum umhverfis landið, en samt sem áður er það svo að megnið af afrakstrinum er safnað upp á sömu þúfu og engin heildstæð stefna virðist til staðar um að nýta landið allt til annars en skattlagningar sem þá bitnar harkalega á veikum byggðum um land allt. Það verður að brjóta upp ríkisrekna miðstýringu sem hefur leitt til þessarar miklu byggðaröskunar og skapað manngerðar hagvaxtarbólur með reglubundnum hætti á afmörkuðum bletti á höfuðborgarsvæðinu. Aðrir hlutar landsins eru yfirleitt ekki í neinum takti við þróunina á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom okkur þó til góða þegar lág skuldsetning fyrirtækja og heimila á landsbyggðinni gerði höggið eftir fjármálahrunið léttbærara utan höfuðborgarsvæðisins og hjálpaði til við að reisa landið á ný. Tækifæri Íslands í breyttum heimi eru óþrjótandi, en við nýtum þau ekki með áframhaldandi heimóttargangi. Við erum stórt land, ríkt af auðlindum og mannauði, en með takmarkandi þjóðskipulag og heimóttargang til að nýta hvort tveggja. Vindum ofan af þessu og byggjum Ísland allt, allt árið. Þorum að breyta. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson viðskiptafræðingur, flugmaður og áhugamaður um þjóðlíf

Í dag, 9. apríl, er öld liðin frá því fyrsta tölublað Íslendings, sem síðar varð málgagn Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, kom út. Blaðið hefur alla tíð verið áberandi þáttur í starfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, en var stofnað áður en bæði Íhaldsflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn komu til sögunnar. Frá upphafi var þó stefnt að því að blaðið væri borgaralega sinnað þjóðmálarit og áberandi sem slíkt. Undanfara að útgáfu Íslendings má rekja til útgáfu Dagblaðsins hér á Akureyri haustið 1914. Sigurður Einarsson, ritstjóri Dagblaðsins, tók þá afstöðu að breikka þyrfti grunn blaðsins eftir fimm mánaða útgáfu og ákvað að stofna nýtt blað og fá til liðs við sig Ingimar Eydal, kennara, sem samstarfsmann sinn, og voru þeir fyrstu ritstjórar hins nýja blaðs við stofnun 9. apríl 1915. Samstarf fyrstu ritstjóranna stóð til ársloka 1917, uns Ingimar ákvað að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn og standa að útgáfu Dags, sem kom út í fyrsta skipti árið eftir og var stofnað til höfuðs Íslendingi. Dagur var alla tíð málgagn Framsóknarflokksins á Akureyri og kom út með jöfnum hætti allt til ársins 1996, fyrst sem vikurit og svo oftar og loks síðasta áratuginn sem dagblað, en féll í valinn vegna rekstrarerfiðleika, rétt eins og önnur pólitísk blöð hér. Íslendingi var ætlað að taka beinan þátt í þjóðmálaumræðu og með skarpari sýn í framsetningu frétta og auglýsinga en forverinn. Íslendingur varð strax markað sem rit hægra megin við miðju og tók afgerandi afstöðu til mála á þeim vettvangi. Útgáfa blaðsins var jafnan bundin sem vikurit og kom út jöfnum höndum. Var Íslendingur elsta vikublað utan höfuðborgarsvæðisins. Sigurður Einarsson seldi blaðið í ársbyrjun 1920 og lét af störfum sem ritstjóri. Í gegnum breytingar á eignahaldi voru Brynjólfur Tóbíasson og Jónas Jónasson ritstjórar blaðsins. Meiri festa kom á útgáfuna á árinu 1922 og tók Gunnlaugur Tr. Jónsson við sem ritstjóri. Gunnlaugur var ritstjóri blaðsins bæði þegar Íhaldsflokkurinn var stofnaður 24. febrúar 1924 og Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 25. maí 1929 . Var sagt frá stofnun beggja flokka með ítarlegum hætti í blaðinu. Gunnlaugur var ritstjóri blaðsins í einn og hálfan áratug. Þegar hann lét af ritstjórastörfum var ákveðið að Jakob Ó. Pétursson tæki við sem ritstjóri en hann gat ekki tekið við starfinu strax sökum anna á öðrum vettvangi. Einar Ásmundsson og Konráð Vilhjálmsson ritstýrðu um stutt skeið. Er þeir hættu var ákveðið að leita til Sigurðar Einarssonar fyrsta ritstjóra blaðsins um að brúa bilið og var hann aftur ritstjóri á árinu 1937 uns Jakob gat tekið við. Jakob var einn af öflugustu ritstjórum blaðsins og lék lykilhlutverk við útgáfu þess um langt skeið. Þegar Jakob tók sér hlé frá ritstjórn árin 1945-1949 voru Bárður Jakobsson, Karl Jónasson, Magnús Jónsson frá Mel og Eggert Jónsson ritstjórar blaðsins. Magnús frá Mel varð á löngum ferli sínum einn helsti leiðtogi sjálfstæðismanna á Norðurlandi - var alþingismaður Eyfirðinga 1953-1959 (á tímum gömlu einmenningskjördæmanna) og svo Norðurlands eystra 1959-1974. Magnús varð fjármálaráðherra (þegar Gunnar Thoroddsen hætti í stjórnmálum) 1965-1971 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1973-1974 (eftir að Geir Hallgrímsson varð formaður). Magnús missti heilsuna, skömmu eftir varaformannskjörið, árið 1974 og hætti afskiptum af stjórnmálum langt um aldur fram. Jakob var þekktur fyrir skorinorð skrif og telst ritstjóratímabil hans eflaust með hápunktum í útgáfu Íslendings. Í tíð hans kom til ritstjórnarskrif undir heitinu Jón í Grófinni og voru þau áberandi og vel lesin alla tíð. Blaðið var sennilega mest áberandi í skrifum og framsetningu þjóðmálaumræðu í tíð Jakobs. Blaðið tók miklum framförum og varð nútímavæddara í tíð hans, og þar t.d. skrifað um mál frá alþjóðavettvangi auk frétta úr kjördæminu. Framsetning mynda og ritmáls tóku miklum breytingum á löngu ritstjórnarskeiði Jakobs og útgáfa þess festist í sessi. Jakob lét af ritstjórastörfum snemma árs 1966 og tók Herbert Guðmundsson við ritstjórninni af honum. Herbert ritstýrði blaðinu á árunum 1966-1969, fram á starfstíma Íslendings-Ísafoldar. Á þessum árum hóf Halldór Blöndal, sem þá var enn í námi, að koma að útgáfu blaðsins og greinaskrifum og sinnti því um nokkuð skeið með öðrum verkefnum. Halldór varð einn af helstu forystumönnum sjálfstæðismanna í kjölfarið, hafði verið erindreki flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra á námsárum og gegnt trúnaðarstörfum í flokksstarfinu á Akureyri en varð síðar varaþingmaður 1971-1979 og síðan alþingismaður 1979-2007 og ennfremur ráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005. Á árunum 1968-1972 var útgáfa Íslendings og Ísafoldar sameinuð í ritið Íslendingur-Ísafold eftir að kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra hafði ákveðið að hætta útgáfu í fyrra formi. Útgáfan í því formi var unnin í samstarfi við Morgunblaðið. Félagið sem gaf út blaðið hlaut nafnið Vörður landshlutafélag. Var það rekið sem landshlutablað með örlítið breiðari grunni (sagði t.d. fréttir frá Vestfjörðum og Austurlandi) og sagði t.d. að hluta erlendar fréttir með í yfirlitsformi, en helsti fókusinn á Norðurlandið. Ritstjórar þess voru fyrst Herbert Guðmundsson, svo Sæmundur Guðvinsson og loks Lárus Jónsson og Ásmundur Sveinsson. Hlé var gert á útgáfunni í röska tíu mánuði og að því loknu var Íslendingur endurreistur í fyrri mynd og kom fyrsta blað eftir breytingar út 11. október 1973 og hafði þá verið markað blaðinu tiltölulega traustan grunn. Það tókst undir traustri forystu Halldórs Blöndals og hófst regluleg útgáfa að nýju undir ritstjórn Halldórs. Gísli Sigurgeirsson var ráðinn auglýsingastjóri við hlið Halldórs og vann af krafti að því að breikka auglýsingagrunn blaðsins og treysta undirstöður þess og útgáfu. Þegar Halldór lét af ritstjórastörfum vegna anna á öðrum vettvangi árið 1974 var Sigrún Stefánsdóttir ráðin ritstjóri blaðsins, en Halldór hélt áfram virkum leiðaraskrifum, rétt eins og Jakob Pétursson áður. Hún gegndi starfinu í rúm tvö ár uns hún hélt til starfa á fréttastofu Sjónvarpsins. Þá tók Gísli Sigurgeirsson við starfi ritstjóra blaðsins. Í ritstjóratíð Sigrúnar var byrjað að prenta blaðið út að hluta í lit, þegar blaðhausinn og umgjörð hans á forsíðu varð fagurblá. Þegar Gísli hætti sem ritstjóri árið 1980 var ekki strax ráðinn eftirmaður en fjögurra manna teymi tók saman að sér ritstjórn; Sigurður J. Sigurðsson, Gísli Jónsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson og Björn Jósef Arnviðarson. Síðar um árið tók Kristinn G. Jóhannsson að sér ritstjórn og Guðlaug Sigurðardóttir hafði þá tekið við sem auglýsingastjóri. Guðlaug hélt utan um auglýsingamál blaðsins ásamt Kristínu Ottesen þar til yfir lauk. Rekstrargrundvöllur Íslendings veiktist mjög þegar komið var fram á níunda áratuginn. Grundvöllur flokksmálgagna allt í kringum landið veiktist til muna og varð ljóst að reksturinn gengi illa að óbreyttu. Á þessum tíma voru ritstjóraskipti tíð á Íslendingi. Gunnar Berg Gunnarsson tók við ritstjórn af Kristni og skömmu síðar tóku Gunnar Blöndal, Halldór Halldórsson og Guðmundur Heiðar (að nýju) við ritstjórninni. Sumarið 1984 tók Halldór Blöndal aftur að sér tímabundið ritstjórn meðfram þingstörfum ásamt Guðmundi Heiðari. Tómas Ingi Olrich, síðar alþingismaður 1991-2003 og menntamálaráðherra 2002-2003, varð ritstjóri blaðsins í ársbyrjun 1985. Þegar 70 ára afmæli blaðsins var fagnað með sérstöku afmælisblaði í apríl 1985 var ljóst að blaðið væri á krossgötum og óvissa væri um framtíð þess. Haustið 1985 tók Stefán Sigtryggsson við ritstjórn blaðsins og varð síðasti ritstjóri Íslendings sem vikublaðs. Í ársbyrjun 1986 var fullreynt með útgáfu blaðsins og hlé var gert á henni. Vinna við endurskipulagningu blaðsins bar ekki árangur og ákveðið var að hætta útgáfunni í óbreyttri mynd endanlega um vorið en ákveðið að gefa blaðið þess í stað út með reglubundnum hætti fyrir kosningar til Alþingis og sveitarstjórnar og reglulega þess fyrir utan til fjáröflunar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Svo hefur verið síðan. Á 86 ára afmæli Íslendings, 9. apríl 2001, var opnað vefrit Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og var því að sjálfsögðu gefið heitið Íslendingur til heiðurs blaðinu. Halldór Blöndal opnaði vefritið í gleðskap í Kaupangi þann dag. Vefritið hefur síðan verið fréttamiðill flokksins hér á Akureyri og þar lögð áhersla á að auglýsa viðburði og birta greinaskrif eftir forystumenn hverju sinni. Helgi Vilberg var fyrsti ritstjóri vefritsins 2001-2007, síðan var Jóna Jónsdóttir ritstjóri á árunum 2007-2010 og hef ég undirritaður gegnt ritstjórn frá árinu 2010, eða í fimm ár. Öll tölublöð af Íslendingi hafa verið skönnuð inn og með því saga merks rits og pólitísks starfs hér á Akureyri fyrr og nú, svo og saga bæjarins á þeim tíma, verið varðveitt. Öll blöðin eru aðgengileg á vefslóðinni timarit.is og hvet ég alla til að renna yfir öll blöðin á árunum 1915-1986 og þau blöð sem síðan hafa verið gefin út fyrir kosningar til Alþingis og sveitarstjórnar. Hér er t.d. fyrsta blaðið frá 9. apríl 1915, afmælisblað í apríl 1940 , blaðaskrif síðla nóvember 1963 eftir morðið á John F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna, minningarblað um Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi (við andlát hans í mars 1964), fjallað um lát Ólafs Thors 1965 og lát Bjarna Benediktssonar, eiginkonu hans og dóttursonar sumarið 1970 (í Íslendingi-Ísafold), blað í maí 1974 þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur og hlaut 5 menn í bæjarstjórn (en komst ekki í meirihluta) og blað í febrúar 1980 þar sem fjallað er um umdeilda stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens; svo fátt eitt sé nefnt. Íslendingur á sér merka sögu, fyrr og nú, og mikilvægt að fara lauslega yfir hana og með því heiðra þá heiðursmenn sem lögðu grunninn að traustu málgagni sem stóð vörð um farsæla þjóðmálaumræðu með hugsjón og kraft að leiðarljósi. Við hugsum til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóginn og lögðu mikið af mörkum til heiðurs sjálfstæðisstefnunni, þeirri pólitísku stefnu sem jafnan hefur reynst heilladrýgst og best þegar á reynir. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings

Nýkjörin forysta Sjálfstæðisflokksins hóf samtal sitt við fólkið í landinu fyrir hálfum mánuði síðan með því að fara til fundar við fólkið. Í þessari fyrstu ferð okkar hittum við fólk hér á höfuðborgarsvæðinu og í öllum landshlutum. Óhætt er að segja að þetta sé eitt af því skemmtilegasta sem við stjórnmálamenn gerum, að fara um landið og hitta fólk á sínum heimavelli, upplifa hjartsláttinn og kynnast þeim verkefnum sem fólk er að sinna af metnaði. Metnaði um að gera samfélagið sitt betra og byggja sér og fjölskyldu sinni góð lífskjör til aukinnar velsældar. Þingflokkurinn allur hefur fimm sinnum farið í hringferð um landið og skilaboðin frá landsbyggðinni sem við höfum fengið eru ávallt mjög skýr; tryggið okkur öfluga grunninnviði og látið okkur svo í friði á meðan við sköpum verðmæti fyrir land og þjóð. Vanalega er vorið fallegur tími þar sem sólin hækkar á lofti, líf kviknar í náttúrunni og létta tekur yfir landanum. Sú var ekki raunin að þessu sinni. Það var þungt yfir fólkinu enda vorum við að ferðast í sömu viku og veiðigjaldið var kynnt. Heilu samfélögin höfðu miklar áhyggjur af þeim álögum sem ríkisstjórnin er að leggja á landsbyggðirnar þar sem verðmætasköpunin fer fram í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Allar slíkar álögur draga úr styrk fyrirtækjanna til að fjárfesta í nýsköpun í heimabyggð og uppbyggingu innviða fyrirtækjanna sem skapa festu og umsvif í sínum samfélögum og gerir þeim kleift að halda fólki í vinnu. Álögur sem gera allan rekstur erfiðari til þess eins að getað barið sér á brjóst fyrir að sækja fjármuni til atvinnulífsins og vera góði aðilinn sem deildi fjármununum aftur út til fólksins. Staðan er samt sú, að fólkið í raunhagkerfinu skilur að svona virkar þetta ekki. Þau bæði vita og finna strax fyrir því á eigin skinni að bara yfirlýsingarnar um hærri veiðigjöld, aukna innheimtu í ferðaþjónustu og hækkandi flutningskostnaðar með kílómetragjaldi hafa áhrif. Fyrirtækin fara strax að halda að sér höndum með því að draga úr kostnaði í stað þess að fjárfesta einni krónu til að búa til tíu krónur. Þessar sögur heyrðum við á ferð okkar um landið. Ungur bóndasonur sem fjárfesti í málmsmiðju eftir háskólanám til að þróa sjálfvirknivæðingu í sjávarútvegi hefur nú verið stopp í nokkrar vikur. Bæjarfulltrúi sem kom að því að endurreisa iðnfyrirtæki sem framleiðir búnað fyrir sjávarútveginn horfir á öll verkefnin í bið þangað til ákvörðun stjórnvalda liggur fyrir. Svo var það gamla konan sem ólst upp í sjávarþorpinu og þekkir muninn á byggðinni sinni með sjávarútvegi sem er rekinn með tapi og sjávarútvegi sem rekinn er með afgangi. Prófessor stóð upp á einum fundinum og sagði þetta hafa mest áhrif á fiskvinnslustörf sem er ein öflugasta kvennastétt landsins og svo kvað kona sér hljóðs í Borganesi og sagði að nú væri búið að efna til stríðs við landsbyggðina. Skilaboðin voru því enn og aftur skýr, látið okkur í friði og við sjáum um að skapa hér verðmæti og byggja upp byggðirnar. Þannig verða til verðmæti sem skila sér til allra landsmanna í bættum lífskjörum og öflugri innviðum. Blómleg byggð sem aflar verðmæta fyrir þjóð sína verður ekki reist með því að gera atvinnulífið að vonda manninum og hindra það í störfum sínum við að afla þessara verðmæta. Verðmæta sem tryggja að við getum haldið hér áfram að gera Ísland að besta stað í heimi til að búa og starfa í. Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast með byggðunum til velsældar. Vilhjálmur Árnason alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins.

Atvinnuvegaráðherra hefur kynnt áform um verulega hækkun veiðigjalda. Um er að ræða stórfellda breytingu á rekstrarskilyrðum einnar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar. Engu að síður virðast tillögurnar hafa verið unnar í flýti, án nauðsynlegs samráðs og án faglegs undirbúnings. Ekki liggur fyrir heildstæð greining á áhrifum hækkunarinnar. Hver verða áhrifin á byggðaþróun? Á atvinnulíf í sjávarbyggðum? Á vinnumarkaðinn? Á skatttekjur ríkissjóðs af greininni allri? Hver eru raunveruleg nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs? Ráðherrann sá ekki ástæðu til að meta neitt af þessu. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma Alþingis á mánudag spurði ég ráðherrann hvort hann teldi forsvaranlegt að leggja fram tillögur um rúmlega tuttugu og sex milljarða króna í auknar álögur á þremur árum – án þess að vita hver áhrifin yrðu á ríkissjóð og atvinnustig? Ekki var svarað efnislega. Í staðinn fengum við hefðbundna ræðu um stórútgerðina og óljósar aðdróttanir í garð Sjálfstæðisflokksins. Þetta er kunnuglegt handrit frá flokki sem segist standa með atvinnulífinu á tyllidögum. Þegar stjórnvöld geta ekki svarað spurningum um vinnubrögð og efnisatriði er reynt að beina athyglinni annað. En spurning mín snerist hvorki um stórútgerð né réttmæti veiðigjalda sem slíkra. Hún snerist um ábyrgð. Um faglega málsmeðferð. Um það hvort stjórnvöld ætluðu sér virkilega að leggja tugmilljarða álögur á atvinnugrein – án þess að nokkur hefði reiknað út hvort það borgaði sig yfir höfuð eða hvaða áhrif þær álögur hefðu á atvinnugreinina og sjávarbyggðir. Það er ekki bara ósanngjarnt. Það er óábyrgt. Ráðherra má trúa því að breytingarnar séu sanngjarnar – en þær eru ekki ásættanlegar ef enginn hefur metið afleiðingar þeirra. Ef einhver hluti sjávarútvegsins er rekinn með miklum hagnaði gefur það stjórnvöldum ekki afslátt af því að vinna málin faglega. Þvert á móti er enn ríkari ástæða til að sýna að það sé verið að taka upplýsta og rökstudda ákvörðun um eins íþyngjandi skattahækkun og raun ber vitni. Það er nefnilega svo, þrátt fyrir orðhengilshátt og jafnvel flótta ráðherrans frá eðli þessarar aðgerðar, að um boðaða skattahækkun er að ræða. Fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar í aðdraganda og eftir kosningar um að ekki eigi að hækka skatta standast enga skoðun. Það er nefnilega svo að hin svokallaða „leiðrétting“ ríkisstjórnarinnar er nefnilega skattahækkun. Hlutverk ráðherra er ekki að haga gjaldtöku eftir hentugleika eða stemningu dagsins – heldur að byggja upp trausta, fyrirsjáanlega og faglega stjórnsýslu. Það er grundvöllur trausts og stöðugleika. Nú stendur eftir spurningin: Var málið svo brýnt að ekki mátti rýna í afleiðingar þess? Eða var tilgangurinn einungis sá að slá pólitískar keilur – óháð því hver greiðir reikninginn? Ef ráðherra getur ekki svarað því með hreinum hætti – þá liggur ekki aðeins ábyrgðin ljós fyrir, heldur blasir við að stjórnvöld séu reiðubúin að fórna trausti, vönduðum vinnubrögðum og almannafé fyrir stundarhagnað í pólitískri umræðu. Það er óverjandi. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2.apríl 2025.

Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um borgarstefnu sem kveður á um að þróa og efla tvö borgarsvæði á Íslandi, höfuðborgina Reykjavík og svæðisborgina Akureyri. Með stefnunni er viðurkennd sérstaða Akureyrar sem þjónustu- og menningarmiðstöðvar og markmiðið meðal annars að jafna dreifingu byggðar í landinu. Borgarstefnan er fagnaðarefni og sú vandaða vinna sem býr að baki. Skynsamlegt er af mörgum ástæðum að byggja upp innviði á fleiri stöðum en suðvesturhorninu og að það sé til annar valkostur við hina sístækkandi höfuðborg. Vonandi fylgja fjármagnaðar aðgerðir í kjölfarið svo að stefnan raungerist og í fyllingu tímans má hugsa sér fleiri svæðisbundnar borgir í öðrum landshlutum. Göfug markmið Stundum er því fleygt í mínum hversdegi norður í landi að það vanti algjörlega byggðastefnu á Íslandi, of margar aðgerðir stjórnvalda miði að því að ýta öllum smám saman til höfuðborgarinnar. Þetta er ekki að öllu leyti rétt. Byggðastefna er sannarlega til, á pappír að minnsta kosti, og birtist m.a. í stefnumótandi byggðaáætlun, hvar umrædd borgarstefna er ein af aðgerðum, og í sóknaráætlunum landshlutanna. Markmiðin eru göfug, einkum að stuðla að blómlegum og sjálfbærum byggðum um allt land og jafna tækifæri fólks til atvinnu og þjónustu óháð búsetu. Gott og vel. Íþyngjandi aðgerðir Veltum þá fyrir okkur hvernig hin raunverulega byggðastefna birtist í framkvæmd um þessar mundir, gagnvart þeim sem lifa og starfa fjarri þeirri þungamiðju sem suðvesturhornið er: -Tvöföldun veiðigjalda -Fyrirhuguð ný sértæk gjöld á ferðaþjónustu -Ný innviðagjöld á skemmtiferðaskip -Nýtt kílómetragjald -Afturköllun lagaheimildar um samruna kjötafurðastöðva Þetta eru bara örfá dæmi. Og nú erum við ekki einu sinni að tala um ónýta vegi, ófullnægjandi vetrarþjónustu, vanfjármagnaða flugvelli, aðgengi að rafmagni, heilbrigðisþjónustu og fleira sem þarf að berjast fyrir. Þetta eru eingöngu nýjar aðgerðir sem bitna illa á sveitarfélögum, fyrirtækjum og fólki sem er að leggja sitt af mörkum við að skapa verðmæti og byggja undir okkar sameiginlegu kerfi. Ekki einu sinni Hríseyingar eru óhultir fyrir íþyngjandi inngripum og þurfa nú að óbreyttu að sætta sig við rúmlega tvöföldun á tilteknum fargjöldum í almenningssamgöngur, ferju sem rekin er af Vegagerðinni, ef þeir vilja komast heim til sín á kvöldin. Allt án nokkurs samráðs eða aðdraganda. Dæmigert að það er svona korter síðan Hrísey var skilgreind brothætt byggð samkvæmt stefnumótandi byggðaáætlun ríkisins. Ein birtingarmynd af mörgum þar sem talin er ástæða til að styðja við búsetu á sama tíma og íbúum er gert erfiðara að búa á staðnum. Fjárfestingar og framtakssemi um allt land Punkturinn er þessi. Skýr framtíðarsýn og opinber stefnumótun skiptir miklu máli, en hinar raunverulegu aðgerðir stjórnvalda á hverjum tíma, regluverk og álögur á fólk og fyrirtæki mega ekki koma í veg fyrir að markmiðin náist. Ég fagna borgarstefnu, byggðastefnu almennt og öðrum áætlunum um uppbyggingu. Hins vegar verður að skapa jarðveg þar sem slíkar stefnur geta þrifist og gert gagn, ramma sem gerir fólki kleift að láta gott af sér leiða í sínu samfélagi og koma hugmyndum í framkvæmd, umhverfi þar sem ríkið byggir upp nauðsynlega innviði, hvetur til fjárfestinga, atvinnusköpunar og styður við framtakssamt fólk en leggur ekki á það sífellt aukna skatta og þyngri reglur. Falleg framtíðarsýn um blómlegar byggðir um allt land verður ekki að veruleika á sama tíma og ráðist er á lykilatvinnugreinar og lagðar eru sífellt meiri byrðar á íbúa á landsbyggðinni. Því miður er það sú uppskrift sem núverandi ríkisstjórn virðist vinna eftir, allt í nafni leiðréttinga, réttlætis og almannahagsmuna. Jón Þór Kristjánsson Höfundur er Akureyringur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir skrifa um mikilvægi á jöfnum rétti til fæðingarorlofs. "Jafnrétti er einn af hornsteinum stefnum Sjálfstæðisflokksins, enda byggir það á frelsi einstaklingsins. Með því telja sjálfstæðismenn að grunnur sé lagður að góðum lífskjörum og velferð samfélagsins alls. Sjálfstæðismenn skilja að sterkt fæðingarorlofskerfi er mikið jafnréttismál."