Bæjarmálin

Málfundafélagið Sleipnir boðar til umræðufundar í Geislagötu 5, 2. hæð, laugardaginn 3. maí kl. 10:30. Jón Pétur Zimsen, alþingismaður, flytur framsögu og svarar fyrirspurnum. Rætt um menntamálin og stöðuna í stjórnmálunum. Fundarstjóri: Stefán Friðrik Stefánsson, formaður Sleipnis Allir velkomnir - heitt á könnunni

Með stolti birtum við fyrstu grein á islendingur.is, nýrri glæsilegri heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við meirihluta í bæjarstjórn, í góðu samstarfi við L – listann og Miðflokkinn, hefur áherslan verið skýr: traust fjármálastjórn, öflug uppbygging innviða og fjölbreytt þjónusta sem mætir raunverulegum þörfum íbúa. Niðurstaðan er einnig skýr: skuldastaða sveitarfélagsins hefur batnað, fjárfestingar hafa aukist og fjölbreytt verkefni á sviði íþrótta, menningar, velferðamála og félagslífs eru í fullum gangi. Í þessari grein drögum við fram það helsta sem áunnist hefur á kjörtímabilinu og það sem fram undan er. Við trúum því að Akureyrarbær verði áfram fyrirmyndarsamfélag á landsvísu og muni áfram þjóna öllu kjördæminu með sterkum innviðum og frábærri þjónustu. Með sameiginlegu átaki, traustum grunni og framsýnum ákvörðunum höldum við áfram að efla samfélagið okkar. Við verðum að byrja á því að nefna að ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2024 var kynntur í byrjun apríl en hann sýndi afar góða niðurstöðu í rekstri sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaðan var jákvæð um rúma tvo milljarða króna, sem er umtalsvert betri niðurstaða en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun, sem gerði ráð fyrir afgangi upp á tæplega hálfan milljarð. A- hlutinn er jákvæður um 830 milljónir og aðalsjóður jákvæður um 87 milljónir sem er besta niðurstaða í áratug. Skuldaviðmið samstæðunnar voru í árslok 2024 75% en var 80% árið áður og skuldaviðmið í A – hluta var 54% í árslok en var 56% árið áður. Einnig ber að nefna að veltufé frá rekstri allar samstæðunnar var í árslok 2024, 5,7 milljarðar og hefur aukist um 1,2 milljarð frá árinu 2022 sem endurspeglar sterka fjárhagsstöðu Akureyrarbæjar og vel heppnaða fjármálastjórn á árinu 2024. Á þessum þremur árum höfum við lagt ríka áherslu á gott samtal við félag eldri borgara á Akureyri og öldungaráð Akureyrarbæjar. En fjöldi eldri borgara eykst jafnt og þétt og lífsgæði þeirra sem eru að eldast líka. Í upphafi kjörtímabilsins var settur af stað vinnuhópur varðandi Lífsgæðakjarna er þeir eru heiti yfir húsnæði sem er einkum hugsað fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform, m.a. hjúkrunarheimili. Áhersla er lögð á fjölbreytta þjónustu í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir. Við teljum það vera forgangsverkefni að lífsgæðakjarni fyrir eldri borgara verði að veruleika. En nú nýlega skrifaði bærinn undir samning um hjúkrunarheimili í Þursaholti sem er fyrsta skrefið að lífsgæðakjarna. Í fræðslu- og lýðheilsuráði hefur margt áunnist á kjörtímabilinu. Þar ber helst að nefna vel heppnaðar gjaldskrárbreytingar í leikskólum, lýðheilsukort, hreyfikort, símafrí í grunnskólum og sífellt endurskoðaða menntastefnu Akureyrarbæjar. Margt fleira væri hægt að nefna en mikilvægasta er að Akureyri verði áfram mikill íþrótta-, útivista og menntabær sem við öll getum verið stolt af. Skipulagsmál eru alltaf mikið til umræðu í öllum sveitarfélögum enda mikilvægt að vandað sé til verka í öllu skipulagi og uppbyggingu. Móa- og holtahverfið er á góðu róli og munu fljótlega vera boðnar út 150 íbúðir í Móahverfinu. Tjaldsvæðisreiturinn verður vonandi boðinn út í vor en gæti mögulega frestast fram á haust en þar er um að ræða afar spennandi byggingarreitur. Akureyrarbær leggur ríka áherslu á að sinna velferðarmálum vel. Í byrjun marsmánaðar var til að mynda tekinn í notkun nýr íbúðakjarni fyrir fatlað fólk í Hafnarstræti 16. Þar munu búa sex einstaklingar, þar af fimm sem hefja sjálfstæða búsetu í fyrsta sinn. Þar er lögð áhersla á að nýta velferðartækni íbúum og starfsfólki til öryggis og gagns. Fólki með fjölþættan vanda hefur fjölgað í bænum undanfarin misseri. Ákveðið hefur verið að deiliskipuleggja nokkur svæði sem henta undir smáhýsi til að mæta húsnæðisþörfum þessa hóps og hefja sem fyrst uppbyggingu á einu þeirra. Nú er einungis eitt ár eftir af kjörtímabilinu og tíminn er svo sannarlega fljótur að líða. Það er afar mikilægt að við bæjarfulltrúar höfum hag bæjarbúa að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Við munum halda áfram að eiga samtal við bæjarbúa um hvað betur megi fara í okkar fallega bæ og munum áfram gera okkar allra besta til að vinna fyrir ykkur þessa síðustu 13 mánuði kjörtímabilsins. Með bestu óskum um gleðilegt sumar Heimir Örn Árnason formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Sumarkoma boðar nýja og ferska tíma - hlýja og sólskin í sál og sinni. Við þau tímamót er afar viðeigandi að við kynnum nýja útgáfu vefritsins Íslendings. Vefurinn okkar hefur verið lykilþáttur í starfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri frá því hann fór af stað á afmæli gamla Íslendings, 9. apríl 2001. Ellefu ár eru liðin síðan fyrra útlit vefsins var kynnt í aðdraganda bæjarstjórnarkosninganna í maí 2014 þegar við hófum að hýsa Íslending hjá Stefnu - löngu orðið tímabært að stokka upp útlitið og fá betri tækniásýnd. Mikill metnaður og mikil framsýni einkenndi þá ákvörðun að opna vefinn vorið 2001. Íslendingur.is var fyrsti flokksvefurinn á netinu hér á Akureyri og var vel uppfærður og sinnt af mikilli elju, meðan aðrir slíkir vefir hér í bænum voru aðeins vakandi í miðri kosningabaráttu. Íslendingur varð strax frá upphafi ein öflugasta vefsíða sjálfstæðismanna á landinu - þar voru í senn nýjustu fréttirnar úr flokksstarfinu, pistlar og greinar flokksmanna og allt sem máli skipti fyrir okkur sem styðjum flokkinn. Mikil gæfa var fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri að fá Helga Vilberg til að stýra vefnum í upphafi. Hann var faðir vefritsins, hafði mikinn áhuga og metnað fyrir tæknihlið vefsins og þeirri umgjörð að hafa hann líflegan, ferskan og ábyrgan miðil upplýsinga og skoðana. Stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar, með Helga sem formann, ýtti þessu verkefni úr vör af miklum krafti og framsýni, eins og fyrr segir. Það ber að þakka þeim sem þá skipuðu stjórn félagsins fyrir að opna vefinn af svo miklum metnað á þeim tímapunkti. Ég hef komið að starfi vefritsins Íslendings nær frá upphafi, skrifað samfellt pistla og fréttir þar frá árinu 2002 og aðstoðaði Helga Vilberg við fréttaskrif á lokaárum hans með vefinn, og naut þess að finna áhugann og kraftinn í öllu starfinu kringum vefinn. Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um netið og skoðanaskipti þar, var öflugur í miðjum bloggstrauminum og virkur í þjóðlífsumræðu. Því hef ég metið þennan vef mikils og tel heiður að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni gegnum árin. Helgi Vilberg á mikið hrós og heiður skilið frá okkur fyrir að hafa stýrt þessum vef af svo miklum krafti. Hann lagði mikið af mörkum til að vefurinn myndi njóta sín sem traustur miðill upplýsinga og skoðana. Sú vinna var mikils virði. Þegar Helgi vék af velli vorið 2007 tók Jóna Jónsdóttir við ritstjórn í tæp þrjú ár og stýrði honum með myndugleik. Við Jóna vorum saman við stýrið með vefinn þegar Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð í bæjarstjórnarkosningum 2010 og það var áskorun að stýra honum einn í þeirri miklu og erfiðu uppbyggingu á flokknum sem við tók. Tíminn eftir ósigurinn var þó afar lærdómsríkur og mér mikið veganesti í flokksstarfinu við breyttar aðstæður. Ég hef nú stýrt vefritinu í fimmtán ár, allt frá vorinu 2010. Frá upphafi hef ég einsett mér að félagsmenn sjái á vefnum allt sem er að gerast, geti þar bæði kynnt sér viðburði, lesið skoðanir forystufólks okkar og sjái kraft í flokksstarfinu þar. Einnig vil ég endilega fá ábendingar um efnistök og efni til birtingar - heyra ykkar skoðanir varðandi flokksstarfið. Uppfærslur á Íslendingi hafa verið tíðar á þeim tíma sem ég hef ritstýrt honum og við höfum reynt að tryggja öfluga miðlun upplýsinga í flokksstarfinu. Það er mikilvægt að vefurinn sé ferskur og öflugur þó ekki séu alltaf kosningar í nánd, enda eigum við alltaf að vera öflug og sinna flokksstarfinu af metnaði og krafti. Ég trúi því og treysti að framtíð vefsins sé björt. Það er lykilatriði fyrir okkur sjálfstæðisfólk á Akureyri að rækta þennan miðil upplýsinga og skoðana. Ég vil stuðla að því og bæði trúi því og treysti að við séum öll sammála um það. Við getum öll verið stolt af nýja vefnum og horfum jákvæð til næstu verkefna. Rúmt ár er til bæjarstjórnarkosninga þar sem markmiðið er skýrt. Við ætlum að stækka flokkinn og efla, fá aukinn stuðning og kraft í bæjarstjórn til að byggja ofan á farsæl verk meirihlutans á þessu kjörtímabili. Saman gerum við flokkinn stærri og öflugri til að leiða bæinn okkar áfram af festu og öryggi. Til hamingju með daginn - gleðilegt sumar! Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri

Við höldum vöfflukaffi venju samkvæmt á sumardaginn fyrsta í Geislagötu 5, 2. hæð, kl. 15:00 til 17:00. Samhliða því opnum við nýja útgáfu vefritsins Íslendings. 9. apríl sl. voru 110 ár liðin frá því fyrsta tölublað Íslendings, sem síðar varð málgagn Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, kom út. Á 86 ára afmæli Íslendings, 9. apríl 2001, var opnað vefrit Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og var því að sjálfsögðu gefið heitið Íslendingur til heiðurs blaðinu. Halldór Blöndal opnaði vefritið í gleðskap í Kaupangi þann dag. Vefritið hefur síðan verið fréttamiðill flokksins hér á Akureyri og þar lögð áhersla á að auglýsa viðburði og birta greinaskrif eftir forystumenn hverju sinni. Nú fær islendingur.is nýtt útlit og ætlum við að fagna því í útgáfuhófinu. Þar verður nýja útlitið opinberað og boðið uppá veitingar að því tilefni. Á boðstólnum verða vöfflur eins og venja er á sumardaginn fyrsta og síðan munum við einnig bjóða uppá búbblur í tilefni af nýju útliti vefsíðunnar. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest og fagna sumarkomu og nýjum Íslending. Gleðilegt sumar!

Páskarnir eru tími íhugunar, vonar og endurnýjunar – tími þegar við lítum bæði inn á við og fram á við. Endurnýjun þýðir ekki að við yfirgefum það sem hefur reynst okkur vel, heldur að við vöxum, aðlögumst og styrkjum það sem skiptir mestu máli. Í pólitík þýðir það að byggja á traustum grunni – frelsi einstaklingsins, ábyrgð í ríkisfjármálum, skynsemi í lagasetningu og trú á verðmætasköpun – og sækja fram með skýrri sýn. Á Alþingi hefur Sjálfstæðisflokkurinn áfram talað skýrt og af ábyrgð um þau mál sem mestu skipta. Við höfum varað við áhrifum þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hyggst gera á samsköttun. Breytingum sem fela í sér verulegar skattahækkanir á fjölskyldur í landinu, þvert á kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna um annað. Þá hefur flokkurinn beint sjónum sínum að fyrirhuguðum breytingum á veiðigjöldum, þar sem hækkun var lögð fram án mats á áhrifum og án samráðs við atvinnulífið og sjávarbyggðir í landinu. Slík vinnubrögð grafa undan trausti og eru ekki til þess fallin að skapa sátt um málaflokkinn. Í ljósi umræðunnar um málefni útlendinga undanfarna daga er vert að minna á þann árangur sem náðst hefur á síðustu misserum. Með breytingum Sjálfstæðisflokksins á lögum um útlendinga hefur verið dregið úr misnotkun og ósanngjarnri byrði á kerfið – með því að fella niður séríslenskar málsmeðferðarreglur og færa framkvæmdina nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Stór skref voru tekin til að draga úr útgjöldum til málaflokksins og aðstreymi umsókna. Þetta voru ekki einfaldar ákvarðanir, en nauðsynlegar ef tryggja á burðugra og sanngjarnara kerfi til lengri tíma. Á alþjóðavettvangi ríkir óvissa. Tollastríð, sveiflur á mörkuðum og alþjóðleg átök varpa skugga á þróun heimsviðskipta. Við sjáum hvernig viðskiptastefna er í auknum mæli notuð sem vopn. Þess vegna skiptir utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins máli og þess vegna er lykilatriði að Ísland haldi tryggð við opna alþjóðasamvinnu og gildi frjálsra viðskipta. Viðskipti við umheiminn hafa verið forsenda þess að Ísland geti haldið uppi lífsgæðum sínum, skapað ný störf og tryggt samkeppnishæfni í síbreytilegum heimi. Það er á okkar ábyrgð að verja þann grundvöll. Að láta ekki hugmyndir um sívaxandi ríkisumsvif, þyngri álögur og óábyrgan málatilbúnað grafa undan því sem hefur komið Íslandi meðal ríkja í fremstu röð. Um þessar mundir eru blikur á lofti – en líka tækifæri. Sjálfstæðisstefnan býður upp á leið fram á við: í krafti fólksins, í krafti verðmætasköpunar og í krafti traustra gilda. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. apríl 2025.

Ég hef skrifað nokkrar ádrepur undanfarin misseri um það hvernig landið heldur áfram að sporðreisast með ríkisrekinni byggðaröskun og tilefnunum fjölgar enn. Ríflega 80% landsmanna býr nú milli Hvítánna tveggja, Íslandi til mikils framtíðarskaða. Innviðauppbygging víða um landið hefur setið á hakanum og opinber fjárfesting hefur að mestu leyti átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu, með tilheyrandi ruðningsáhrifum og hörmungum á húsnæðismarkaði, sem bæði hefur hækkað verulega og ekki getað fylgt eftir þessari manngerðu fólksfjölgun á afmörkuðum bletti landsins. Að halda núverandi stefnu áfram er að pissa í skóinn sinn Skammgóður vermir á afmörkuðu svæði, en nístingskuldi er vökvinn kólnar. Á sama tíma og höfuðborgarsvæðið rifnar á saumunum, eru stórir hlutar landsins sem ekki búa við grunnþjónustu nútímasamfélags. Byggðastefna er orðin að einhvers konar fúkyrði í pólitískri umræðu, hallærishugtak með hugrenningartengsl við Jónas frá Hriflu. Það hefur gerst því skammsýni og heimóttargangur þingmanna hefur fengið að ráða för í núverandi ríksstjórn sem og hjá fyrirrennurum hennar, en tekur nú á sig nýjar víddir sem fáum gat hafa dottið í hug. Á undanförnum tveimur vikum hefur skipan í stjórnir opinberra hlutafélaga litið ljós. Þessi fyrirtæki í eigu skattgreiðenda eru Landsnet, Landsvirkjun, Íslandspóstur, Isavia og RARIK. Auk þess að vera í eigu allra landsmanna, eiga þau það sameiginlegt að ekki einn einasti maður eða kona í stjórnum þessara fyrirtækja kemur utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki einn. Þetta kann að veita innsýn í heimóttargang núverandi valdhafa, en ég vona að um sé að kenna þröngu tengslaneti ráðherra sem skipa í þesar stjórnir, en ekki beinlinis illum vilja. Ekki eru bara bjánar úti á landi? Við vitum að nærtækast er alltaf að líta ekki langt, fjárfesta sér nær og horfa almennt ekki yfir hólinn, en heimskt er heimaalið barn. Við skulum gefa okkur að almenn nærsýni og illur vilji hafi ekki ráðið því hvernig málin hafa þróast, en framhjá því verður ekki litið að þessi þróun er mannanna verk og skort hefur stefnu og staðfestu til að sporna á móti. Nokkrar aðgerðir eru nærtækar til að vinda ofan af þessari illu þróun. Fyrst ber að telja að ekki einungis kynjakvóti, heldur einnig landshlutakvóti skuli vera í öllum stjórnum opinberra hlutafélaga, fyrir utan auðvitað venjuleg hæfisskilyrði. Reynsla úr fagi eða sérsviði virðist hins vegar ekki áskilin, eins og glöggt má sjá af skipan sumra stjórna, en því ætti einnig að breyta. Þá þarf að setja Isavia eigendastefnu sem miðar að því að félagið þjónusti, haldi við og markaðssetji aðra flugvelli en Keflavík. Með því fæst eðlilegri uppbygging og jafnari ágangur ferðamanna um landið, sem þannig stuðlar að bættum skilyrðum til uppbyggingar ferðaþjónustu víðar um landið. Vitað er að flestir ferðamenn fara ekki lengra en 150 km frá innkomuflugvelli (Keflavík), sem þá þýðir stjórnlausan ágang á afmarkaða þúfu, sem aftur skapar ósjálfbæra bólu á afmörkuðu svæði. Skipta þarf landinu upp í skilgreind áhrifasvæði sem byggð verða upp með staðsetningu opinberra stofnana, uppbyggingu innviða og ríkum hvötum til atvinnustarfsemi á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Í þessari uppskiptingu mætti jafnvel horfa til fylkisvæðingar, sem þá þýðir jafnframt að hvert fylki tekur ríkari ábyrgð á þjónustu á sínu svæði og fær jafnframt megnið af skatttekjum sem aflast á því svæði. Þá mætti horfa til þess að hvert svæði ráði yfir eigin orkuauðlindum og njóti afraksturs af sölu orkunnar inn á grunnet raforku. Þá ætti að dreifa ráðuneytum og opinberum stofnunum eins og best verður við komið, þannig að einstefnunni suður verði snúið við og tengsl allra landshluta styrkt með tíðari ferðum og samgangi fólks um land allt. Ekki bara höfuðborgarbúar norður á skíði og Norðlendingar suður að sækja opinbera þjónustu eða miðlæga innviði, svo dæmi sé tekið. Í stað þess að vera að mylgra út þunnum grauti í sóknaráætlanir landshluta ætti ríkissjóður fremur að beita skattaívilnunum til einstaklinga og fyrirtækja, sem styrkja þá grundvöll fyrir kröftugri atvinnuuppbyggingu og mannlífi um land allt. Til að jafna leikinn verður að skera upp tekju- og útgjaldagrunn ríkis og sveitarfélaga og halda eftir meiri fjármunum á heimaslóð þannig að nýting fjármuna batni og þeir nýtist þar sem þeirra er brýnust þörf á hverjum stað. Auðlindir landsmanna eru um land allt og á miðunum umhverfis landið, en samt sem áður er það svo að megnið af afrakstrinum er safnað upp á sömu þúfu og engin heildstæð stefna virðist til staðar um að nýta landið allt til annars en skattlagningar sem þá bitnar harkalega á veikum byggðum um land allt. Það verður að brjóta upp ríkisrekna miðstýringu sem hefur leitt til þessarar miklu byggðaröskunar og skapað manngerðar hagvaxtarbólur með reglubundnum hætti á afmörkuðum bletti á höfuðborgarsvæðinu. Aðrir hlutar landsins eru yfirleitt ekki í neinum takti við þróunina á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom okkur þó til góða þegar lág skuldsetning fyrirtækja og heimila á landsbyggðinni gerði höggið eftir fjármálahrunið léttbærara utan höfuðborgarsvæðisins og hjálpaði til við að reisa landið á ný. Tækifæri Íslands í breyttum heimi eru óþrjótandi, en við nýtum þau ekki með áframhaldandi heimóttargangi. Við erum stórt land, ríkt af auðlindum og mannauði, en með takmarkandi þjóðskipulag og heimóttargang til að nýta hvort tveggja. Vindum ofan af þessu og byggjum Ísland allt, allt árið. Þorum að breyta. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson viðskiptafræðingur, flugmaður og áhugamaður um þjóðlíf

"Skattar verða ekki hækkaðir á almenning.“ Þessi setning, og aðrar keimlíkar, voru meðal þeirra skilaboða sem núverandi ríkisstjórnarflokkar sendu kjósendum fyrir kosningar. Fögur fyrirheit í aðdraganda kosninga. Það er snúin staða ef aldrei stóð til að efna gefin loforð. Andspænis þeim vanda hafa valdamenn tvo kosti; að gangast við því að innistæðulaus loforð voru gefin, eða, það sem nú er orðin þjóðaríþrótt ríkisstjórnarinnar, að skilgreina loforðið upp á nýtt. Nú er reynt að hylma yfir raunverulegar fyrirætlanir með orðaleikjum. Skattahækkanir eru nú „leiðréttingar“ og „almenningur“ ekki lengur allir landsmenn – aðeins sumir. Það er engu líkara en það hafi verið ein af hagræðingartillögunum að hagræða sannleikanum. Sannleikurinn er hins vegar sagna bestur. Nú hefur ríkisstjórnin kynnt hvorki meira né minna en þrjár tillögur að skattahækkunum. Í fyrsta lagi hyggst ríkisstjórnin auka skattbyrði fjölskyldufólks um allt land, fólks sem rekið hefur sitt heimili sem eina heild í samvinnu sín á milli, með niðurfellingu samsköttunar. Breytingin er kynnt sem skref í átt til jafnréttis en er í reynd skattahækkun sem bitnar verst á barnafjölskyldum. Í öðru lagi liggur fyrir Alþingi frumvarp sem felur í sér að sveitarfélögin verði í reynd neydd til að hækka útsvar. Leggi sveitarfélög ekki á hámarksútsvar hyggst ríkið skerða framlög til þeirra úr Jöfnunarsjóði. Auðsýnilega er ekki um annað að ræða en hótun í garð þeirra sveitarfélaga sem sýnt hafa ábyrgð í rekstri. Tekið er fyrir möguleika sveitarfélaga til þess að skila ávinningi góðs rekstrar til íbúa í formi lægra útsvars. Hér er seilst lengra ofan í vasa íbúa vel rekinna sveitarfélaga. Útsvarshækkun er skattahækkun á alla, enda greiðir meginþorri launafólks hærra útsvar en tekjuskatt til ríkisins. Í þriðja lagi hyggst ríkisstjórnin stórhækka veiðigjöld á sjávarútveg, undir yfirskini leiðréttingar og réttlætis. Þessi skattahækkun mun draga úr samkeppnishæfni útflutningsgreinarinnar, ógna störfum í minni byggðum og auka óvissu. Þegar álögur aukast á fyrirtæki hefur það keðjuverkandi áhrif á laun, fjárfestingu og lífskjör fólksins í landinu. Þótt ríkisstjórnin reyni eftir fremsta megni að fela skattahækkanir með orðaleikjum ætti engum að dyljast að hún lítur á fólkið og fyrirtækin í landinu sem óþrjótandi tekjulind – vasa sem hægt er að seilast sífellt dýpra og dýpra ofan í. Ríkisstjórn sem kallar skattahækkanir „leiðréttingar“ er ekki að leiðrétta nokkurn skapaðan hlut – hún er að villa um fyrir fólki og víkjast undan eigin ábyrgð. Það á að segja hlutina eins og þeir eru. Skattar verða hækkaðir – bara með öðrum orðum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2025