24. ágúst 2023

Halldór Blöndal 85 ára

Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, er 85 ára í dag. Halldór gegnir nú formennsku í Sambandi eldri sjálfstæðismanna. Halldór var á Akureyri í dag og hitti nokkra félaga og trúnaðarmenn flokksins í tilefni afmælisins.

Hér á Akureyri hóf Halldór Blöndal þátttöku í stjórnmálum á námsárum sínum í Menntaskólanum á Akureyri - hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn hér á svæðinu.

Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, sem erindreki flokksins, þingfréttaritari, starfsmaður þingflokksins, kjörinn fulltrúi - fyrst sem varaþingmaður flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1971-1979 og svo sem alþingismaður frá desemberkosningunum 1979 til vors 2007, síðustu fjögur árin fyrir Norðausturkjördæmi. Hefur líka setið þingflokksfundi sem formaður SES frá 2009.

Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann var forseti Alþingis 1999-2005. Halldór er heiðursfélagi í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sæmdur þeirri nafnbót á 75 ára afmæli félagsins í febrúar 2004 og Málfundafélaginu Sleipni, sæmdur þeirri nafnbót á fundi félagsins í október 2016.

Halldór hefur sem formaður SES sinnt öflugu starfi - verið með fjölmenna og öfluga pólitíska fundi með gestum í Valhöll í hádeginu á miðvikudögum. 



Halldór fór yfir pólitískan feril sinn hér nyrðra og á Alþingi og í ríkisstjórn í þætti Njáls Trausta Friðbertssonar, alþingismanns, vorið 2021.

Sjálfstæðismenn á Akureyri færa Halldóri og fjölskyldu hans innilegar hamingjuóskir í tilefni af afmælinu.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings