25. nóvember 2025
Tryggvi Másson nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins

Björg Ásta Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að láta af störfum en hún hyggur á framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum í heimabæ sínum, Sveitarfélaginu Vogum.
„Undanfarnar vikur hef ég fengið mikla hvatningu til að bjóða mig fram í heimabæ mínum, Vogum, bæ sem ég brenn fyrir. Ég sé þar fjölmörg tækifæri til að efla þjónustu, treysta innviði og halda áfram að byggja upp sterkt og fjölskylduvænt samfélag,“ segir Björg Ásta og heldur áfram:
Björg Ásta Þórðardóttir fráfarandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
„Til að geta undirbúið þá vegferð í góðu samtali við mitt fólk og mína sveitunga, tel ég ástæðu til að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins”
Hún þakkar flokksmönnum öllum fyrir ánægjulegt samstarf og segist hlakka til að bjóða fram krafta sína fyrir flokkinn á vettvangi sveitarstjórnarstigsins.
„Það hefur verið mér mikill heiður að starfa sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins með öflugum hópi sjálfstæðismanna um allt land Ég hef fulla trú á forystunni og því mikilvæga starfi sem framundan er. Þá vil ég óska nýjum framkvæmdastjóra flokksins alls hins besta og velfarnaðar í störfum.”
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir Björgu Ástu hafa lagt sterkt og sýnilegt mark á starf flokksins.
„Björg Ásta hefur unnið afar mikilvægt starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún hefur lagt mikið af mörkum við að efla innra starf flokksins, stutt við kjörna fulltrúa, lagt grunn að kosningabaráttunni framundan og tekið á málum af yfirvegun. Ég er þakklát fyrir hennar framlag og gleðst yfir því að hún ætli nú að beita reynslunni heima í Vogum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur og fellur með sterku fólki í sveitastjórnum um allt land. Ég veit að hún mun láta mikið til sín taka á þeim vettvangi og óska henni velfarnaðar í nýjum verkefnum,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir.
Í hennar stað mun Tryggvi Másson taka við starfi framkvæmdastjóra. Tryggvi, sem er viðskiptafræðingur og atferlishagfræðingur að mennt, er flestum hnútum kunnugur innan Sjálfstæðisflokksins og hefur tekið virkan þátt í starfi flokksins um langt árabil. Tryggvi gegndi stöðu framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins árin 2022-2024. Hann hefur undanfarið starfað við ráðgjöf í fiskeldi en þar áður starfaði hann við viðskiptaþróun hjá Klíníkinni.
„Ég er fullur tilhlökkunar að taka við starfi framkvæmdastjóra flokksins og þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. Í gegnum fyrra starf sem framkvæmdastjóri þingflokks þekki ég vel til flokksstarfsins og þess frábæra fólks sem starfar innan flokksins. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og ég er spenntur að leggja mitt af mörkum í samstarfi við grasrótina um land allt við undirbúning þeirra,“ segir Tryggvi Másson, nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.

