11. júlí 2025

Sorgardagur á Alþingi - frekjukast forsætisráðherra

Stefán Friðrik Stefánsson, ritstjóri Íslendings, skrifar um sorgardag á Alþingi Íslendinga þegar ríkisstjórnin gafst upp á samningaviðræðum og beitti kjarnorkuákvæðinu, 71. grein, til að ljúka umræðu um veiðigjöldin. Frekjukast forsætisráðherra og skortur á samningatækni við að ljúka þingstörfum hafði betur og setur vont fordæmi í íslenskri lýðræðissögu.

Það er dimmt yfir Alþingi á römmu pólitísku hásumri. Beitt er kjarnorkuákvæði til að ljúka þinglegri umræðu um skattahækkunarfrumvarp á byggðir landsins, stoðir samfélagsins, með augljósum vondum afleiðingum. Leikritið í þinginu í gær var augljós fyrirboði þess að samningaleiðin um þinglok var ekki lengur fyrir hendi, leitað leiða til að réttlæta yfirvofandi gjörning. 

Stóra málið er nefnilega að Kristrún Frostadóttir er fyrsti forsætisráðherrann í tæpa sjö áratugi sem springur á limminu í einhverju dramakasti - mistekst að ná sáttum við þinglok á Alþingi. Undir fögru yfirbragði blundar nefnilega dramb og algjör skortur á leiðtogahæfileikum. Skömm Kristrúnar er mikil, hún vinnur ekki á við frekari völd og hefur ekki lyndiseinkenni til að vera farsæll leiðtogi. 

Katrín Jakobsdóttir var vakin og sofin yfir farsæld þingsins og lagði oft mikið af mörkum til að ná samningum við stjórnarandstöðuna og tryggja góðan þingbrag með forystu sinni. Hún stóð í stormi mikilla átaka og erfiðra mála, en náði engu að síður að vera farsæll samningamaður við ríkisstjórnarborðið þegar stór mál voru í miklum þingstormi. Kristrún hefði getað tekið Katrínu sér til fyrirmyndar í vinnubrögðum en fer í hina áttina, ræður ekki við hlutverk sitt og fer í fýlukast eins og smástelpan í afmælinu sem fékk ekki nógu stóra tertusneið.

Þarna er skapað vont fordæmi sem á eftir að koma í hausinn á valkyrjunum þremur sem leiða þessu aumu ríkisstjórn. Þarna er inngrip í þingræðið sem mun ekki líta vel út í sögubókum framtíðar. Geislavirkt fordæmi og vondur fyrirboði um samstarfið í þinginu á þessu kjörtímabili.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings og varaformaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins