Landsbyggðin mótmælir ákvörðun innviðaráðherra og Reykjavíkurborgar

Oddvitar Sjálfstæðisflokksins í 14 sveitarfélögum hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þungum áhyggjum er lýst vegna áforma Reykjavíkurborgar og innviðaráðuneytisins um að hefja jarðvegsframkvæmdir í Skerjafirði vegna fyrirhugaðrar íbúðauppbyggingar.

Þau áform setji framtíð Reykjavíkurflugvallar, og þar með framtíðaröryggi landsbyggðanna í uppnám. Áformin ganga gegn þeim loforðum sett voru í samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og ríkisins árið 2019 um að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar þar til nýr flugvöllur sé tilbúin til notkunar. Þar er gert ráð fyrir að rannsóknum ljúki um gerð nýs flugvallar árið 2024 og í kjölfarið verði hafist handa við slíka uppbyggingu reynist það fýsilegur kostur.

Yfirlýsingin verður lögð fram til samþykktar í öllum sveitarstjórnum landsins sem oddvitarnir fjórtán eiga sæti í. Oddvitarnir segja að byggð í Skerjafirði muni þrengja enn frekar að Reykjavíkurflugvelli og rýra notagildi hans vegna breytinga á vindafari. Þeir leggja áherslu á að öruggt innanlandsflug sé mikilvægt búsetuskilyrði fólks úti á landi og tryggi atvinnulífi, heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu og íbúum aðgengi að mikilvægri þjónustu sem ætluð er öllum landsmönnum.

Ályktun oddvitanna 14 er svohljóðandi:

[Sveitarfélagið] lýsir yfir þungum áhyggjum vegna ákvörðun Innviðaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í Skerjafirði. Með ákvörðuninni er samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2019 haft að engu þar sem forsenda þess var að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar þar til nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.

Reykjavíkurflugvöllur sinnir mikilvægu hlutverk og er lífæð landsbyggðanna. Með uppbyggingu í Skerjafirði er vegið að framtíð og öryggi landsbyggðanna gagnvart sjúkraflugi og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem og aðgengi almennings, atvinnulífi og stjórnsýslu að mikilvægum innviðum.

[Sveitarfélag] skorar á borgarstjórn og Innviðaráðherra að fresta ákvörðuninni þar til að sú vinna sem lagt var upp með í fyrrgreindu samkomulagi sé lokið og framtíðarlausn innanlandsflugs tryggð.

Undir yfirlýsinguna rita:

Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð

Eyþór Harðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Sigríður Guðrún Hauksdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð

Almar Marínósson, formaður Sjálfstæðisfélags Þórshafnar

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi

Freyr Antonsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Dalvíkurbyggð

Baldur Smári Einarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík

Jóhann Birkir Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

Guðmundur Haukur Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Húnabyggð

Hafrún Olgeirsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi

Gauti Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Hornafirði

Ásgeir Sveinsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vesturbyggð

Gísli Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook