Flýtilyklar
Evrópa treystir á Nató
Athygli vakti á nýafstaðinni ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Helsinki afstaða Finna til varnar- og öryggismála. Til umfjöllunar á ráðstefnunni voru öryggis- og varnarmál á norðursvæði Atlantshafsbandalagsins, innrás Rússa í Úkraínu og innganga Finna og Svía í bandalagið.
Nú hafa þjóðþing 28 af 30 aðildarríkjum NATO samþykkt inngöngu þessara vinaþjóða okkar í bandalagið, einungis Ungverjar og Tyrkir eiga formlega eftir að samþykkja inngönguferlið.
Í upphafi ráðstefnunnar héldu m.a. Sauli Niinisto forseti Finnlands, Matti Vanhanen þingforseti, Antti Kaikkonen varnarmálaráðherra og Pekka Olavi Haavisto utanríkisráðherra Finnlands erindi um varnar- og öryggismál Finna, umsókn þeirra og stöðuna í Evrópu.
ESB ekki fært um að sinna varnarhlutverki
Í umræðum á ráðstefnunni var sjónum beint að aðildarumsókn Finna og Svía að NATO. Umtalsefni var hvort regluverk og aðild að ESB dygði ekki til að takast á við ógnir og sameiginlegar varnir. Var þar vitnað til greinar 42.7 sem er hluti af regluverki Evrópusambandsins og var innleidd með Lissabonsáttmálanum og fjallar um sameiginlegar varnir í öryggismálum Evrópusambandsríkja. Sambærileg umræða átti sér stað hér á landi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu þar sem nokkrir Evrópusambandssinnar héldu því fram að öryggi og vörnum Íslands yrði best borgið innan ESB.
Lagagreinin innihaldslaus
Í umræðunum benti finnski utanríkisráðherrann á þá augljósu staðreynd að ekki væri hægt að treysta á varnarbandalag ESB þar sem lagagreinin umrædda tryggði engar varnir í Finnlandi. Á bak við greinina stæði ekkert þegar á reyndi; engin umgjörð væri til um neinar varnir, engir hermenn og hvað þá heræfingar. Það er erfitt að byggja varnir og öryggi á lagagreinum einum og sér þvert á það sem mætti ætla hér á landi miðað við málflutning þingmanna Viðreisnar og Samfylkingarinnar skömmu eftir innrásina.
Finnar fóru í ítarlega skoðun á hvernig öryggi og vörnum landsins yrði best fyrir komið eftir innrás Rússa sem lauk með því að þeir sóttu formlega um inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Ástæða umsóknar Svía og Finna að NATO er einmitt sú að innan NATO er raunverulegt bandalag um varnir og öryggi.
Afdráttarlaus svör
Afdráttarlaus svör Finna varðandi varnar- og öryggismál í Evrópu og umræða ráðstefnunnar um breytta stöðu innan álfunnar vekja spurningar um stöðu varnarmála innan Evrópu. Þegar Finnar og Svíar verða orðnir aðildarríki að NATO verða 23 af 27 þjóðríkjum Evrópusambandsins hluti af bandalaginu, einungis Austurríki, Írland, Kýpur og Malta munu standa fyrir utan.
80% fjárframlaga til varnarmála innan Atlantshafsbandalagsins koma frá þeim níu ríkjum sem standa utan Evrópusambandsins og um 20% frá Evrópusambandsríkjunum.
Þessi hlutföll gætu breyst og þurfa að breytast á næstu árum nú þegar veruleikinn í öryggis- og varnarmálum Evrópu hefur tekið stakkaskiptum eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Við norðanvert Norður-Atlantshafið leika Bandaríkin, Bretland, Kanada og Noregur stórt hlutverk innan NATO í að tryggja varnar- og öryggismál og þar vegur styrkur Evrópusambandsins ekki þungt. Lærdómurinn af innrás Rússa er sá að við stöndum veikt í varnar- og öryggismálum og fleiri þjóðir þurfa að leggja meira til málanna á vettvangi NATO.
Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður og formaður Íslandsdeildar Nató-þingsins
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2022.