Þar sem ánægjan mælist mest

Aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu utan höfuðborg­ar­svæðis­ins er slitr­ótt og biðlist­ar virðast ein­kenna þjón­ust­una. Jafn­vel á stór­um þétt­býlis­kjörn­um eins og á Ak­ur­eyri. Ein­stak­ling­ar njóta því enn síður val­frels­is í heil­brigðisþjón­ustu utan höfuðborg­ar­inn­ar, ef þeir hafa um ein­hverja þjón­ustu að velja yfir höfuð.

Fyrsta skrefið í efl­ingu heilsu­gæsluþjón­ustu um land allt var stigið á síðasta kjör­tíma­bili með inn­leiðingu fjár­mögn­un­ar­lík­ans heilsu­gæslu á lands­byggðinni. Þótt líkanið sé ekki full­komið tókst loks­ins að tryggja að fjár­magn fylgi not­end­um heilsu­gæsl­unn­ar al­veg óháð rekstr­ar­formi henn­ar. Þannig búa not­end­ur og veit­end­ur heil­brigðisþjón­ustu við sam­bæri­leg­ar leik­regl­ur, sem er frum­for­senda þess að hægt sé að færa þjón­ust­una nær íbú­um.

Annað skref var tekið í sum­ar þegar rekst­ur annarr­ar af tveim­ur heilsu­gæsl­um í Reykja­nes­bæ var boðinn út, en þing­flokk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins hafði ein­mitt lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is fyrr í vor. Íbúa­fjöldi Reykja­nes­bæj­ar er sam­bæri­leg­ur og Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar og því fátt ef eitt­hvað sem stend­ur í vegi fyr­ir því að end­ur­taka leik­inn á Ak­ur­eyri. Það er þess vegna sem ég hef nú lagt fyr­ir á Alþingi þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is að heil­brigðisráðherra feli Sjúkra­trygg­ing­um Íslands að bjóða út rekst­ur annarr­ar heilsu­gæslu­stöðvar­inn­ar sem til stend­ur að opna á Ak­ur­eyri.

Næsta skref gæti verið að gera sveit­ar­fé­lög­um í sam­starfi við heil­brigðis­starfs­menn eða heil­brigðis­fyr­ir­tæki kleift að semja við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands um að færa hluta heilsu­gæsluþjón­ust­unn­ar heim í hérað. Þannig gætu smærri sveit­ar­fé­lög tryggt íbú­um sín­um aðgengi að heim­il­is­lækn­um, hjúkr­un­ar­fræðing­um og jafn­vel sál­fræðing­um í sam­ræmi við fjár­mögn­un­ar­lík­an heilsu­gæsl­unn­ar, t.d. hluta úr viku, og eft­ir­lit/​eft­ir­fylgni með fjar­heil­brigðisþjón­ustu. En það er efni í aðra þings­álykt­un­ar­til­lögu.

En af hverju einka­rekst­ur?

Reglu­lega kvikn­ar umræða um einka­rekst­ur í heil­brigðis­kerf­inu og um fjöl­breytt­ar leiðir í rekstri heil­brigðisþjón­ustu. Áður en lengra skal haldið er mik­il­vægt að því sé haldið til haga að leik­regl­urn­ar eru þær sömu óháð rekstr­ar­formi; jafnt aðgengi íbúa, sama komu­gjald og sam­bæri­leg fjár­mögn­un. En af hverju höf­um við þetta þá ekki bara allt í hönd­um rík­is­ins?

1. Val fyr­ir not­end­ur og starfs­fólk

Með því að opna á mögu­leika íbúa til að velja milli heilsu­gæslu­stöðva sem rekn­ar eru hver af sín­um aðilan­um mun íbú­um standa til boða að velja þann veit­anda þjón­ustu sem hent­ar þeim best hverju sinni, veit­ir bestu þjón­ust­una, er með styttri biðtíma eða skemmra frá heim­il­inu. Þannig munu fjár­mun­irn­ir fylgja not­and­an­um þangað sem hann kýs að fara og heilsu­gæsl­urn­ar hafa auk­inn hvata til þess að bjóða upp á betri þjón­ustu.

Það sama má segja um starfs­fólkið, sem mun hafa á milli fleiri kosta að velja og geta valið þann vinnustað sem hent­ar þeim bet­ur, hvort sem hann er rek­inn af rík­inu, sveit­ar­fé­lag­inu eða einkaaðila. Leiða má lík­ur að því að aukn­ir val­mögu­leik­ar um rekstr­ar­form hafi í för með sér að auðveld­ara verði að fá heim­il­is­lækna til starfa á Ak­ur­eyri, en oft hef­ur reynst erfitt að fá sér­fræðinga, hvort sem er á sviði lækn­is­fræðinn­ar eða annarra sér­fræðigreina, til starfa á lands­byggðinni og því mik­il­vægt að gera starfs­um­hverfi þeirra eins fjöl­breytt og aðlaðandi og unnt er.

Ak­ur­eyri hef­ur góða sögu að segja frá því að Heilsu­vernd tók við rekstri hjúkr­un­ar­heim­il­anna Hlíðar og Lög­manns­hlíðar. Þar hef­ur tek­ist að snúa við rekstr­in­um en fyr­ir skipt­in stefndu hjúkr­un­ar­heim­il­in í þrot. Ekki nóg með það held­ur hef­ur ánægja íbúa, aðstand­enda og starfs­fólks með starf­sem­ina auk­ist.

2. Ánægja og aukið traust

Sam­kvæmt þjón­ustu­könn­un Maskínu fyr­ir all­ar 19 heilsu­gæslu­stöðvarn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu frá ár­inu 2021 njóta einka­rekn­ar heilsu­gæslu­stöðvar al­mennt meira trausts en aðrar. Þar kom fram að all­ar fjór­ar einka­reknu heilsu­gæslu­stöðvar höfuðborg­ar­svæðis­ins voru yfir meðaltali þeirra heilsu­gæslu­stöðva sem nutu mests trausts, eins þegar spurt var um ánægju viðskipta­vina, þá röðuðu þær sér í fjög­ur efstu sæt­in.

Ekki nóg með það held­ur hef­ur traust og ánægja með þjón­ustu heilsu­gæslu­stöðva á höfuðborg­ar­svæðinu al­mennt auk­ist, sem gef­ur til kynna að val­frelsi not­end­anna hef­ur ýtt und­ir bætta þjón­ustu á öll­um stöðvun­um, ekki aðeins þeim einka­reknu. Ég af­saka ensku­slett­una en þetta er aug­ljóst dæmi um svo­kallaða „win-win situati­on“.

Betri heil­brigðisþjón­usta á lands­byggðunum

Kost­ir einka­rek­inna heilsu­gæslu­stöðva eru ótví­ræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki ein­ung­is upp á þann kost á höfuðborg­ar­svæðinu held­ur einnig að tryggja lands­byggðunum mögu­leika á að nýta sér þjón­ustu þeirra. Á höfuðborg­ar­svæðinu geta not­end­ur valið milli heilsu­gæsla sem rekn­ar eru af rík­inu og þeim sem eru einka­rekn­ar og þannig valið þann þjón­ustu­veit­anda sem þeim hugn­ast best. Val­frelsi neyt­enda ætti að vera aukið á lands­byggðunum einnig.


Berglind Ósk Guðmundsdóttir
alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur