Að loknum kosningum

Góðir sjálfstæðismenn, kæru vinir.

Það eru langir dagar að baki. Við hófum baráttuna í mótvindi fyrir fáeinum vikum. Við látum slíkt ekki á okkur fá og lögðum enn meira á okkur fyrir vikið. Niðurstaðan varð enda allt önnur en sérfræðingarnir höfðu spáð.

Það hefur verið sannur heiður að vinna með ykkur síðustu vikur. Sjá kraftinn í frábærum frambjóðendum okkar, nýju fólki í bland við reynslubolta í stjórnmálum. Ánægjulegt var að sjá kraftinn í unga fólkinu okkar, framtíðin er björt fyrir flokk sem á jafn glæsilegan hóp ungra sjálftæðismanna og lét til sín taka að þessu sinni. Starfsfólk okkar og sjálfboðaliðar um land allt lyftu grettistaki í baráttunni. Það er ekki sjálfsagt að leggja slíka vinnu á sig með skömmum fyrirvara samhliða öðrum störfum og daglegu amstri. Við skulum öll vera stolt af árangrinum.

Stærstu fréttir þessara kosninga eru þær að eftirspurn eftir vinstri stjórn reyndist ekki fyrir hendi. Tveir vinstriflokkar féllu af þingi og Samfylkingin tapaði fylgi alla baráttuna.

Uppskeran voru ekki þau tíðindi sem margir vilja halda fram fyrir þann flokk, sem haft hefur ellefu ár til að byggja sig upp í stjórnarandstöðu. Allan þann tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið ábyrgð á landsstjórninni.

Við lögðum af stað með skýra stefnu og glæsilega frambjóðendur. Töluðum fyrir lægri álögum og léttari byrðum allra kynslóða, öflugu atvinnulífi um land allt, grænni orkuöflun, minna ríki, raunverulegum umbótum í menntakerfinu og nýtingu nýrrar tækni til að gera meira fyrir minna í opinberri þjónustu.

Þrátt fyrir að staða okkar sé allt önnur og betri en hinna stjórnarflokkanna eigum við ekki að sætta okkur við fylgi rétt undir tuttugu prósentum. Markmiðið nú er skýrt, það er að afla flokknum meiri stuðnings. Þetta verður ekki gert með því að falla frá stefnumálum okkar eða hlaupa undir bagga með þeim sem kynnt hafa plan um tugmilljarða útgjaldaaukningu og hærri skatta.

Valkostirnir nú eru þessir: Annars vegar að mynda borgaralega ríkisstjórn til hægri, líkt og niðurstöður kosninganna eru skýrt ákall um. Hins vegar að veita nýrri ríkisstjórn kröftuga mótspyrnu í stjórnarandstöðu.

Við báðum um breytingar með því að slíta stjórnarsamstarfinu í október, enda sá ég ekki fram á að frekari árangur myndi nást í því mynstri. Það var rétt ákvörðun. Þá höfðum við lagt grunninn og gátum gengið til kosninga með góðri samvisku. Fjárlög voru komin fram og kláruðust, verðbólga er í frjálsu falli, vextir teknir að lækka og munu að óbreyttu lækka hratt á nýju ári. Til þess þarf ekki annað en að framfylgja áfram okkar stefnu með ábyrgri hagstjórn og aðhaldi í ríkisrekstri.

Hvernig sem úr spilast er ég stoltur af árangri okkar, oftar en ekki í skugga stórra áfalla. Heimsfaraldur, innrásarstríð í Úkraínu með fjölgun hælisleitenda um alla Evrópu að ógleymdum hamförunum í Grindavík. Þrátt fyrir áskoranir höfum við staðið sterk og horfum fram á mikil tækifæri til lífskjarasóknar fyrir landsmenn alla.

Næstu dagar fara í að leggja línurnar í samstarfi við þingflokkinn og annað nánasta samstarfsfólk. Ég hlakka til að hitta ykkur aftur fyrr en síðar.

Njótið aðventunnar.


Bjarni Benediktsson
forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook