Þórhallur Harðarson (4. - 6. sæti)

Þórhallur Harðarson, mannauðsstjóri, gefur kost á sér í 4. - 6. sæti í röðun Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 3. febrúar nk. 

Fjölskylduhagir
Þórhallur er kvæntur Anítu S. Pétursdóttur og er þriggja barna faðir. Sævar Ingi 20 ára, Kolbrúnu Perlu 15 ára og Telmu Ósk 13 ára.

Þórhallur H. á ættir að rekja til Akureyrar. Móðir hans Ólöf Hallbjörg Árnadóttir er úr 12 systkina hópi sem ólst upp í Hjarðarholti. Foreldrar hennar voru Sigurður 
Árni Árnason, húsasmíðameistari, vann í Slippnum á Akureyri og Guðrún Hrefna Jakobsdóttir, húsmóðir. Systkini Ólafar sem bjuggu lengst af á Akureyri eru Óðinn og Þór sem unnu lengi vel með Valgarði Stefánssyni, Sigríður gift Ingva Flosasyni, rakara, Hulda Lillý gift Oddi L. Árnasyni Baldur. Önnur systkini Ólafar voru Bragi, Jenný Lind, Stefán, Hörður og Anna Guðrún en þau bjuggu lengst af á höfuðborgarsvæðinu.

Faðir Þórhalls er Hörður Þórhallsson, fyrrum útgerðarmaður og skipstjóri frá Húsavík. Átti og rak í félagi við aðra útgerðina Vísi sem síðar var flutt í Sandgerði. Hörður er sonur Þórhalls Karlssonar, Einarssonar oft kenndan við Túnsberg á Húsavík og Hrefnu Bjarnardóttur, ættuð úr Stapadal við Arnarfjörð á Vestfjörðum.

Starfsferill
Þórhallur er fæddur á Húsavík 12. janúar 1973 og er 45 ára. Frá því í janúar 2015 hefur Þórhallur búið og starfað á Akureyri sem mannauðsstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) sem er nýsameinuð stofnun sex heilbrigðisstofnanna á Norðurlandi. Áður starfaði hann sem rekstrarstjóri, fulltrúi forstjóra og forstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), með búsetu á Egilsstöðum í 10 ár. Þar áður átti hann og rak ásamt maka og foreldrum sínum Fosshótel Húsavík sem einnig rak um tíma Gamla Bauk veitingahús og skólamötuneyti Borgarholtsskóla á Húsavík. Þá starfaði Þórhallur sem veitingastjóri fyrir Bandaríkjaher, varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.

Þórhallur er menntaður viðskiptafræðingur með MLM mastersgráðu (Leadership and Management/forysta og stjórnun) og er einnig útskrifaður úr Hótel og veitingaskóla, er lærður matreiðslumaður. Þórhallur sótti diplómunám í rekstrarfræði við HA.

Félagsstörf
Þórhallur hefur verið virkur í félagsmálastörfum. Hefur starfað í Round Table í 23 ár og verið formaður klúbba, forseti landssamtakanna ásamt því að gegna hlutverki alþjóðatengslafulltrúa. Hann var formaður og gjaldkeri körfuknattleiksdeildar Hattar á Egilsstöðum í fjögur ár.

Var framkvæmdastjóri Dvalarheimilis aldraðra sem rak lítið dvalarheimili og annaðist útleigu íbúða fyrir aldraða fyrir sveitarfélögin Fljótdalshérað, Borgarfjarðarhrepp og Fljótsdalshrepp, sem hann sinnti ásamt starfi sínu við HSA.

Flokksstarf
Þórhallur sat í stjórnum Sjálfstæðisfélaganna á Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshrepp og Borgarfirði Eystra í samtals sjö ár. Var formaður félagsins (3 ár), formaður fulltrúaráðsins (2 ár) og formaður Lagarins félags ungra Sjálfstæðismanna (2 ár). Hann sinnti öðrum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í ýmsum nefndum og ráðum, sem aðal- og varamaður. Helstu nefndir voru Skipulags- og byggingarnefnd, Jafnréttisnefnd, Atvinnu- og menningarnefnd, Umhverfis- og framkvæmdanefnd og Heilbrigðiseftirliti Austurlands (í aðeins hálft ár).

Þórhallur situr nú í Fræðsluráði Akureyrarbæjar og er gjaldkeri Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Hefur hann verið gjaldkeri við tvennar alþingiskosningar og er stoltur að segja frá því að kjördæmisráðið átti fyrir útgjöldum á síðustu kosningum eitt fárra félaga og kjördæmisráða á Íslandi. Aldrei var tekinn yfirdráttur í síðustu kosningabaráttu og var hægt að halda böndum á útgjöldum í baráttunni.

Helstu áherslumál
Fjármál sveitafélagsins og stjórnun þess, fjölskyldu- og velferðarmál, atvinnumál, hagsmunir barna, ungmenna og eldri borgara, fræðslumál, ferðaþjónustan á Norðurlandi og efling samfélagsins á jákvæðan hátt. Að lokum eru það skipulags-, umhverfis- og framkvæmdamál en lengst um sat Þórhallur í nefndum og ráðum fyrir austan. Þá telur Þórhallur eitt brýnasta málið á komandi árum að tryggja raforkuflutninga til Eyjafjarðar. Mjög alvarleg staða getur komið upp ef raforkuskortur hamlar uppbyggingu fyrirtækja og íbúafjölgun á svæðinu.

Áhugamál
Matar- og vínmenning, stjórnmál, veiði, nær samfélagið, félags- og líknarmál.

Annað
Þórhallur hefur búið: á Húsavík, í Reykjavík, Reykjanesbæ, Egilsstöðum (Fljótsdalshéraði), Kaupmannahöfn Danmörk og nú á Akureyri.

Þórhallur var í stuttu skiptinámi við Laurea University, í Helsinki, Finnlandi.

Styrkleikar: á auðvelt með að vinna og stýra í hóp, að vinna að sameiningu í víðum skilningi, vinna þvert á stofnanir og fyrirtæki. Er með víðtæka menntun og fjölbreytta starfsreynslu.

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook