Gunnar Gíslason (1. sæti)

Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi, gefur kost á sér í 1. sæti í röðun Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 3. febrúar nk.


Ég hef setið í bæjarstjórn sem oddviti Sjálfstæðisflokksins frá 2014. Þar hef ég átt sæti í bæjarráði, umhverfis- og mannvirkjaráði, kjarasamninganefnd, stjórn Norðurorku, stjórn LSA og Öldungaráði.

 

Ég er fæddur í Reykjavík 26. júlí 1958, bjó í Hafnarfirði til ársins 1970 en fluttist þá til Akureyrar 13 ára gamall. Ég er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1978 og útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands 1982. Ég lauk meistaranámi í stjórnun við Háskólanum á Akureyri 2015 og hef auk þess sinnt stundakennslu við skólann. Ég var grunnskólakennari í 6 ár, m.a. í Glerárskóla á Akureyri, og skólastjóri í Valsárskóla á Svalbarðsströnd í 12 ár.

Ég sat í sveitarstjórn Svalbarðsstrandahrepps 1990-1998, þar af oddviti á árunum 1994-1998. Ég var fræðslustjóri á Akureyri á árunum 1999-2014, með yfirstjórn leik-, grunn- og tónlistarskóla. Ég hef setið í mörgum stjórnum og nefndum um skóla- og sveitarstjórnarmál og sinnt fjölþættum verkefnum um stjórnsýslu og menntamál.

 

Ég var formaður blakdeildar KA 2000-2002 og varaformaður aðalstjórnar KA sama tímabil. Ég var formaður Ungmennafélags Akureyrar á árunum 2011-2014. Þá var ég um árabil sjálfboðaliði í Laut á Akureyri, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir.

 

Eiginkona mín er Yrsa Hörn Helgadóttir, leik- og grunnskólakennari. Samtals eigum við sjö börn; Helgu Björk, Kristbjörgu, Jöru Sól, Ástu Fanneyju, Kolbein Höð, Melkorku Ýrr og Iðunni Rán og eitt barnabarn; Kristjönu Bellu.

 

Þegar ég hætti sem fræðslustjóri í lok árs 2014 stofnaði ég ráðgjafafyrirtækið StarfsGæði ehf. Hef unnið að verkefnum sem tengjast skólamálum og stjórnkerfi sveitarfélaga með Mosfellsbæ, Akranesi, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit, Langanesbyggð, Svalbarðsstrandarhreppi, Hafnafjarðarbæ, Seyðisfirði, Menntamálastofnun, menntamálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ferilskrá Gunnars Gíslasonar (pdf)

 

 

Stefnumál

 

Ég legg áherslu á:

 

  • skilvirka og gegnsæja stjórnsýslu þar sem íbúalýðræði er virkur þáttur í að bæta og efla þjónustu við alla íbúa.

  • pólitískan bæjarstjóra með skýrt umboð til forystu og framkvæmdastjórnar.

  • lækkun skulda sveitarsjóðs og þar af leiðandi minni vaxtakostnaðar sem nýta má til að lækka álögur á bæjarbúa og/eða bæta þjónustu enn frekar.

  • að ávallt sé leitað hagkvæmustu leiða í rekstri án þess að skerða gæði. Þá sé horft til ólíkra rekstrarfoma s.s. útvistunar þar sem það þykir koma til greina.

  • að Akureyri ná aftur sæti sínu sem forystusveitarfélag á landsbyggðinni.

  • að unnið verði að sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði með það að markmiði að efla sveitarsjórnarstigið í þjónustu við íbúa og í samskiptum við ríkisvaldið.

  • skýra framtíðarsýn sem grunn að langtímastefnu sem byggir á áreiðanlegum gögnum og er rammi allra ákvarðana á hverjum tíma.

  • að Akureyrarbær hugi stöðugt að því hvernig styðja megi við atvinnulífið allt í bæjarfélaginu með það að leiðarljósi að fyrirtæki og stofnanir eflist enn frekar. Það er undirstaða velmegunar að viðhalda og styrkja öflugt og fjölbreytt atvinnulíf.

  • að unnið verði markvisst og skipulega að því að styrkja raforkuflutninga til Eyjafjarðar. Það er grunnforsenda frekari atvinnuuppbyggingar og fólksfjölgunar á svæðinu.

  • að Akureyrarflugvöllur verði millilandaflugvöllur og önnur gátt inn í landið. Tæknibúnaður og öll aðstaða þarf að taka mið af því að flugvöllurinn anni 300 - 500 þúsund farþegum á ári.

  • að áfram verði unnið að útvistun á starfsemi Hlíðarfjalls með það að markmiði að þar verði byggt upp framúrskarandi skíðasvæði og útvistaraðstaða, vetur sem sumar. Gæti orðið ein af perlum Norðurlands.

  • að skipulega verði unnið að því að styðja við og styrkja starfsemi grunn- og leikskóla með það að markmiði að þróa starfshætti sem taka mið af aukinni tæknivæðingu og áherslu á skapandi hugsun, þannig að öll börn nái árangri.

  • að öll börn komist í leikskóla við eins árs aldur eða þegar fæðingarorlofi lýkur. Ríkisstjórnin stefnir að lengingu fæðingaorlofsins í eitt ár, þá á leikskólinn að taka við. Það er pólitísk ábyrgð meirihlutans í bæjarstjórn á hverjum tíma að ávallt séu næg rými til að taka inn börn í leikskóla.

  • að áfram verði unnið að því að verkefninu „Akureyri barnvænt samfélag“.

  • að viðhalda og styrkja það öfluga lista- og menningarstarf sem einkennir Akureyri. Mikilvægt er að fá sambærilega samninga við ríkið og Reykjavík hefur til lista- og menningarstarfs, þar sem Akureyri gegnir sambærilegu hlutverki og Reykjavík á Norður- og Austurlandi.

  • að vinna að framgangi tillagna í nýrri íþróttastefnu sem byggir á því að styðja við ÍBA við að sameina íþróttafélög til að stykja starfsemi þeirra og forgangsraða hugmyndum um uppbyggingu íþróttamannvirkja næstu árin.

  • að hvatt sé til bættrar lýðheilsu í víðasta skilningi þess orðs. Þetta má gera t.d. með því að auka og bæta hjóla- og göngustígakerfi og útivistarsvæði í bænum.

  • bætta ímynd og þjónustu skipulagssviðs. Lögð verði áhersla á að þjónusta íbúa og framkvæmdaaðila ásamt því að sinna eftirliti.

  • að farið sé varlega í þéttingu byggðar. Þéttingu byggðar er nauðsynlegt að skoða á hverjum tíma því áherslur, sjónamið og viðhorf eru á stöðugri hreyfingu. En þá er nauðsynlegt að horfa til lengri framtíðar s.s. 50 ára.

  • að áfram verði unnið að breytingum á Miðbæjarskipulaginu í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Fallið verði endanlega frá þrengingu og tilfærslu Glerárgötunnar og byggingarreitum í Hofsbótinni breytt til samræmis við það. Fyrr verður ekki farið í uppbyggingu á svæðinu.

  • að áfram verði unnið skipulega að því að styrkja ímynd Akureyrar sem framúrskarandi sveitarfélags í umhverfismálum. Starfsemi Vistorku verði áfram öflug.

  • að styðja við uppbyggingu á framúrskarandi þjónustu við fatlaða íbúa Akureyrar, þar sem áhersla er á þjónandi leiðsögn og valdeflingu.

  • að styðja við uppbyggingu á framúrskarandi þjónustu við aldraða. Ná verður samningum við ríkið um að það standi undir þeim kostnaði sem þeim ber sannanlega að standa undir.

  • að ávallt sé til öflugt suðningsnet fyrir þá sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þar sé áhersla á að styðja fólk til sjálfshjálpar eftir því sem framast er unnt. Huga þarf að lausnum vegna húsnæðisvanda þeirra sem ekki standa undir kaupum eða leigu húsnæðis á almennum markaði.

  • að stutt verði við verkefnið Brothætta byggðir í Hrísey og Grímsey. Það verður ekki hjá því komist að styðja íbúa eyjanna við að efla þar atvinnulíf og leita leiða til að bæta lífsskilyrði til þess að draga úr íbúafækkun og helst fjölga íbúum.

  • að Akureyrarbær styðji vel við stjórnendur og starfsmenn SAk vegna uppbyggingar nýrrar legudeildar sem er einn af lykilþáttum frekari þróunar sjúkrahúsþjónustu á Norðurlandi öllu.

  • að Akureyrarbær styðji við starfsemi og uppbyggingu Háskólans á Akureyri með áherslu á fjölgun námsbrauta t.d. raungreina-, tækni- og læknanám.

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook