Yfirlýsing frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri höfum gengið til samstarfs við alla flokka í bæjarstjórn Akureyrarbæjar. Með því myndum við breiða samstöðu um leið afl til að takast á við aðstæður sem upp eru komnar í rekstri sveitarfélagsins, í kjölfar heimsfaraldurs. Um nokkurt skeið hefur legið fyrir vilji til þess að skoða möguleika á samvinnu til þess að takast á við verkefnið sem framundan væri. Við kölluðum þá eftir því þegar til okkar var leitað um að mynda samstöðu um aðgerðir til að styrkja rekstrarstöðu Akureyrarbæjar að þá yrðum við að vera formlegir aðilar að meirihlutastarfi. Þannig væri það tryggt að jafnræði væri algjört milli allra bæjarfulltrúa í aðkomu að verkefninu. Um þetta náðist góð samstaða og hér erum við í dag, komin með samstarfssáttmála sem lögð hefur verið mikil vinna í á skömmum tíma.

Það var og er mat okkar að til þess að efla og styrkja bæjarfélagið okkar verði allir að leggjast á árarnar og að það væri ekki valkostur að við stæðum ein utan þeirrar vinnu sem til stóð að fara í á sem breiðustum grunni. Það er mjög mikilvægt að Akureyrarbær haldi stöðu sinni sem öflugt og gott samfélag þar sem fólk sækist eftir að búa í og fyrirtæki og stofnanir telji fýsilegan kost til að stunda starfsemi. Við teljum það meginhlutverk okkar að stuðla að því að svo verði og því tökum við þetta skref.

Með þessu er ekki verið að leggja pólitík eða gagnrýna umræðu af, en það er verið að breyta henni. Við höfum sammælst um að það standi allir áfram á sannfæringu sinni og ef ekki næst samstaða um einstök mál gera þeir sem ekki eru sammála grein fyrir afstöðu sinni með bókun og á annan opinbera hátt ef svo vill til. Það er hins vegar keppikefli okkar að ná samstöðu um öll mál ef þess er nokkur kostur.

Við teljum að með þessari tilraun náum við að gera umræðuna enn málefnalegri og meira uppbyggilega en oft hefur verið. Það verði til þess fallið að vekja meiri áhuga á pólitísku starfi á sveitarstjórnarstiginu ásamt því að við munum auka samtalið við íbúana um hin ýmsu mál á margvíslegan hátt.

Við förum því inn í þetta samstarf full tilhlökkunar með þá trú að leiðarljósi að sameinuð náum við að gera góða og stóra hluti sem muni gagnast samfélaginu í Akureyrarbæ til framtíðar, svo hér dafni gott, fjölskrúðugt og auðugt mannlíf öllum til heilla.

Gunnar Gíslason
Eva Hrund Einarsdóttir
Þórhallur Jónsson


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook