Ræða Njáls Trausta á opnum fundi á Akureyri 11. september

Kæru vinir

Gaman er að sjá ykkur hér saman komin á opnum fundi í Menningarhúsinu Hofi. 

Ekki er síðra að hafa einnig Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og Jón Gunnarsson, hin ötula alþingismann og ritara Sjálfstæðisflokksins. 

Skammt til kosninga

Eftir nokkra daga kjósið þið fulltrúa ykkar á Alþingi fyrir næstu fjögur ár. Sú ákvörðun varðar alla - og ekki síst þetta kjördæmi. 

Sjálfstæðismenn bjóða fram framboðslista með ólíku en öflugu fólki samstarfs og samstöðu. Það er fólk með fjölbreyttan bakgrunn víða að úr kjördæminu. Ungt og kröftugt fólk - konur og karlar - sem komið er í framvarðarsveit ásamt hinum eldri sem búa að mikilli reynslu. 

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi býður fram öflugan lista í þessum kosningum. Ég leiði stoltur þennan góða hóp. 

Kæru samherjar, 

Á fundum og ferðum um kjördæmið síðustu mánuði hef ég fundið sterkan hljómgrunn sjálfstæðisstefnunnar og meðbyr í Norðausturkjördæmi. Sjálfstæðisstefan er gott veganesti í kosningabaráttu í þessu stóra kjördæmi. Við vitum að hún á ekki síst við í hinum dreifðari byggðum landsins.

Ég er sannfærður um að sjálfstæðisstefnan er byggðastefna. Byggðastefna, en ekki ölmusustefna, heldur um krafa um sanngirni, jafnræði og sömu tækifæri. 

Íbúar landbyggðarinnar skyldu njóta sömu tækifæra, sömu grunngerðar og stoðkerfis og þeir sem búa í margmenni höfuðborgarinnar.

Við sjálfstæðismenn viljum verjast auknum ríkisumsvifum, miðstýringu og sífelldri fjölgun opinberra starfsmanna. Reynslan hefur sýnt að Báknið dregur fjármagnið suður og þrótt úr landsbyggðinni. 

Syðra vilja hinir stjórnlyndu leyfa atvinnulífinu fátt, banna margt og skipulagsbinda sem flest. Þess í stað eigum við að setja skorður við vöxt ríkisvald en fólk og fyrirtæki njóti ávaxta erfiðis síns í heimabyggð.

Þetta er sú stefna sem við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins tölum fyrir.

Kæru vinir,

Sjálfstæðisstefnan á ekki síst við þegar við mætum mótbyr á borð við heimsfaraldur. Sá sem siglt hefur veit að hægt er að beita í vindinn - snúa mótbyr í meðbyr. En þá skiptir máli að vita hvert för er heitið.

Vissa okkar er: Viðspyrnan felst í fólkinu sjálfu. Almenningur í landinu veit að trú á einstakling og athafnafrelsi er besta viðspyrnan. 

Í viðspyrnunni búa tækifæri og bjartsýni til endurreisnar, uppbyggingar og verðmætasköpunar. 

Meginskilaboð okkar sjálfstæðismanna í þessum kosningum eru, að með framfarahug byggjum við saman sterkari og blómlegri byggðir. 

Þannig verður Ísland fyrir alla - land tækifæranna.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook