Nú árið er liðið

Nú er rétt ár liðið frá því sveit­ar­fé­lagið Múlaþing varð til eft­ir að íbú­ar á Borg­ar­f­irði eystra, Djúpa­vogs­hreppi, Fljóts­dals­héraði og Seyðis­firði samþykktu sam­ein­ingu í kosn­ing­um 25. sept­em­ber á síðasta ári.

Þetta fyrsta ár nýs sveit­ar­fé­lags hef­ur á marg­an hátt verið mjög sér­stakt, sumt hef­ur reynst fyr­ir­sjá­an­legt, annað ekki. Það blasti til dæm­is við að kjörn­ir full­trú­ar, starfs­fólk sveit­ar­fé­lags­ins og íbú­ar myndu þurfa tíma til að aðlag­ast nýju stjórn­skipu­lagi þar sem heima­stjórn­ir voru kynnt­ar til sög­unn­ar. Einnig þeirr­ar áherslu sem lögð hef­ur verið á fjar­fundi þegar því verður við komið til að tryggja jafna mögu­leika til þátt­töku í sveit­ar­stjórn­ar­mál­um í víðfeðmu sveit­ar­fé­lagi óháð bú­setu. Fyr­ir íbúa minni byggðakjarn­anna voru það líka viðbrigði að hafa ekki leng­ur sveit­ar- eða bæj­ar­stjór­ann í kall­færi og áfram mætti telja.

Það sem ekki varð séð fyr­ir hins veg­ar var að þetta fyrsta ár myndi líða í skugga heims­far­ald­urs með til­heyr­andi álagi á innviði og að í aðdrag­anda jóla þyrfti að rýma Seyðis­fjörð í kjöl­far nátt­úru­ham­fara. At­b­urðarás­in sem fylgdi í kjöl­far skriðufall­anna á Seyðis­firði ein­kennd­ist af sam­stöðu og sam­hjálp. All­ir í Múlaþingi lögðust á eitt við að aðstoða þá sem áttu um sárt að binda og þegar litið er til baka er ljóst að á þess­um tíma vor­um við öll Seyðfirðing­ar. Það var líka mik­il­vægt að finna þann stuðning sem sveit­ar­fé­lagið fékk frá rík­inu og í sam­starfi við starfs­hóp ráðuneyta um upp­bygg­ingu á Seyðis­firði hef­ur margt áunn­ist þótt enn séu verk­efn­in næg.

Þrátt fyr­ir og kannski að hluta til vegna þessa hef­ur þetta fyrsta ár í Múlaþingi gengið vel og það er líf og kraft­ur í nýju sveit­ar­fé­lagi. At­vinnu­ástand er gott. Á Djúpa­vogi standa yfir fram­kvæmd­ir við höfn­ina þar sem verið er að end­ur­nýja og lengja viðlegukant. Sam­hliða er í bygg­ingu 2.800 ferm. umbúðaverk­smiðja sem ætl­un­in er að taka í notk­un fyrri hluta næsta árs. Einnig er í bygg­ingu fimm íbúða raðhús auk þess sem nokkr­ir ein­stak­ling­ar eru að hugsa sér til hreyf­ings varðandi bygg­ingu ein­býl­is­húsa.

Á Eg­ils­stöðum er upp­bygg­ing. Nýr leik­skóli, sem tek­inn verður í notk­un á næsta ári er í bygg­ingu og nýtt deili­skipu­lag fyr­ir miðbæ­inn hef­ur tekið gildi auk þess sem metnaðarfull­ar hug­mynd­ir eru uppi um skipu­lagn­ingu nýs íþrótta­svæðis. Á Seyðis­firði hef­ur verið lyft grett­i­staki í kjöl­far skriðufall­anna í vet­ur, s.s. í gatna­gerð, mal­bik­un og við gerð varn­argarða og verða verk­tak­ar og aðrir sem að því komu ekki dá­samaðir nóg. Unnið er að því að tryggja ör­ugga land­teng­ingu fyr­ir ferj­una, flutn­ing húsa og stefnt er að gerð land­fyll­ing­ar fyr­ir botni fjarðar­ins. Mik­il upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað á Borg­ar­f­irði, hvort tveggja í íbúðar­hús­næði og í tengsl­um við ferðaþjón­ustu og nú er meira að segja hægt að fara í ríkið og kaupa borg­firsk­an landa!

Sam­starf í sveit­ar­stjórn und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur gengið vel og fyr­ir það ber að þakka. Hinu má ekki gleyma að þótt svo margt hafi áunn­ist og gengið vel á þessu fyrsta ári bíða fjöl­mörg verk­efni, s.s. á sviði at­vinnu-, sam­göngu-, mennta- og um­hverf­is­mála. Íbúar Múlaþings hafa hins veg­ar fulla ástæðu til bjart­sýni og geta litið um öxl stolt­ir yfir því sem áunn­ist hef­ur á þessu fyrsta ári í lífi nýs sveit­ar­fé­lags. Við gerðum þetta öll sam­an.


Gauti Jóhannesson

forseti sveitarstjórnar Múlaþings


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook