Guðfinna Thorlacius látin

Mynd af Guðfinnu Thorlacius úr Degi frá árinu 1966

Guðfinna Thorlacius, hjúkrunarfræðingur og fyrrum bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, lést 22. nóvember sl. 82 ára að aldri.

Guðfinna fæddist í Reykjavík 10. mars 1938 og ólst upp í Vesturbænum. Hún gekk í Miðbæjarskólann og síðar Gagnfræðaskólann við Hringbraut. Guðfinna lauk landsprófi og stundaði nám í MR og lauk þar stúdentsprófi 1958. Hún lauk námi sem hjúkrunarfræðingur við Hjúkrunarskóla Íslands 1961, fór í framhaldsnám í kennslufræði hjúkrunar í Árósum og lauk kennaraprófi árið 1964.

Guðfinna var hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri frá 1961, var hjúkrunarframkvæmdastjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 1965-69 og sá jafnframt um kennslu hjúkrunar- og sjúkraliðanema. Hún var kennari við heilsugæslubraut Gagnfræðaskólans á Akureyri 1969-84 og kennari við VMA á sama sviði 1984-86. Síðustu starfsárin var Guðfinna starfsmaður þjónustuhóps aldraðra á Akureyri.


Framboðsmynd af Guðfinnu úr kosningunum 1986

Guðfinna var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri kjörtímabilið 1986-1990 og sat í ýmsum nefndum fyrir hönd bæjarins á þeim tíma og áður meðan hún var varabæjarfulltrúi. Guðfinna sat í sóknarnefnd kaþólska söfnuðarins á Akureyri um árabil. Hún skrifaði í félagi við Solveigu Jóhannsdóttur bókina Við veitum hjálpina heima, leiðbeiningarit fyrir heimili og heimaþjónustu 1993. Guðfinna sat í stjórn Norðurlandsdeildar Hjúkrunarfélags Íslands 1986-88. Hún var virk í öðrum félagsstörfum,  t.d. í Zontaklúbbnum á Akureyri, Ferðafélagi Akureyrar og St. Georgsgildinu á Akureyri, félagsskap eldri skáta. Hún sótti skátamót langt fram á efri ár. 



Guðfinna og Aðalgeir með dætrum sínum

Eiginmaður Guðfinnu var Aðalgeir Pálsson, rafmagnsverkfræðingur, kennari, skólastjóri Iðnskólans á Akureyri og síðar kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Aðalgeir lést 2016. Dætur þeirra eru: Kristjana arkitekt, Guðfinna prófessor og Margrét kennari. Barnabörnin eru fjögur. Systkini Guðfinnu eru Ólafur Þór Thorlacius og Margrét G. Thorlacius (móðir Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands). Foreldrar hennar voru Guðni Thorlacius, skipstjóri og Margrét Ó. Thorlacius, húsfreyja í Reykjavík.



Sjálfstæðismenn á Akureyri minnast Guðfinnu Thorlacius með hlýhug og þakka fyrir störf hennar í þágu Sjálfstæðisflokksins. Fjölskyldu hennar færum við innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar. 


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook