Frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Yfirferð bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að loknum bæjarstjórnarfundi 15. september 2020

Lokun fangelsisins

Á fundinum ræddum við aðeins um lokun fangelsisins. Bæjarstjórn átti fjarfund á mánudaginn með dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra, þar sem farið var yfir málið og spurningum okkar svarað. Við komum einnig á framfæri vonbrigðum okkar með þessa aðgerð sem við teljum ekki réttlætanlega þegar horft er til hagsmuna ríkisins í heild og sérstaklega ekki þegar horft er til löggæslu á Norðurlandi eystra. Þá mætti lögreglustjóri Norðurlandsumdæmis eystra á fund bæjarráðs í síðustu viku og fór vel yfir þessi mál og áhrif þess á embættið. Þessa skoðun okkar byggjum við því á samtölum við marga aðila og á fyrirliggjandi gögnum.

Um þessi mál er fullkomin samstaða í bæjarstjórn og var eftirfarandi bókun lögð fram í nafni allrar bæjarstjórnar:

„Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun dómsmálaráðherra að loka fangelsinu á Akureyri. Það veldur einnig vonbrigðum að ekki skuli hafa verið haft samráð við bæjarstjórn áður en ákvörðun lá fyrir. Fjölgun um fjögur stöðugildi í lögreglunni nú í kjölfar lokunarinnar er í raun lágmarksviðbragð til þess að gera lögreglunni kleift að sinna hlutverki sínu, samkvæmt áliti ríkislögreglustjóra. Fram hefur komið í samtölum við lögregluna á Norðurlandi eystra að bæta þurfi við minnst 6 stöðugildum til að efla löggæsluna í kjölfar lokunarinnar.

Það er rétt að löggæsla á Norðurlandi eystra hafði verið efld með tilkomu fjármagns til að sinna hálendisgæslu og landamæravörslu, en það hefur ekkert með lokun fangelsisins að gera. Sú aukning kom til vegna ærinna verkefna sem lágu fyrir og það sama á við um fjölgun í sérsveitinni um eitt stöðugildi, þannig að þau eru nú tvö, sem er algjör lágmarksmönnun. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um fjárreiður, stjórnsýslu og stjórnarhætti ríkislögreglustjóra, sem lögð var fram á þessu ári, að árið 2018 voru 1,7 stöðugildi lögreglumanna á hverja 1000 íbúa í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Það hlutfall var með því lægsta sem gerist á landinu og breytist lítið þrátt fyrir fjölgun stöðugilda nú um fjögur. Eftir þessa fjölgun eru 56 föst stöðugildi lögreglumanna í stað 52 áður sem þýðir að það verða 1,8 stöðugildi á hverja 1000 íbúa sem er áfram með því allra lægsta sem gerist.

Þessi staða er með öllu óásættanleg og því hvetur bæjarstjórn dómsmálaráðherra til að bregðast við og bæta minnst 6 stöðugildum við embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra.“

Það skal tekið fram að hér er ekki verið að ganga svo langt að tryggja sjö lögreglumenn á vakt eins og lengi hefur verið óskað eftir hér. Til þess þarf að fjölga lögreglumönnum enn frekar eða um allt að 12.

Skipulagstillaga á Oddeyri
Umdeild skipulagstillaga á Oddeyri var til umræðu á fundinum. Þar lögðum við fram bókun um að sú aðalskipulagsbreyting sem væri til umræðu færi í íbúakosningu áður en hún yrði endanlega afgreidd, og tókum undir bókun um að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en hún felur í sér að hæð bygginga geti orðið allt að 25 metrar yfir sjávarmáli sem samsvarar um 23 metrum frá jörðu.

Samkvæmt samþykktu skipulagi er tilgreint að almennt skuli mannvirkin vera 3-4 hæðir, en þó megi einstaka hús vera hærri. Benda má að samkvæmt gildandi skipulagsreglum flugvallarins er hámarksbyggingarhæð á reitnum 42 metrar. Meirihluti bæjarstjórnar áréttaði að sú mynd sem birt hefur verið í fjölmiðlum af útliti húsa væri ekki til umræðu. Verði aðalskipulagsbreytingin samþykkt að auglýsingu lokinni, tæki við vinna við deiliskipulag þar sem afstaða væri tekin til m.a. byggingamagns, hæðar og útlits.

Oddeyri er mikilvægt svæði þegar kemur að framtíðarþróun Akureyrar og æskilegt er að koma svæðinu í endurnýjun og uppbyggingu sem fyrst. Svæðið sem aðalskipulagsbreytingin á við um sé mjög verðmætt til uppbyggingar og þéttingar byggðar. Þétting byggðar sé hvorutveggja umhverfisvæn og hagkvæm. Hlutfallslegur kostnaður við viðhald gatna, veitna, sorphirðu og snjómokstur á hvern íbúa myndi lækka. Göngu- og hjólafjarlægðir myndu styttast og innviðir á borð við skóla og þjónustu nýttust fleirum ásamt því að auðveldara væri að halda úti almenningssamgöngum.

Kostnaðar- og sviðsmyndagreining um uppbyggingu íþróttamannvirkja
Tekin var til umræðu skýrsla þverpólitísks starfshóps um forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamann-virkja. Það kom fram á fundinum að það þurftu allir að slá af einhverjum kröfum sínum til að ná fram samstöðu um þessa forgangsröðun. Það hafa komið fram ýmsar ábendingar frá íþróttafélögum sem þarf að skoða nánar á næstu árum. Það var hins vegar talið mikilvægt að samþykkja þá forgangsröðun sem var lögð fram í skýrslunni, því það er í raun farið að vinna eftir henni. Það er einnig mikilvægt að allir viti hvar í forgangsröðuninni verkefnin eru. Það er hins vegar ljóst að mörg þessara verkefna munu dragast eitthvað á langinn í ljósi núverandi fjárhagsstöðu Akureyrarbæjar.

En tillagan sem bæjarstjórn samþykkti einróma hljóðar svo:

„Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að forgangsröðun þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri verði höfð til hliðsjónar við undirbúning langtíma fjárfestingaráætlunar bæjarins. Verkefnin voru metin út frá fjárhagslegum og félagslegum forsendum og endurspegla niðurstöður hópsins þá þörf sem er til staðar í bænum. Um tímamótaáætlun er að ræða þar sem horft er til framtíðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri og þeim forgangsraðað. Nú þegar er búið að samþykkja fyrsta verkefnið samkvæmt áætluninni og undirbúningur hafinn á næstu tveimur. Um langtímaáætlun er að ræða og til hliðsjónar verður fjárhagsáætlun hvers tíma.“

Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 – árshlutauppgjör
Fyrir fundinum lá uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Í uppgjörinu kemur eftirfarandi fram:

„Mjög óvenjulegar aðstæður hafa skapast af völdum Kórónuveirunnar COVID-19 og hefur það haft veruleg áhrif áefnahagslíf á Íslandi. Fjárhagsleg áhrif á rekstur Akureyrabæjar það sem af er ári 2020 hafa verið veruleg m.a. vegna lækkunar á tekjum og aukinna útgjalda og hafa þegar verið samþykktir viðaukar við fjárhagsáætlun ársins 2020 að fjárhæð rúmlega einum milljarði króna vegna þessa. Búast má við því að áhrifin verði áfram mikil á næstumánuðum en erfitt er að meta endanleg áhrif á rekstur og fjárhag Akureyrarbæjar meðan óvissa ríkir um hversu lengi þetta ástand varir. Fjárhagsstaða Akureyrarbæjar er sterk og hefur sveitarfélagið fjárhagslegan styrk til að taka á sig áföll vegna afleiðinga faraldursins.“

Þrátt fyrir að fjárhagsleg staða sé sögð sterk þar sem skuldahlutfallið sé lágt þá er það fljótt að fara á verri veg ef tekjuáætlun stenst ekki, kostnaður hækkar og skuldir aukast. Það liggur því fyrir að það er mikið verk að vinna í ljósi þessarar stöðu.
Þá er rétt að huga að því að í þessu uppgjöri kemur fram að veltufé frá rekstri er neikvætt og það þýðir einfaldlega það að ekkert fé er til framkvæmda sem þýðir að allar framkvæmdir þarf að fjármagna með lánum og aukinni skuldsetningu þar með.

Það er þó ljóst að það léttir aðeins á rekstrinum þegar Öldrunarheimilin verða komin úr rekstri Akureyrarbæjar um næstu áramót. Að öðru leyti verður að vísa frekari umræðu til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2021.

Gunnar, Eva Hrund og Þórhallur


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook