Demantshringurinn og skoska leiðin

Hinn stórkostlegi Demantshringur, 250 kílómetra langur hringvegur á Norðurlandi, var loks opnaður um síðustu helgi.

Íslendingar og ferðamenn sem heimsótt hafa landið eru vanir hinum Gullna hring en nærri því hvern einasta dag sl. áratug hafa rútur safnað fólki saman á hótelum í Reykjavík og ekið sem leið liggur hinn rómaða Gullna hring; að Gullfossi, Geysi, Þingvöllum, Skálholti, Kerinu og aftur til baka. Þessi víðfarna ferðamannaleið hefur gert ferðaþjónustunni kleift að vaxa og dafna. Það er því mikil innviðabót sem nýr Dettifossvegur og bundið slitlag hefur fært Norðlendingum og norðlenskri ferðaþjónustu en Norðlendingar hafa í áraraðir kallað eftir þessari samgöngubót.

Á Demantshringnum eru fimm lykiláfangastaðir; hinn sögufrægi Goðafoss þar sem þjóðsagan segir að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi varpað goðalíkneskjum sínum þegar hann sneri heim frá Lögbergi, til staðfestingar á því að hann hefði tekið nýjan kristinn sið; náttúruperlan Mývatn, Dettifoss sem er aflmesti foss í Evrópu, náttúruundrið Ásbyrgi sem lætur hvern þann snortinn sem þangað kemur, og Húsavík sem er hvalaskoðunarhöfuðborg landsins en hefur nú hlotið náð fyrir augum heimsins á nýjan og annan skemmtilegri hátt – í gegnum streymisveituna Netflix.

Íslendingar leggja sitt af mörkum
Samkvæmt umfjöllun á ferðavefnum Túristi.is stóðu Íslendingar undir um sjö af hverjum tíu gistinóttum á íslenskum gististöðum í júlí. Til samanburðar í fyrra var vægi þetta innan við fimmtungur af heildinni. Vissulega skrifast skýringin á heimsfaraldur kórónuveiru, samdrátt í utanlandsferðum landsmanna vegna veirunnar og ferðatakmarkanir. En sumarið endurspeglaði jafnframt vilja hjá landsmönnum til að kynnast landinu sínu upp á nýtt og ferðast innanlands. Ísland, landið okkar hefur eins og margir hafa kynnst á ferðalögum sínum í sumar, upp á svo margt að bjóða – ótal afþreyingarmöguleika og fallega náttúru. Hér er líka allt til staðar, fjölbreytt gistiþjónusta, nóg af bílaleigubílum og flugvélar til að komast landshluta á milli á skömmum tíma.

En þrátt fyrir mikinn samdrátt í alþjóðafluginu er mikið minni samdráttur í innanlandsfluginu, en rétt um fjörutíu þúsund farþegar fóru um innanlandsflugvelli landsins í júlí. Hlutfallega fækkaði farþegum minnst á Egilsstöðum en mest í Reykjavík og á Akureyri og er það vissulega umhugsunarefni. Hátt verðlag í innanlandsflugi er fyrir löngu farið að bitna á lífsgæðum þeirra sem búa úti á landi. Þetta þekkjum við. Það er dýrt að fljúga og íbúar landsins verða að geta sótt sér nauðsynlega miðlæga þjónustu á vegum ríkisins með greiðari samgöngum. Nauðsynlegt er því að koma til móts við hátt verðlag á innanlandsflugi og hef ég lengi, bæði sem þingmaður og formaður starfshóps um uppbyggingu flugvallakerfisins og eflingu innlandsflugsins, talað fyrir innleiðingu á skosku leiðinni svokölluðu sem veitir íbúum með lögheimili á ákveðnum landssvæðum rétt til afsláttar á flugfargjöldum.

Skoska leiðin tekur flugið
Hin skoska leið felur í sér heimild fyrir ríkissjóð til að niðurgreiða fargjöld íbúa og nemenda af landsbyggðinni til að jafna aðgengi þeirra að þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Niðurgreiðslan samkvæmt skosku leiðinni nær aðeins til einstaklinga sem búa á viðkomandi svæði, ekki til fyrirtækja eða einstaklinga sem vilja sækja svæðið heim sem ferðamenn.

Samkvæmt nýrri flugstefnu fyrir Ísland er niðurgreiðsla á flugi íbúa á landsbyggðinni til höfuðborgarinnar orðin að veruleika og hóf skoska leiðin formlega göngu sína í þessari viku en síðustu mánuði þessa árs munu íbúar landsbyggðarinnar, sem búa í meira en 275 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni, fá endurgreiddan hluta fargjalds af ferð til og frá Reykjavík eða af tveimur flugleggjum á þessu ári en af sex flugleggjum á því næsta. Verkefnið er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna og að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt. Flug til Eyja hefur hingað til verið rekið á markaðsforsendum og fór Flugfélagið Ernir sína síðustu áætlunarferð, í bili að minnsta kosti, til Vestmannaeyja þann 4. september sl. Nú gæti hins vegar orðið breyting á þegar niðurgreiðslur ríkisins í innanlandsflugi komast í gagnið en 200 milljónir króna eru eyrnamerktar í verkefnið á þessu ári og um 600 milljónir króna eru áætlaðar á því næsta.

Meginmarkmiðið er ljóst
Meginmarkmiðið er ljóst að mínu mati, þ.e. að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Ísland er og verður í fararbroddi með lausnir fyrir nútímainnviði, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og bætt lífskjör landsmanna. Þessu megum við ekki gleyma þrátt fyrir að efnahagur okkar og atvinnulíf standi frammi fyrir erfiðum tímum, því verður að hafa hugfast að þeir eru tímabundnir, ekki varanlegir.


Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og nefndarmaður í atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd Alþingis


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook