Demantshringurinn formlega opnaður

Demantshringurinn, 250 kílómetra ferðamannaleiðar sem tengir saman fjölda áfangastaða á Norðurlandi, var opnaður með formlegum hætti á Dettifossvegi í gær.  

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra opnuðu leiðina með því að klippa á borða sem strengdur var yfir nýjan Dettifossveg milli Dettifoss og Vesturdals við Jökulsárgljúfur.

Með þessari opnun er hægt að keyra milli Húsavíkur, Goðafoss, Mývatnssveitar, Dettifoss og Ásbyrgis á bundnu slitlagi en kallað hefur verið eftir þessari samgöngubót í áraraðir. Gamli vegurinn milli Dettifoss og Ásbyrgis var torfarinn og ófær stóran hluta ársins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, sagði í tilefni opnunarinnar: „Opnun Demantshringsins er stór áfangi fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi. Á óvissutímum í ferðaþjónustu er mikilvægt að huga að uppbyggingu til framtíðar. Ferðamannaleiðir á borð við þessa eru mjög góð nálgun til að vekja athygli á einstakri náttúru þessa svæðis. Allir sem hafa unnið lengi að verkefninu eiga hrós skilið og ég gleðst fyrir hönd þeirra ferðamanna sem munu í fyllingu tímans upplifa náttúruperlur og menningu svæðisins en hefðu mögulega annars farið á mis við þær.“


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook