Birgir forseti Alþingis - stjórnarflokkarnir með sjö nefndarformenn

Birgir Ármannsson var kjörinn forseti Alþingis á framhaldsfundi þingsetningar í dag. Birgir er þriðji í starfsaldursröð þingmanna á eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Hann hefur setið á Alþingi af hálfu Reykvíkinga frá árinu 2003 og var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 2017-2021. Birgir var 6. varaforseti Alþingis 2003–2005, 3. varaforseti 2005–2007 og 2. varaforseti 2016–2017. Áður en Birgir náði kjöri á Alþingi starfaði hann hjá Verslunarráði Íslands, síðustu árin sem aðstoðarframkvæmdastjóri.

Birgir hefur setið í allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, kjörbréfanefnd, sérnefnd um stjórnarskrármál, viðskiptanefnd, umhverfisnefnd, saksóknarnefnd, þingskapanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, utanríkismálanefnd, velferðarnefnd, allsherjar- og menntamálanefnd. Þá hefur hann setið í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins, Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, Íslandsdeild VES-þingsins, Íslandsdeild NATO-þingsins og Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins. Birgir er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Stjórnarflokkarnir fara með sjö af átta nefndaformennskum þingsins. Njáll Trausti Friðbertsson verður áfram varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Nató-þingsins auk þess að taka sæti í umhverfis- og samgöngunefnd. Berglind Ósk Guðmundsdóttir tekur sæti í atvinnuvega­nefnd, stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd, og Íslandsdeild þing­manna­ráðstefnunnar um norðurskautsmál.

Sjálfstæðisflokkurinn fer með þrjár nefndaformennskur. Guðrún Hafsteinsdóttir verður formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Vilhjálmur Árnason verður formaður umhverfis- og samgöngunefndar og Bryndís Haraldsdóttir verður formaður allsherjar- og menntamálanefndar.

Framsóknarflokkur og VG fá tvær formennskur hvort. Stefán Vagn Stefánsson verður formaður atvinnuveganefndar, Líneik Anna Sævarsdóttir verður formaður velferðarnefndar, Bjarkey Gunnarsdóttir verður formaður fjárlaganefndar og Bjarni Jónsson verður formaður utanríkismálanefndar.

Stjórnarandstaðan fær eina formennsku. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, verður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook