Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til íbúakosningu um aðalskipulagstillögu á Oddeyri

Umdeild skipulagstillaga á Oddeyri var til umræðu í bæjarstjórn Akureyrar í gær. Þar lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun um að sú aðalskipulagsbreyting sem væri til umræðu færi í íbúakosningu áður en hún yrði endanlega afgreidd, og tóku undir bókun um að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en hún felur í sér að hæð bygginga geti orðið allt að 25 metrar yfir sjávarmáli sem samsvarar um 23 metrum frá jörðu.

Samkvæmt samþykktu skipulagi er tilgreint að almennt skuli mannvirkin vera 3-4 hæðir, en þó megi einstaka hús vera hærri. Benda má að samkvæmt gildandi skipulagsreglum flugvallarins er hámarksbyggingarhæð á reitnum 42 metrar. Meirihluti bæjarstjórnar áréttaði að sú mynd sem birt hefur verið í fjölmiðlum af útliti húsa væri ekki til umræðu. Verði aðalskipulagsbreytingin samþykkt að auglýsingu lokinni, tæki við vinna við deiliskipulag þar sem afstaða væri tekin til m.a. byggingamagns, hæðar og útlits.

Oddeyri er mikilvægt svæði þegar kemur að framtíðarþróun Akureyrar og æskilegt er að koma svæðinu í endurnýjun og uppbyggingu sem fyrst. Svæðið sem aðalskipulagsbreytingin á við um sé mjög verðmætt til uppbyggingar og þéttingar byggðar. Þétting byggðar sé hvorutveggja umhverfisvæn og hagkvæm. Hlutfallslegur kostnaður við viðhald gatna, veitna, sorphirðu og snjómokstur á hvern íbúa myndi lækka. Göngu- og hjólafjarlægðir myndu styttast og innviðir á borð við skóla og þjónustu nýttust fleirum ásamt því að auðveldara væri að halda úti almenningssamgöngum.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook