Bókanir bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar á þriðjudag með 6 atkvæðum meirihluta L-lista, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Bæjarfulltrúar minnihlutans, fulltrúar Sjálfstæðisflokks, VG og Miðflokks, sátu hjá í atkvæðagreiðslunni.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Eva Hrund Einarsdóttir, Þórhallur Jónsson og Lára Halldóra Eiríksdóttir (sat fundinn í fjarveru Gunnars Gíslasonar), lögðu fram eftirfarandi bókun við afgreiðsluna:


Þessi fjárhagsáætlun tekur að mestu mið af þeirri rekstrarstöðu sem er vegna fjölgunar stöðugilda og útgjaldaaukningar síðustu ára. Frá árinu 2017-2019 hafa stöðugildi aukist um sextíu í A-hlutanum og ekki má sjá að þeim fari fækkandi. Við bentum á að sú þróun væri varasöm ef ekki yrði brugðist við strax með aðhaldsaðgerðum á móti. Það var ekki gert og því er sem er.

Nú er svo komið að bréf hefur borist frá eftirlitsnefnd fjármála sveitarfélaga þar sem bent er á slæma stöðu Akureyrarbæjar. Staðan er orðin þannig að við getum engan veginn sætt okkur við að samþykkja fjárhagsáætlun sem sýnir verulegt tap á A-hluta Akureyrarbæjar.


Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögu meirihlutans um fasteignagjöld og bókuðu eftirfarandi við afgreiðsluna:

Í fyrri umræðu fjárhagsáætlunar stóð til að lækka fasteignagjöld í 0.32 og erum við ósátt við að sú ákvörðun gangi til baka. Sveitarfélögin eru í miðjum kjarasamningaviðræðum þar sem þetta er eitt af þeim atriðum sem mótsamningsaðili er að horfa á. Því hefðum við talið mikilvægt að halda okkur við fyrri áætlun. Akureyrarbær hefur á brattan að sækja með að laða að sér fyrirtæki og íbúa um þessar mundir og erum við á því að þetta sé ekki leið til þess að stuðla að jákvæðri þróun í þeim efnum.

Við erum á því að ríkara tilefni sé að stuðla að því að laða hér fleiri að sem greiða þá útsvar til þess að standa undir kostnaði af því að reka sveitarfélagið en að hækka fasteignaálögur. 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook