Við áramót

Ágæta sjálfstæðisfólk og aðrir Akureyringar!

Við áramót er venja að minnast atburða liðins árs ásamt því að velta upp möguleikum á komandi ári. Það er með þetta í huga sem ég rita þessar línur til ykkar nú. 

Árið 2014 var viðburðaríkt enda kosningar til bæjarstjórnar á árinu og þeim fylgir jafnan mikið og öflugt flokksstarf hjá Sjálfstæðisflokknum. Árið byrjaði með prófkjöri sem blásið var til í febrúar, þar sem 11 einstaklingar gáfu kost á sér. Baráttan var málefnaleg og kröftug. Í kjölfarið var settur saman listi 22 öflugra einstaklinga, karla og kvenna víða að úr samfélaginu.

Þetta var sterkur listi sem vann þétt saman. Ásamt þeim komu fjölmargir að kosningabaráttunni sem í hönd fór. Það var virkilega skemmtilegt að sjá hve sterk liðsheildin varð og hve vel allir unnu saman að því eina markmiði að vinna góðan kosningasigur. Markmiðið var sett á 26 – 28% fylgi og a.m.k. þrjá fulltrúa í bæjarstjórn. Þetta markmið náðist, en því miður tókst ekki að ná mönnum saman um meirihlutasamstarf þar sem núverandi meirihluti hafði verið myndaður allnokkru fyrir kosningar. 

Í ljósi þessarar stöðu var tekin sú ákvörðun að vera með mjög virkt minnihlutastarf, koma helst með mál inn á hvern bæjarstjórnarfund og fylgja stefnuskrá flokksins vel eftir í öllum nefndum. Stefnuskráin er enda mjög góð og að gerð hennar komu ríflega 300 Akureyringar með ýmsum hætti. Þetta hefur sannarlega verið gert og er lagt upp úr málefnalegu aðhaldi og frumkvæði á öllum sviðum.

Það er hverjum stjórnmálamanni mikilvægast af öllu að hafa virkt og gott bakland. Það höfum við sjálfstæðismenn haft og  ber að þakka hve vel hefur verið mætt á bæjarmálafundi flokksins og aðra þá fundi sem starfinu tengjast. Þessu öfluga flokksstarfi þurfum við að viðhalda og efla. Framundan eru erfið en brýn verkefni í bæjarmálunum og til þess að við getum náð okkar málum og áherslum fram verðum við að koma vel undirbúin til leiks. Það gerum við ekki nema með góðu og virku samstarfi sem flestra.

Eins og fram hefur komið gerir fjárhagsáætlun ráð fyrir verulegum hallarekstri á bæjarsjóði á árinu 2015. Þetta er staða sem á að heyra til undnatekninga. Það vantar um 400 milljónir upp á að útsvarstekjur standi undir launakostnaði bæjarsjóðs. Þetta þýðir aðeins tvennt, annað er að auka tekjur og hitt er að lækka launakostnað. Sennilega þarf að gera hvorutveggja að einhverju marki. Það þarf því að leggjast í mikla rýni á öllum möguleikum til að styrkja bæjarsjóð svo hægt sé að ráðast í mikilvæg verkefni sem snúa að öflugri og betri þjónustu við íbúa bæjarins.

Við aukum tekjur bjæjarsjóðs fyrst og fremst með því að fjölga störfum, vel launuðum störfum. Það er ekki nóg að fjölga hér opinberum störfum með flutningi stofnana eða öðrum leiðum. Á Akureyri er fjöldi starfa í opinbera geiranum mjög hátt hlutfall af öllum störfum í bæjarfélaginu. Það verður að skapa aðstæður til að fjölga fyrirtækjum og störfum á almennum markaði.

Þar þarf að horfa til nýsköpunar og tækifæra sem liggja í hafnsækinni starfsemi í Dysnesi. Þá þarf að efla ferðaþjónustu og afleidd störf henni tengd. Þar getur bærinn komið að með því að bjóða utanaðkomandi aðilum aðkomu að uppbyggingu og rekstri Hlíðarfjalls. Bæjaryfirvöld eiga að vinna hörðum höndum að því að fá beint flug til Akureyrar erlendis frá. 

Ekki má gleyma því að styðja við og efla þau fyrirtæki sem eru til staðar t.d.  matvæla- og sjávarútvegsfyrirtækin sem skipta samfélagið miklu. Sjávarútvegurinn er þó sennilega hvergi mikilvægari en í Hrísey og Grímsey. Þar er mikilvægt að styðja vel við þá starfsemi, ásamt því að fjölga öðrum atvinnutækifærum til að viðhalda byggðinni.

Eitt af stærstu hagsmunamálum íbúa næstu árin verður að fá tryggari raforkuflutninga í bæinn. Staðan er þannig nú að ef ekkert verður að gert mun ekki eiga sér stað frekari uppbygging fyrirtækja, stórra né smárra. Í þessu efni verða allir að leggja sitt af mörkum því þetta mál virðist ekki verða auðleyst.

Ágæta sjálfstæðisfólk og aðrir Akureyringar, ég hef hér reifað málin eins og þau horfa við mér um áramót. Það er mikil og skemmtileg vinna framundan sem ég vonast til að við bæjarfulltrúar getum unnið málefnalega að ásamt ykkur. Ég hef lengi haldið á lofti kínverksu máltæki: „Kveiktu á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu!“ Það felur það í sér að við eigum ávallt að leita lausnanna.

Það er það sem leggja þarf áherslu á og gera af ábyrgð á hverjum tíma. Ég skora á ykkur að taka þátt og hafa áhrif. Samtakamátturinn er mikill og með hann að vopni getum við gert Akureyri að eftirsóknarverðu sveitarfélagi til búsetu sem gerir öllum kleift að þroska hæfileika sína og skapa sín eigin tækifæri.

Kveðjur bestar!
Gunnar Gíslason


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook