Við áramót

Eins og venja er um áramót er ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg og horfa svo til framtíðar.

 

Á árinu 2018 var gengið til sveitarstjórnarkosninga. Við í Sjálfstæðisflokknum lögðum mikla vinnu í undirbúning kosninganna og baráttuna sjálfa. Í aðdraganda þeirra var rætt við fjöldan allan af íbúum og stefnuskráin unnin upp úr því sem þar koma fram að miklu leyti. Þá stilltum við upp mjög frambærilegum lista með öfluga einstaklinga innanborðs. Þrátt fyrir mikla og góða vinnu fjölmargra flokksfélaga, sem ég vil þakka kærlega fyrir sitt framlag, urðu úrslit kosninganna ekki í samræmi við væntingar okkar og þá einu skoðanakönnun sem birt var opinberlega.

Þetta voru að sjálfsögðu vonbrigði fyrir okkur. Þrátt fyrir það að vera enn og aftur stærstur flokka með þrjá fulltrúa erum við í minnihluta þriðja kjörtímabilið í röð. Þessi staða minnir að hluta til á úrslit kosninga 1974 þegar flokkurinn vann frækinn kosningasigur, fékk rúm 40% atkvæða og fimm bæjarfulltrúa en sat eftir sem áður í minnihluta kjörtímabilið 1974 - 1978. Það er allt gert til að halda okkur frá stjórnartaumunum og þar með vilji nærri fjórðungs kjósenda virtur að vettugi.

Við höfum því tekið þá stöðu að veita meirihlutanum stíft aðhald og málefnalega andstöðu þegar það á við. Það verður ekki erfitt þar sem málefnasamningur núverandi meirihluta er einn sá loðnasti sem sést hefur. Þar er vart hægt að festa hönd á neinu einstöku máli sem þau ætla sér að vinna að á kjörtímabilinu.

Þetta hefur komið berlega í ljós við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2019 sem er að bresta á. Þar eru mikilvægir málaflokkar skildir eftir í lausu lofti s.s. hvernig skal mæta þörf barnafjölskyldna fyrir leikskólapláss fyrir börn frá 12 mánaða aldri, óskum íþrótta- og tómstundafélaga um frekari uppbyggingu og þá er engan veginn hægt að átta sig á því hver ætlun þeirra er með miðbæinn okkar. Það er því eðlilegt að hugsa sem svo að það ríki ekki einhugur innan þessa meirihluta og spurning hvernig þau ætla sér að vinna úr mörgum erfiðum málum sem bíða lausnar á árinu sem senn gengur í garð.



Íbúaþróun

Á árinu sem er að líða fjölgaði íbúum á Akureyri um 120 - 130 eða 0,7%. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið er stærstu hluti þeirra einstæðir erlendir karlmenn, erlent vinnuafl. Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni. Hvar eru ungu barnafjölskyldurnar? Þær eru eftir því sem best verður séð að flytja í nágrannasveitarfélögin sem bjóða ódýrar lóðir og leikskólavist frá 9 - 12 mánaða aldri. Við sjáum á aldursdreifingu á Akureyri að hlutfall barna og barnafjölskyldna hefur lækkað mjög mikið á síðustu 20 árum en íbúar eldri en 50 ára verða sífellt stærri hluti.

Þetta er ein ástæða þess að bregðast verður við með marvissum aðgerðum því eins og fram kom á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í október síðastliðnum verður rekstur Akureyrarbæjar ekki sjálfbær innan nokkurra ára vegna þess að hlutfall íbúa á vinnufærum aldri verður of lágt. Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum því lagt áherslu á að allri óvissu barnafólks um leikskólavist fyrir börn þeirra verði eytt og áhersla verði á uppbyggingu atvinnutækifæra. Það ásamt hóflegri gjaldtöku eru forsendur íbúaþróunar hér til viðbótar öllum öðrum lífsgæðum sem eru með miklum ágætum og verður vikið að síðar í pistli þessum.

 



Atvinnumál

Á Akureyri er fjölbreytt atvinnustarfsemi. Þar skipar opinber þjónusta stóran sess ásamt sjávarútvegi og iðnaði tengdum honum ásamt verslun og þjónustu ýmis konar. Þetta sést vel þegar skoðuð eru heildarlaun á Akureyri eftir atvinnugreinum fyrir árið 2017 á myndinni hér fyrir ofan í milljónum króna á verðlagi ársins 2016 (Byggðastofnun). Vægi iðnaðar og mannvirkjagerðar hefur aukist nokkuð frá árinu 2015 en vægi atvinnugreina í ferðaþjónustu hefur aukist minna milli áranna og mun minna en almennt gerist á landinu öllu eða höfuborgarsvæðinu.

Þetta er að því leytinu til athyglisverð þróun vegna þeirra miklu aukningar sem verið hefur í ferðaþjónustinni á Suður- og Vesturlandi. Vegna þess að raforka er af skornum skammti hér á Eyjafjarðarsvæðinu getum við ekki búist við auknum atvinnutækifærum sem tegjast nýtingu orkunnar á næstu árum. Það er því aðeins ein leið til að fjölga atvinnutækifærum og það er í ferðaþjónustinni.

Til þess að svo megi verða þarf að koma á beinu millilandaflugi til Akureyrar sem allra fyrst. Nú eru horfur á að það sé að gerast. En til þess að geta tekið sómasamlega á móti auknu millilandaflugi verður að stækka flugstöðina og flughlaðið tengt henni. Það á því að vera forgangsverkefni okkar í bæjarstjórn að koma þeim verkum áfram með þeim aðgerðum sem eru líklegastar til að flýta þeim eins og kostur er. Tími bókana í bæjarráði og bæjarstjórn er liðinn og runninn er upp tími aðgerða ef ekki á illa að fara.

 

Þjónusta

Akureyrarbær er að veita mjög mikla þjónustu almennt séð og ver mun stærri hluta skatttekna til félagsþjónustu, íþrótta og tómstunda og menningarmála en sambærileg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Útgjöld Akureyrarbæjar líkjast mun meira því sem gerist hjá Reykajvíkurborg. Það má því með sanni segja að Akureyri sé borgarsamfélag og í raun ætti að vera tekið tillit til þess við útgjaldajöfnun Jöfnunarsjóðs. Þetta leiðir til þess að fjöldi stöðugilda hjá Akureyrarbæ er mun meiri á hverja 1000 íbúa en gerist hjá sambærilegum sveitarfélögum, jafnvel þó tekið sé tillit til Öldrunarheimilanna, slökkviliðsins og strætó.

Þessi þjónusta er nauðsynleg í nútímasamfélögum og það á að vera tryggt að allir íbúar búi við góð kjör og aðstæður. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort þau sveitarfélög sem liggja næst Akureyri eigi ekki að taka ríkari þátt í þessum kostnaði þar sem þau njóta samlegðarinnar. Annar möguleiki er einnig sá að sveitarfélögin í Eyjafirði sameinist og myndi þannig öflugra samfélag sem getur staðið betur undir þeirri þjónustu og uppbyggingu sem þörf er á og allir í raun sammála um.

 

Það er eitt af stóru verkefnum næstu ára að skoða þá möguleika sem í stærra samfélagi liggja. Reyndar má ætla að með tilkomu Vaðlaheiðarganga hafi þetta svæði stækkað og nái nú austur fyrir Vaðlaheiði.

 

Skólamál

 

Akureyri hefur gjarnan verið kallaður skólabær. Það er ekki að ástæðulausu þar sem hér eru skólar á öllum stigum, tónlistarskóli, myndlistarskóli og nú hefur Háskólinn fengið heimild til doktorsnáms sem er mikið fagnaðarefni. En það er verkefni útaf fyrir sig að standa undir slíku nafni. Það er ekki nóg að bjóða upp á skóla, þeir þurfa að vera góðir og þar á að stunda framúrskarandi starf. Það gerist ekki í tómarúmi eða af sjálfu sér. Það er því afar mikilvægt að stjórnendur og starfsfólk skólanna verði stutt með öllum ráðum við að gera skólastarfið enn betra og þróa starfshætti í takt við þróun samfélagsins.

Það verður ekki gert nema með því að leggja ríka áherslu á starfsþróun sem nær inn á vettvang skólastarfsins þ.e. inn í skólastofuna og það sem gerist þar. Stjórnendur þurfa að leggja rækt við starfsfólkið sitt og leiða það þannig að allir upplifi sig skipta máli, að á þá sé hlustað og stuðningur við nýjar aðstæður eða erfiðar sé ávallt til staðar. Í börnunum okkar liggur framtíð samfélagsins og því verður að tryggja að þau búi ávallt við sem bestar aðstæður í skóla og utan hans og árangur skólastarfsins sé með þeim hætti að öll hafi þau möguleika til að velja sér áhugavert og innhaldsríkt hlutverk í samfélaginu þegar á fullorðinsár er komið.

 

Við sem bæjarfulltrúar þurfum að vera vakandi fyrir því að við leggjum grunn að þessu starfi með ákvörðunum okkar og mættum fjalla mun oftar um skólamál almennt séð í bæjarstjórn en við gerum, enda fer tæpur helmingur allra tekna bæjarins í þennan málaflokk.

 

Umhverfismál

 

Umhverfismál eru mjög áberandi í allri umræðu þessi dægrin. Akureyrarbær hefur lengi staðið framarlega í umhverfismálum og var grunnurinn að núverandi stöðu lagður með verkefninu Staðardagskrá 21 sem hleypt var af stokkunum upp úr síðustu aldamótum. Hér hefur sorp verið flokkað um árabil og náðist strax góður árangur í þeim efnum með ótrúlegum vilja bæjarbúa allra. Við keyrum nú um 45% af öllum úragangi til urðunar við Blönduós. Það er árangur sem náðist mjög fljótt eftir að flokkun hófst, en lítið hefur beyst síðan. Við þurfum að minnka þetta magn eins mikið og mögulegt er og má reikna með að ekki verði komist hjá því að urða eða brenna u.þ.b. 30 - 35% af þeim úrgangi sem til fellur. Það er makmið sem við ættum að stefna að.

 

Nú hefur Vistorka ehf starfað í fjögur ár og því lögðum við sjálfstæðismenn fram tillögu í bæjarstjórn á fundi 18.09 sem hljóðaði svo: „Akureyrarbær ásamt stofnunum sínum og tengdum fyrirtækjum hefur náð eftirtektarverðum árangri í umhverfismálum. Eitt af því sem stuðlað hefur að þessum árangri sl. ár er stofnun Vistorku ehf. sem er að fullu í eigu Norðurorku hf. Nú eru liðin rúm þrjú ár frá stofnun Vistorku ehf. og því kominn tími til að meta árangur starfs og hvert skal stefna með fyrirtækið og alla umræðu og lausnir í umhverfismálum á Akureyri og í Eyjafirði. Bæjarstjórn samþykkir því að boða til fundar með bæjarfulltrúum, stjórnum og stjórnendum Vistorku ehf., Norðurorku hf. og Moltu ehf. til að ræða stefnumótun til framtíðar í umhverfismálum og starfsemi fyrirtækjanna með það að markmiði að Akureyri og Eyjafjörður verði í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum og náttúruvernd.“


Þessi tillaga var samþykkt samhljóða og er þessi vinna hafin. Það er mikilvægt að við stígum ákveðin og markviss skref í þessa átt á næstu árum, end mörg verkefni sem bíða.

 

Að lokum

Það hlýtur að vera öllu fólki sem er í stjórnmálum ljóst eftir atburði síðustu mánaða ársins 2018, að það þarf að efla traust almennings á stjórnmálum og lýðræðinu yfir höfuð. Það er því mikilvægt að við ræðum opinskátt um það hvernig við getum aukið traustið og þátttöku íbúa almennt í umræðu um stefnumótun og framtíðarsýn samfélagsins okkar. Það er því full ástæða til að ræða hvernig við getum aukið virka þátttöku íbúanna í ákvarðantöku um hin ýmsu mál í bæjarfélaginu á milli kosninga. Það hlýtur að vera grundvallaratrið fyrir upplýsta þátttöku í kosningum að fólk upplifi að á það sé hlustað og það komi fram í verkum okkar sem í stjórnmálunum starfa.

Sú umræða er alltof hávær sem snýr m.a. að því að við efnum ekki þau loforð sem sett eru fram á sama tíma og það virðist þurfa að lofa nógu miklu til að fá kosningu. Þarna er einhver millivegur sem þarf að finna og feta. Svo er það hitt að við sem í stjórnmálunum störfum og lifum berum virðingu fyrir hvert öðru og ræðum málin á málefnalegum grunni. Því miður hefur reynslan sýnt að þar skortir oft á og þá einnig í umræðu á samfélagsmiðlum. Það ætti því að verða áramótaheit okkar allra að sýna virðingu og kærleik í verki alla daga ársins, eins og birtist okkur svo oft í aðdraganda jólafriðarins.

Með þökkum fyrir ánægjulegt og gott samstarf og óskum um gleðiríkt og ánægjulegt nýtt ár.



Gunnar Gíslason

bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook