Var Hafnarstræti 106 falt?

Ljósmynd: Hörður Geirsson

Ragnar Sverrisson spyr í aðsendri grein í Akureyri Vikublaði 5. febrúar s.l., hvort rétt sé að bænum hafi verið boðið Brauns-verslunarhúsið til kaups á síðasta ári en bæjaryfirvöld ekki ansað því þrátt fyrir að nýtt skipulag gerði ráð fyrir að það viki? 

Svar bæjarstjóra Akureyrar sem birtist í sama blaði 19. febrúar s.l. er að slíkt tilboð hafi ekki borist á síðasta ári, en í júlí 2013 hafi bænum borist formlegt erindi um að kaupa húsið. Hann segir að þáverandi bæjaryfirvöld hafi kosið að kaupa húsið ekki m.a. vegna þess að vinna stóð yfir um nýtt miðbæjarskipulag og niðurstaða þeirrar vinnu lá ekki fyrir. 

Þetta svar bæjarstjórans krefst áveðinna skýringa. Það er rétt að bæjaryfirvöldum barst formlegt erindi dagsett 15. júlí 2013, þar sem kannað var hvort Akureyrarbær hefði áhuga á því að kaupa fasteignina  Hafnarstræti 106. Það liggur fyrir að bréfið er móttekið 19. júlí 2013 og fært í skjalakerfi bæjarins. 

Bréfritari hefur hinsvegar staðfest að hann hefur aldrei fengið formlegt eða óformlegt svar við þessu formlega erindi sínu. Það vekur því furðu að sjá það fullyrt á opinberum vettvangi að „Þáverandi bæjaryfirvöld kusu að kaupa húsið ekki m.a. vegna þess að vinna stóð yfir um nýtt miðbæjarskipulag og niðurstaða þeirrar vinnu lá ekki fyrir.“ 

Hvaða bæjaryfirvöld er hér verið að ræða um? Það kemur hvergi fram í fundargerðum nefnda, bæjarráðs eða bæjarstjórnar að slík ákvörðun hafi verið tekin, enda hefur erindinu ekki verið svarað. Þessi þáverandi bæjaryfirvöld hljóta því að vera bæjarfulltrúar L – listans sem voru með hreinan meirihluta á síðasta kjörtímabili. 

Þrátt fyrir þetta fullyrðir Oddur Helgi Halldórsson í viðtali við Akureyri Vikublað 12. mars s.l., að bænum hafi aldrei boðist að kaupa Hafnarstræti 106.  Hvaðan hefur bæjarstjóri og núverandi meirihluti þá vitneskju að bæjaryfirvöld hafi hafnað því að kaupa húsið? Var svo afdrifarík ákvörðun tekin í bakherbergjum? 

Ef þetta er ekki lögleysa þá er þetta siðlaust. Því þessi ákvörðun er að kosta Akureyrarbæ og þar með íbúa bæjarins verulega fjármuni að óþörfu, eins og málum er nú fyrirkomið. 

Þá er einnig allt eins líklegt að Hafnarstræti 106, Braunshús, muni standa óhreyft næstu áratugina, án þess að skipulagsnefnd eða bæjarstjórn hafi haft nokkuð um það að segja. 

Þetta er ekki boðleg stjórnsýsla. Þetta mál verður að skoða rækilega og læra af þeim mistökum sem hér hafa verið gerð. 

Þetta getur ekki og má ekki gerast í lýðræðislegu og gegnsæju stjórnkerfi, eins og við viljum hafa það.

Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Margrét Kristín Helgadóttir, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar
Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook