Valið er skýrt

Í dag göng­um við til kosn­inga og velj­um hvernig sam­fé­lag við ætl­um að byggja næstu fjög­ur árin. Þar er til mik­ils að vinna.

Síðustu átta ár hef­ur það verið verk­efni mitt á hverj­um degi að vinna með fólki og fyr­ir­tækj­um að auk­inni vel­ferð Íslend­inga, greiða niður skuld­ir rík­is­sjóðs og viðhalda stöðug­leik­an­um sem er svo dýr­mæt­ur fyr­ir heim­il­in og fyr­ir­tæk­in.

Íslensk heim­ili finna að við erum á réttri leið. Það er auðveld­ara að láta mánaðamót­in ganga upp. Laun­in hafa hækkað og skatt­arn­ir lækkað. Tug­ir þúsunda Íslend­inga hafa end­ur­fjármagnað hús­næðislán­in með lægri vöxt­um og létt­ari af­borg­un­um. Í út­tekt GRI sem birt var í vik­unni kem­ur fram að það sé best að eld­ast á Íslandi, þriðja árið í röð.

Það land er vand­fundið þar sem fólk býr við jafn mik­inn kaup­mátt, jöfnuður er óvíða meiri og tæki­fær­un­um fer stöðugt fjölg­andi.

Okk­ur geng­ur vel, en við höf­um líka ótal tæki­færi til að gera enn bet­ur. Við þurf­um að halda áfram að skapa verðmæti og bæta kjör þeirra sem höllust­um fæti standa. Til að vel megi vera þarf að horfa raun­sætt á stöðuna. Þeim sem kepp­ast við að tala sam­fé­lagið niður og sann­færa fólk um að hér sé allt á von­ar­völ verður lítið ágengt.

Árang­ur­inn næst ekki með fjöl­flokka­stjórn sem vill hækka skatta, um­bylta stjórn­ar­skránni eða skuld­setja kom­andi kyn­slóðir fyr­ir út­blásn­um lof­orðum. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er kjöl­fest­an sem kem­ur í veg fyr­ir að slík stjórn verði að veru­leika.

Við mun­um halda áfram að lækka skatta og ein­falda reglu­verk. Við vilj­um um­hverfi þar sem fyr­ir­tæk­in okk­ar blómstra, geta fjölgað starfs­fólki, borgað hærri laun og tekið virk­an þátt í að byggja upp sam­fé­lagið okk­ar.

Við mun­um styrkja okk­ar dýr­mæta heil­brigðis­kerfi með öfl­ugu sam­starfi hins op­in­bera og sjálf­stætt starf­andi heil­brigðis­starfs­fólks. Við mun­um sækja fram af krafti í lofts­lags­mál­um og ætl­um að verða fyrst landa í heim­in­um til að skipta al­farið úr olíu í raf­magn og aðra græna inn­lenda orku­gjafa.

Við mun­um hugsa eft­ir­laun­in upp á nýtt, bæði til að hraust­ari og eldri þjóð geti bætt sinn hag og til að leiðrétta skekkj­ur fortíðar.

Síg­andi lukka, stöðug­leiki og ábyrgð. Þar ligg­ur lyk­ill­inn að far­sælli framtíð. Með bjart­sýni og trú á framtíðina að vopni ger­um við gott sam­fé­lag enn betra.


Bjarni Benediktsson
fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook