Ung á Akureyri

Það er áhyggjuefni hve margir ungir einstaklingar greinast með kvíða og þunglyndi í dag. Við þurfum að efla fyrirbyggjandi aðgerðir gegn vanlíðan, m.a. með markvissri forvarnarfræðslu og meðferðarúrræðum sem ná til einstaklinga sem greindir eru með kvíða og þunglyndi, í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Töluvert er um að ungmenni flosni upp úr framhaldsskóla og stundum með brotna sjálfsmynd. Mikilvægt er að bærinn styðji þá einstaklinga með öllum ráðum og dáðum því það getur reynst þeim erfitt að hverfa frá skólakerfinu. Það má gera með því til dæmis að efla atvinnumöguleika þeirra. 

Hér á Akureyri getum við menntað okkur, frá leikskólastigi til háskóla, í skólakerfi sem við unga fólkið krefjumst að sé framúrskarandi. Mín reynsla af Háskólanum á Akureyri er einstaklega góð, ég vil sjá hann blómstra og námsleiðum við hann fjölga.

Mikil umræða hefur skapast um fjármálalæsi almennings og er niðurstaðan oftast sú að skortur sé á kennslu á bæði fjármálalæsi og almennri umfjöllun um vinnumarkaðinn í skólakerfinu. Úr þessu skal bæta. Það að kunna að lesa launaseðla, skattaskýrslur og annað slíkt, getur haft jákvæð áhrif á fjárhagsstöðu unga fólksins.

Fyrir nokkrum árum var sett á laggirnar Ungmennaráð Akureyrar sem hefur það hlutverk að vera sveitarstjórninni til ráðgjafar um málefni ungs fólks á Akureyri. Það var mjög gott skref því okkur unga fólkinu finnst mjög mikilvægt að hlustað sé á okkur og að mark sé tekið á skoðunum okkar. Við erum frjó og metnaðarfull. Það er því gríðarlega mikilvægt að gott samstarf, virðing og traust ríki á milli kjörinna bæjarfulltrúa og þeirra sem í ungmennaráði sitja. 

Með virku og góðu samstarfi við okkur unga fólkið geta bæjaryfirvöld gripið til aðgerða sem tryggja Akureyri sem fyrsta valkost ungs fólks til búsetu til frambúðar, meðal annars með tilliti til atvinnu, húsnæðis, skóla, heilbrigðisþjónustu, frístunda og menningar. 

Við unga fólkið getum haft raunveruleg áhrif á það samfélag sem við veljum að búa í! Tryggjum að á okkur verði hlustað, nýtum kosningaréttinn 26. maí 2018!

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, laganemi við HA
skipar 5. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook