Tryggjum baráttumanni öruggt sæti

Næstkomandi laugardag verður gengið til kosninga til bæjarstjórnar. Það er mikilvægt að allir íbúar taki þátt og velji það framboð sem þeir treysta best til verka næstu fjögur árin.

Sjálfstæðisfólk á Akureyri hefur lagt mikla vinnu í undirbúning kosninganna. Rætt var við um þrjú hundruð íbúa, gengið um hverfi bæjarins og nú undanfarið höfum við heimsótt fjölda fyrirtækja. Allt þetta höfum við nýtt til að móta metnaðarfulla stefnuskrá okkar. Hún er ítarleg en án stórra loforða.

Við teljum brýnt í upphafi nýs kjörtímabils að unnin verði markviss langtímaáætlun þar sem framkvæmdum verði forgangsraðað. Þá er mikilvægt að greina samkeppnishæfni bæjarins gagnvart öðrum sveitarfélögum til að laða að fyrirtæki og halda þeim sem fyrir eru. Það eru þó nokkur verkefni sem við teljum að þurfi að fara í hið fyrsta. Þar má nefna að  ljúka þarf við fráveituna og tryggja þannig ómengaða strönd og sjó. Ljúka þarf framkvæmdum við Naustaskóla. Heilsugæslan þarf aukið fjármagn, það verður að efla læknisþjónustu við íbúana.

Grunnstoðir bæjarins eru öflugar eins og skólar og önnur þjónusta. Við erum þó þeirrar skoðunar að efla þurfi innviðina og skila til baka því sem skorið hefur verið niður á undanförnum árum. Starfsfólkið sem stendur vaktina alla daga þarf stuðning og hvatningu.

Baráttumálin – baráttusæti

Undirstaða velferðar er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Því þurfum við að standa vörð um fyrirtæki og stofnanir í bænum. Lífæðar eru samgöngur, orka og mannauður. Við búum vel að mannauði en þurfum á fleiri verk- og tæknimenntuðum að halda. Háskólinn á Akureyri gæti komið þar að með öflugum stuðningi frá bænum til að sækja auknar fjárveitingar.

Á Akureyri skortir orku. Almennt virðist það ekki á vitorði bæjarbúa að raforkuflutningar til bæjarins eru það takmarkaðir að grípa verður til skerðingar til nokkurra fyrirtækja. Þetta þýðir að á Akureyri verður ekki uppbygging atvinnutækifæra sem byggja á raforku. Þrátt fyrir að þetta hafi verið vitað um nokkurra ára skeið hefur lítið áunnist. Þessu verður að breyta en það er fyrirséð að þótt brugðist verði við strax þá mun það taka 5-6 ár. Málið er grafalvarlegt!

Samgöngur skipta fyrirtækin og ferðaþjónustana miklu máli. Við verðum að geta treyst á öruggar samgöngur allt árið um kring. Hér eru fyrirtæki sem eiga allt sitt undir því að koma vöru á markað, fljótt og vel. Það er því háalvarlegt þegar þjóðvegi eitt er ekki haldið opnum alla daga yfir veturinn.

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er eins og við höfum ítrekað sagt eitt af okkar nauðsynlegustu samgöngumannvirkjum. Hann þarf að verja og það ekki síst vegna sjúkraflutninga því nú liggur fyrir að Landspítalinn verður áfram við Hringbraut.

Til þess að efla ferðaþjónustuna þarf að koma á reglulegu millilandaflugi til Akureyrar. Þannig getum við náð aftur eðlilegri hlutdeild í tekjum af ferðaþjónustunni. Þar skiptir öllu máli að fjölga gistinóttum ferðamanna á Akureyri. Við verðum að átta okkur á að ekkert fæst án fyrirhafnar.

Því þarf fólk eins og Njál Trausta Friðbertsson í bæjarstjórn. Hann hefur verið ötull talsmaður þeirra mála sem hér hafa verið nefnd og sýnt mikla eljusemi. Það er þörf fyrir baráttumenn í bæjarstjórn og þá fá Akureyringar með því að setja X við D á kjördag.

Sjálfstæðisfólk er tilbúið til að ganga skrefinu lengra í vinnu fyrir Okkar Akureyri.


Gunnar Gíslason
fræðslustjóri - skipar 1. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook