Tímabil framfara og verðmætasköpunar

Kjörtímabilið sem nú er senn á enda hefur reynt á þolrif íslenskrar matvælaframleiðslu á ýmsan máta. Umfangsmiklar sóttvarnarráðstafanir, hrun í komu ferðamanna og aðrir fylgifiskar faraldursins hafa tekið á. Með markvissum aðgerðum hefur hins vegar tekist að lágmarka neikvæð áhrif faraldursins á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til skemmri og lengri tíma.

Þá hafa aðrar aðgerðir á þessu kjörtímabili styrkt stoðir þessara grundvallaratvinnugreina okkar Íslendinga og skapað tækifæri til frekari sóknar á allra næstu árum.

Einföldun regluverks

Aðgerðaáætlun um einföldun regluverks hefur verið forgangsmál á þessu kjörtímabili. Árangurinn er meðal annars brottfall 1242 reglugerða og 33 lagabálka. Fimm stjórnsýslunefndir hafa verið lagðar niður, stjórnsýsla skyndilokana í sjávarútvegi endurskoðuð og milliganga ráðuneytisins í ýmsum málum afnumdar. Fleira mætti nefna. Afraksturinn er öflugra og einfaldari stjórnsýsla til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. 

Aukin verðmætasköpun

Stofnun Matvælasjóðs markaði tímamót í að styrkja þróun, nýsköpun og verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu. Á þessu kjörtímabili hefur sjóðurinn úthlutað rúmum milljarði króna til 126 verkefna. Ég er sérstaklega stoltur af jafnri dreifingu styrkja um allt land enda var það ein af lykiláherslum mínum við stofnun sjóðsins.

Uppbygging fiskeldis á vísindalegum grunni í kjölfar lagabreytinga hefur um leið skilað áþreifanlegum árangri á þessu kjörtímabili. Framleiðsla á laxi hefur farið úr ríflega 13 þúsund tonnum árið 2018 í um 46.000 tonn á þessu ári. Fleira má nefna á sviði sjávarútvegs:

•Á þessu kjörtímabili var tekin upp aflamarksstjórn á makríl sem mun skila sér í auknum fyrirsjánleika og skilvirkari veiðum á þessum mikilvæga stofni. 

•Við gerðum löngu tímabærar breytingar á álagningu veiðigjalds sem nú tekur tillit til afkomu sjávarútvegsins en um leið er gjaldtakan nú einfaldari og fyrirsjáanlegri.

•Viðamikil skýrsla fjögurra sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis sýnir að mögulegt er að auka útflutningsverðmæti þessara atvinnugreina verulega á næstu árum. Tækifærin til að sækja fram og styrkja þannig lífskjör okkar Íslendinga blasa því við.

Sókn íslensks landbúnaðar

Á þessu kjörtímabili voru allir fjórir búvörusamningarnir endurskoðaðir. Ég er sérstaklega stoltur af þeirri stórsókn íslenskrar garðyrkju sem ákveðið var að ráðast í en með auknum fjárveitingum er áformað  að auka framleiðslu um 25% á næstu þremur árum. Í maí sl. heimilaði ég bændum að slátra sauðfé og geitum á búunum sjálfum og dreifa á markaði. Slík framleiðsla og dreifing hefur hingað til verið óheimil.

Fyrr í þessum mánuði kynnti ég fyrir ríkisstjórn tillögu að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland, Ræktum Ísland!, en þetta er í fyrsta sinn sem mótuð er slík heildarstefna fyrir Ísland. Eftir um þriggja ára vinnu á þessu kjörtímabili og víðtækt samráð liggur tillagan nú fyrir.

Ég er sannfærður um að hún geti orðið grundvöllur að víðtækri sátt um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Slík samstaða er í mínum huga afskaplega dýrmæt og markar út af fyrir sig tímamót í umræðu um íslenskan landbúnað. Innleiðing þessarar stefnumótunar er að mínu mati stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar nú um stundir.

Áhersla á rafræna stjórnsýslu

Ég hef á þessu kjörtímabili lagt áherslu á að efla rafræna stjórnsýslu og aukna upplýsingagjöf á þessu kjörtímabili. Í júní sl. var tilkynnt að tollkvótum verði framvegis úthlutað með rafrænum hætti. Markmiðið er að einfalda stjórnsýslu og gera hana stafræna til hagræðis fyrir ráðuneytið og atvinnulífið en áætlað er að um tíu vinnuvikur sparist árlega í ráðuneytinu í hinu nýja kerfi. 

Á undanförnum mánuðum hefur ráðuneyti mitt opnað tvö mælaborð. Annars vegar mælaborð landbúnaðarins en þar er í fyrsta skipti hægt að nálgast opinberlega upplýsingar um m.a. framleiðslu, sölu, innflutning og birgðir landbúnaðarafurða hér á landi, auk stuðnings við bændur samkvæmt búvörusamningum.

Mælaborðið hefur því aukið gagnsæi og veitt skýrari yfirsýn um íslenskan landbúnað til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigandi. Hins vegar var fyrr á þessu ári opnað mælaborð fiskeldis sem gerir aðgengilegar á einum stað upplýsingar um m.a.  framleiðslu í fiskeldi, fiskeldisstöðvar og eftirlitsskýrslur. Því eru með mælaborði fiskeldis allar helstu upplýsingar um stöðu fiskeldis í sjó og á landi orðnar aðgengilegar á einum stað til hagsbóta fyrir almenning og stjórnvöld.

Framtíðin er björt

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið skýr um að það sé verkefni stjórnmálanna að skapa skilyrði til þess að það sé hægt að grípa þau tækifæri sem blasa við íslenskri matvælaframleiðslu á næstu árum. Staðreyndin er sú að íslenska þjóðin þarf að auka útflutningsverðmæti um einn milljarð á viku næstu tuttugu árin, vilji hún halda uppi sömu lífskjörum.

Í umræðu um framtíð íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs er því ekki verið að eiga við hagsmuni einstakra byggða eða aðila í þessum greinum, heldur samfélagsins alls. Aukin verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu í nútíð en ekki síður framtíð er til hagsbóta fyrir allt samfélagið.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook