Þakkarávarp Njáls Trausta Friðbertssonar

Kæru vinir.

Ég þakka það mikla traust og stuðning sem þið hafið sýnt mér með því að kjósa mig til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi.

Á fundum og ferðum síðustu mánuði hafa störf mín og hugmyndir átt sterkan hljómgrunn í Norðausturkjördæmi.

Ég þakka meðframbjóðendum drengilega keppni sem einkum fólst í samstarfi og samstöðu. Ótal stuðningsmenn í þessu víðfeðma kjördæmi lögðu á sig mikla vinnu. Einnig vil ég þakka konu minni og fjölskyldu sem hefur þurft að þola fjarveru mína og ferðalög, á sama tíma og heimilinu var breytt í kaffihús og kosningamiðstöð. 

Með prófkjöri höfum við stillt upp lista ólíkra einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn til samstarfs úr öllu kjördæminu. Niðurstaðan er ný ásýnd Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Ungt og kröftugt fólk er komið í framvarðarsveitina. Ég er stoltur að tilheyra þeim góða hóp. 

Kæru vinir!  Einungis eru 17 vikur til alþingiskosninga. Þessi öflugi hópur og sterkt umboð úr prófkjöri er upptaktur farsællar kosningabaráttu sem verður snörp og einkum upp úr miðju sumri.

Við finnum sterkan meðbyr með Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu. Hann nýtist okkur best í samstöðu. 

Sjálfstæðisstefnan er gott veganesti í kosningabaráttu. Almenningur veit að trúin á einstaklinginn og athafnafrelsi er besta viðspyrnan. Í henni býr trú á tækifærin og bjartsýni til endureisnar, uppbyggingar og verðmætasköpunar.


Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður og nýkjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook