Sumarlokanir á leikskóla

Ég vil búa í fjölskylduvænum bæ sem stuðlar að því að foreldrar og börn geti eytt sumarfríinu sem mest saman. Meðal fjölmargra atvinnurekenda á Akureyri hefur það reynst erfitt að raða starfsmönnum niður í sumarfrí þar með talið í fyrirtækinu sem ég starfa hjá sem starfsmannastjóri. Ástæðan er fyrst og fremst sú að níu af ellefu leikskólum Akureyrarbæjar er lokað í sömu fjórar vikurnar og yfir tveggja vikna tímabil eru allir leikskólar bæjarins lokaðir.

Vegna þessa er mér nær ókleift að koma til móts við óskir foreldra barna á leikskólaaldri og þarf að biðja þá starfsmenn að deila niður þeim sumarfrístíma sem leikskólarnir eru lokaðir. Það komast ekki allir í frí á sama tíma. Mér finnst alls ekki gott að hugsa til þess að fjölskyldur nái ekki að eyða sumarfríinu saman nema til þess komi að atvinnulífið lamist á meðan. Þessu verður að breyta.

Fyrir tveimur árum síðan var það sett í hendur leikskólastjóra að stýra hvenær þeir loki samfleytt í fjórar vikur yfir sumarið. Líklega er það tilviljun að nær allir leikskólarnir loki á nákvæmlega sama tíma í sumar sem veldur miklu óhagræði fyrir atvinnulífið.

Þessu erum við sjálfstæðismenn tilbúnir að breyta og höfum í stefnuskrá okkar lagt til að lokunartíminn verði styttur. Það gefur foreldrum frekara svigrúm með val á sumarfrístíma fyrir fjölskylduna.

Samfélagsleg sátt

Kostnaðurinn við styttingu sumarlokana leikskólanna aftur niður í 2 vikur er áætlaður 12 - 14 milljónir. Ég tel þeim fjármunum vel varið. Það er hægt að bjóða foreldrum upp á val hvort þeir fari í sumarfrí fyrir eða eftir lokun. Þá er strax búið að auka svigrúmið en það mætti hugsanlega ganga lengra í þessum efnum. Það þarf að gera áætlun um hversu margir leikskólar loka á sama tíma. Frekari útfærslu teljum við þó rétt að vinna í samráði við leikskólastjóra og foreldraráð.

Með styttri sumarlokunum í leikskólum er ég sannfærð um að það náist frekari samfélagsleg sátt. Við viljum búa í fjölskylduvænum bæ þar sem saman fara hagsmunir fjölskyldna og atvinnulífs.

 

Eva Hrund Einarsdóttir
starfsmannastjóri - skipar 2. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook