Stefnir í fjölflokka vinstristjórn

Hressandi áminning var að hitta fyrir kjósendur á Eskifirði um daginn þar sem menn höfðu áhyggjur af uppgangi vinstri flokkanna í komandi kosningum. Ótti manna er skiljanlegur. Hætta á fjölflokka vinstristjórn er raunveruleg. Vinstriflokkarnir vaða uppi í fjölmiðlum undir forystu skæruliða þeirra vinstri manna, Gunnars Smára. Og þar lofa þeir öllu fögru. Hvers kyns upphlaup yrði til að skapa sundrung og ósætti í samfélaginu.

Óstöðug fjölflokka vinstristjórn?

Það er auðvitað rökrétt, að fólkið í landinu hafi áhyggjur af komandi kosningum. Blöðin greina þessa dagana frá könnunum um að fylgi framboða sé í járnum, mjótt á munum og smávægilegustu fylgisbreytingar hefðu töluverðar afleiðingar, bæði á þingmannafjölda og niðurstöðu. Við gætum setið uppi með fimm eða sex flokka ríkisstjórn til vinstri þar sem stöðugt ósamlyndi knýr á dyr stjórnarslita.

Þar væri efnahagslegur árangur og stöðuleiki síðustu ára lagður að veði. Um það vitna vinstri slys fyrri ára. Hafa menn gleymt  óðaverðbólgu vinstri stjórnanna frá 1978-1983 þegar niðurrifsöflin réðu ríkjum? Og rökkur heimar Jóhönnustjórnar hræða enn.

Þær þúsundir sem koma að atvinnulífi landsbyggðar hafa skiljanlega áhyggjur. Sjávarútvegur, fiskeldi, landbúnaður, álver, orku- og iðnaðaruppbygging sæta stöðugum árásum vinstri manna með hótunum um sífellt auknar takmarkanir, hindranir og álögur. 

Borgarsysturnar Sundrung og Ósætti 

Öllum er hollt að horfa til óstjórnar og hneykslismála hjá Reykjavíkurborg þeirra Samfylkingarmanna og fylginauta, þar sem hvert tækifæri er nýtt til að hnýta í landsbyggðina. Þar hefur landsbyggðin þurft ítrekað slá skjaldborg um flugvöll allra landsmanna. 

Undir slíkum kringumstæðum hlýtur atvinnurekstur að velta fyrir sér efnahagslegum stöðugleika. Spor vinstri flokkanna hræða vegna áætlana um stóraukna skattheimtu á atvinnustarfsemi, meira og flóknara regluverk og aukin ríkisafskipti og miðstýringu.

Áfram land tækifæra!

Við sjáum nú að íslenskt efnahagslíf er á góðum vegi til efnahagslegrar endurreisnar. Jafnvel nú á tímum heimsfaraldurs hefur hagkerfið sýnt sterkan viðnámsþrótt og vöxt í öðrum útflutningi en ferðaþjónustu. Heimilin og fyrirtækin hafa verið varin áföllum og útlit er fyrir meiri hagvöxt en áður var reiknað með.

Við Eskfirðinga og aðra segi ég: Hlustum ekki á sundurlyndisöflin. Full ástæða er til bjartsýni ef haldið er áfram að fylgja efnahagsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur góðu heilli haft forystu um síðustu árin. Einungis þannig verður Ísland áfram land tækifæranna.


Ragnar Sigurðsson
skipar 4. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook