Skoska leiðin - loftbrú

Í dag er ánægjulegur dagur í pólitíkinni. Frá og með deginum í dag þá hefur skosku leiðinni verið komið í gagnið undir heitinu Loftbrú. Niðurgreiðslan í gegnum Loftbrú nemur 40% af flugfargjöldum, en á þessu ári verða greiddir niður tveir flugleggir og sex flugleggir á árinu 2021.

Fyrir ári síðan, í september 2019, flutti ég ræðu í þinginu:
,,Hátt verðlag í innanlandsflugi er farið að bitna á lífsgæðum þeirra sem búa úti á landi. Þetta þekkjum við. Það er dýrt að fljúga og íbúar landsins verða að geta sótt sér nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðið með greiðum samgöngum, þar með talið innanlandsflugi. Nauðsynlegt er að koma til móts við hátt verðlag á innanlandsflugi með því að innleiða skosku leiðina svokölluðu sem veitir íbúum með lögheimili á ákveðnum landsvæðum rétt til afsláttar á flugfargjöldum. Með því verður innanlandsflug raunhæfur valkostur fyrir landsmenn og það jafnar búsetuskilyrði“.

Ég byrjaði að ræða skosku leiðina í bæjarstjórn Akureyrar vorið 2016. Þannig að þetta er orðið langt ferli. Jón Gunnarsson þáverandi samgönguráðherra skipaði mig formann starfhóps vorið 2017. Verkefni hópsins var að skrifa skýrslu um skosku leiðina, eflingu innanlandsflugsins og flugvallakerfisins. Eftir 18 mánaða vinnu skilaði hópurinn af sér afurðinni í lok nóvember 2018. Þá var Sigurður Ingi tekinn við sem samgönguráðherra.

Þessi vinna er því búin að vera í gangi núna í rúmlega fjögur ár og það er einstaklega ánægjulegt að sjá þær hugmyndir og mál sem maður hefur brunnið fyrir í langan tíma verða loksins að veruleika. Síðan skal ekki gleyma Jónu Árnýju Þórðardóttur framkvæmdastjóra Austurbrúar fyrir samfylgdina í þessu máli allan þennan tíma.

Hægt er að kynna sér málið nánar á heimasíðu Loftbrúar, loftbru.is

Til hamingju með daginn gott fólk.

Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook