Raforkuflutningur

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí eru talin upp nokkur mál, sem við teljum vera brýn hagsmunamál fyrir íbúa og atvinnulíf í sveitarfélaginu. Eitt af þeim er að tryggja nægja raforkuflutninga til sveitarfélagsins.

Einhver kynni að spyrja.  „Bíðum nú aðeins við, er ekki nóg rafmagn á Akureyri?“ Því er til að svara að þó ekki verði oft rafmagnslaust á Akureyri og almennt sé afhendingaröryggi rafmagns gott þá eru blikur á lofti. Á síðustu misserum og núna síðast í byrjun maí urðum við vör við miklar sveiflur í raforkukerfinu sem rekja má til þess að byggðalínan svokallaða er komin að þanmörkum. Rekstraraðili kerfisins, Landsnet, bregst við vandamálum sem koma upp í kerfinu m.a. með því að skerða flutning til kaupenda sem kaupa svo kallaðan skerðanlegan flutning. Þetta orsakar að þessi fyrirtæki eru rekin á minni afköstum eða þau nýta olíu til rafmagnsframleiðslu til að halda fyrirtækjunum í fullum rekstri.

Byggðalínan

Árið 1972 hófst vinna við fyrsta áfanga byggðalínunnar og var hann formlega tekinn í notkun á Rangárvöllum ofan Akureyrar í janúar 1977. Hringtengingu landsins var síðan lokið árið 1984. Hafa þarf í huga að raforkuframleiðsla í Eyjafirði er hlutfallslega lítil og það þótt við miðum aðeins við almenna notkun heimila og fyrirtækja hvað þá ef við miðum við stórnotendur á borð við Becromal og nokkur iðn- og matvælafyrirtæki eins og MS, Vífilfell og Grand, sem kaupa að hluta til skerðanlega orku. Íbúar Akureyrar og Eyjafjarðar eru því algerlega háðir raforkuflutningum til svæðisins. Hér þarf einnig að hafa í huga að byggðalínan (132 kV) er ekki eingöngu nýtt fyrir okkar svæði heldur gegnir hún einnig hlutverki í stýringu raforkukerfisins í heild sinni og þar með raforkuflutningum austur eða vestur eftir því hvernig vinnsla og álag er í kerfinu. Á þeim tíma sem liðinn er frá uppbyggingu byggðalínunnar hefur raforkukerfi landsins stækkað mikið. Í dag er er burðargetan á milli vestari og eystri hluta landsins ekki nema um 5% af hámarksflutningi í raforkukerfinu.

Ný byggðalína

Landsnet hefur unnið að undirbúningi nýrrar flutningslínu á milli Blönduvirkjunar og Fljóstdalsvirkjunar, sem á bera 220 kV spennu og flytja mun meira afl en núverandi byggðalínan. Lítið hefur miðað í þessu verkefni síðan árið 2007 og kemur þar kemur margt til. Semja þarf við fjölmarga landeigendur og mörg sveitarfélög koma að skipulagi á svona langri leið. Deilur um kosti og galla loftlína á móti jarðstrengjum hefur litað umræðuna. Einnig hefur nálægð fyrirhugaðrar línu við Akureyrarflugvöll haft veruleg áhrif og rætt er um hvort heppilegra sé að nota jarðstreng framhjá honum.

Öflugt atvinnulíf

Það er mjög mikilvægt að Alþingi endurskoði lagasetingu hér að lútandi og lagaramminn um landsnetið taki mið af breyttum þörfum.  Okkur Akureyringum er mikilvægt að þessari vinnu verði hraðað eins og kostur er því annars er veruleg hætta á því að atvinnurekstur á svæðinu líði fyrir það til lengri tíma litið.  Sömuleiðis liggur fyrir að þessir flöskuhálsar hafa mikil neikvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu á svæðinu og munu gera það áfram ef ekki verður þegar í stað gripið til aðgerða. Þetta er því verulega stórt mál þegar kemur að samkeppnishæfni Akureyrar og þar með möguleikum samfélagsins til að skapa aukin atvinnutækifæri.

Sigurjón Jóhannesson
verkfræðingur - skipar 6. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook