Pólitískar ákvarðanir um framkvæmdir

Töluverð umræða hefur verið um kostnað við framkvæmdir á vegum bæjarins í aðdraganda þessara kosninga. Þar hafa t.d. verið nefndar framkvæmdir við Listasafnið og sundlaugina.

Listasafnið

Það hefur borið við í of mörgum tilvikum að pólitískar ákvarðanir hafa stjórnað því hve miklir fjármunir eru áætlaðir til ákveðinna framkvæmda. Þetta á við um Listasafnið þar sem fulltrúar meirihlutans fullyrtu í bæjarstjórn á sínum tíma við afgreiðslu fjárhagsáætlunar að kostnaðurinn við uppbygginguna yrði ekki meiri en 400 milljónir. Á þessum tíma lá fyrir kostnaðaráætlun upp á rúmar 500 milljónir.

Nýjar áætlanir gera ráð fyrir því að kostnaðurinn verði um 700 milljónir. Þar sem endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir er ekki vitað hver árlegur leigukostnaður verður, en ekki er ólíklegt að hann verði á bilinu 80 til 100 milljónir á ári. Þessar upphæðir eru langt frá þeim 40 milljónum sem reiknað var með í árlegan leigukostnað við Listasafnið og því eru fyrirliggjandi rekstraráætlanir með öllu úreltar.

Sundlaug Akureyrar

Með sama hætti var ákveðið af meirihlutanum að kostnaður við endurbætur á sundlauginni og uppsetningu á nýrri rennibraut, yrði um 285 milljónir. Þá lá fyrir kostnaðaráætlun upp á 385 milljónir. Reyndin er að kostnaður við þessar framkvæmdir verður rúmar 400 milljónir. Til viðbótar þessu kom fljótt í ljós að það þyrfti að útbúa aðstöðu til sólbaða og leikja. Kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður rúmar 100 milljónir.

Það ber að mínu mati ekki vott um vandaða ætlanagerð að hanna ekki allt verkefnið í einu, því það hlýtur að hafa legið fyrir frá upphafi þegar snúa þurfti rennibrautinni að það hefði þær afleiðingar að útbúa þyrfti nýt sólbaðs- og leikjasvæði.

Naustaskóli

Hægt er að tilgreina fleiri dæmi um ákvarðanir sem þessar. Skýrasta dæmið er lóð Naustaskóla, þar sem meirihlutinn samþykkti að leggja 60 milljónir í uppbyggingu á lóðinni. Það hafði þó legið fyrir um a.m.k. tveggja ára skeið áætlun upp á 100 milljónir. Þegar hönnun lóðarinnar var lögð fram í umhverfis- og mannvirkjaráði á s.l. ári kom fram að áætlaður kostnaður við framkvæmdina yrði 120 milljónir.

Þetta vakti furðu mína og spurðist ég því fyrir um það af hverju hönnunin tók ekki mið af þeim 60 milljónum sem áætlaðar voru til verksins. Fátt var um svör enda ljóst að þá hefði lóðin orðið frekar fátæklega búin leiktækjum.

Vandaðar áætlanir

Það er að mati okkar sjálfstæðismanna mikilvægt að vanda til allra áætlana og byggja þær á bestu gögnum á hverjum tíma. Það skiptir máli að vera sem næst raunkostnaði þegar áætlun er gerð því það er verið auka rekstrarkostnað sveitarfélagsins til næstu 20 til 40 ára. Það hefur áhrif á svigrúm til annarra framkvæmda og þjónustu við íbúa til lengri tíma.

Við viljum gera betur.


Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi
skipar 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook