Netöryggi er þjóðaröryggi

Frétt­ir utan úr heimi um netárás­ir á lyk­il­stofn­an­ir lýðræðisþjóðfé­laga eru uggvekj­andi og til marks um gjör­breytt­an veru­leika. Ný­leg­ar árás­ir á tölvu­kerfi Lyfja­stofn­un­ar Evr­ópu í Haag í Hollandi og um­fangs­mikl­ar árás­ir í Banda­ríkj­un­um sýna okk­ur, svo ekki verður um villst, hversu víðtæk ógn er af slík­um netárás­um. Netárás­in á Lyfja­stofn­un Evr­ópu var gerð á sama tíma og sér­fræðing­ar stofn­un­ar­inn­ar skoðuðu hvort heim­ila beri notk­un bólu­efna sem þróuð hafa verið gegn kór­ónu­veirunni. Það get­ur vart tal­ist til­vilj­un, þarna eru eyðilegg­ingaröfl að verki sem leggja mikið á sig til að ógna ör­yggi al­menn­ings.

Fyr­ir ári lögðum við ásamt öðrum þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins fram beiðni um skýrslu frá for­sæt­is­ráðherra um innviði og þjóðarör­yggi. Þar er m.a. tekið á netör­yggi og helstu þátt­um raf­orku­kerf­is­ins í tengsl­um við þjóðarör­yggi. Nú stytt­ist í út­gáfu skýrsl­unn­ar en hún verður mjög efn­is­mik­il og hef­ur verið unn­in á vett­vangi allra ráðuneyta. Er það von okk­ar að skýrsl­an marki þátta­skil í netör­ygg­is­mál­um á Íslandi en sem sam­fé­lag get­um við ekki leyft okk­ur annað en vera mjög vak­andi yfir þeim þjóðfé­lags­mik­il­vægu hags­mun­um sem þarna eru und­ir.



Innviðir og þjóðarör­yggi

Í grein­ar­gerð með skýrslu­beiðninni óskuðum við eft­ir að skil­greint verði nán­ar hvaða innviðir lands­ins telj­ist til grunn­innviða sam­fé­lags­ins, sbr. þjóðarör­ygg­is­stefnu, og telj­ast mik­il­væg­ir út frá þjóðarör­yggi lands­manna, svo sem sam­göngu­innviðir, raf­orku- og fjar­skipta­kerfið. Orku­mál­in spila hér stóra rullu því sam­fé­lagið er mjög háð raf­orku­flutn­ings­kerf­inu því oft get­ur lít­il og staðbund­in bil­un valdið mikl­um óþæg­ind­um eða jafn­vel erfiðleik­um. Eft­ir því sem tækn­inni fleyt­ir fram og sjálf­virkni­væðing sem geng­ur fyr­ir raf­magni verður al­geng­ari má bú­ast við að þetta verði æ mik­il­væg­ara viðfangs­efni.

Við bent­um á að ís­lensk lög­gjöf er skammt á veg kom­in í sam­an­b­urði við ná­granna­lönd­in, þar sem farið var að huga að þess­um mál­um fyr­ir nokkr­um ára­tug­um. Í Svíþjóð er notað hug­takið „riks­intresse“ yfir helstu grunn­innviði sem tengj­ast land­skipu­lagi sænska rík­is­ins. Þannig eru helstu innviðir lands­ins sett­ir al­farið á for­ræði og ábyrgð rík­is­ins á grund­velli þjóðarör­ygg­is­hags­muna Svíþjóðar. Nú eru um 30 af 100 helstu flug­völl­um Svíþjóðar skil­greind­ir sem „riks­intresse“ þar sem skipu­lags­valdið hef­ur verið fært frá viðkom­andi sveit­ar­fé­lagi yfir á æðra stjórn­sýslu­stig vegna þjóðarör­ygg­is­hags­muna.

Með sama hætti hafa til­tekn­ir veg­ir, virkj­an­ir, raf­orku­flutn­ing­ar, lest­artein­ar o.s.frv verið skil­greind­ir sem slík­ir út frá þjóðar­hags­mun­um. Að sama skapi þurf­um við Íslend­ing­ar að skil­greina þá sam­fé­lags­legu innviði sem telj­ast mik­il­væg­ir að teknu til­liti til þjóðarör­ygg­is­hags­muna. Þannig má tryggja ör­yggi þjóðar­inn­ar og jafn­framt sam­eig­in­leg­an skiln­ing á því hvað fel­ist í þjóðarör­ygg­is­hug­tak­inu. Jafn­framt þarf að end­ur­meta gefn­ar hug­mynd­ir og sjón­ar­mið í ör­ygg­is­mál­um með það að mark­miði að standa vörð um ör­yggi þjóðar­inn­ar.

Nor­rænt sam­starf í netör­ygg­is­mál­um

Í nýrri skýrslu Björns Bjarna­son­ar um þróun nor­ræns sam­starfs á sviði ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mála er tekið sér­stak­lega á netör­ygg­is­mál­un­um og rætt um mik­il­vægi sam­starfs Norður­land­anna á sviði nýrr­ar tækni og varn­ir gegn netárás­um. Þá þurfi Norður­lönd­in að eiga sam­starf við aðrar þjóðir í þess­um efn­um, ekki síst vegna til­komu 5G-tækn­inn­ar. Net­varn­ir eru mik­il­væg­ar bæði í borg­ara­legu til­liti og vegna varn­ar­hags­muna þjóðanna. Þar bera stjórn­völd mikla ábyrgð gagn­vart al­menn­ingi. Ekki síst við upp­lýs­inga­gjöf og fræðslu. Kem­ur fram í skýrsl­unni að nor­rænt sam­starf geti styrkt hvert land fyr­ir sig í að bregðast við póli­tísk­um og diplóma­tísk­um þrýst­ingi stór­veld­anna, sem get­ur verið mis­vís­andi.



Við fögn­um því að út­gáfa skýrslu for­sæt­is­ráðherra um innviði og þjóðarör­yggi er nú hand­an við hornið og telj­um brýnt að í fram­hald­inu verði gefið í þá vinnu að tryggja varn­ir og ör­yggi þjóðar­inn­ar út frá sam­fé­lags­leg­um innviðum, ekki síst net­vörn­um. Netógn­in má ekki grafa und­an und­ir­stöðum lýðræðisþjóðfé­laga eins og við sjá­um ít­rekað reynt af hálfu netþrjóta. Þar þarf hver þjóð að leggja sitt af mörk­um svo unnt verði að verja sem best lyk­il­stofn­an­ir, al­menn­ing, sam­eig­in­leg gildi og hug­sjón­ir.


Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, formaður Íslandsdeildar Nató-þingsins og varaformaður vísinda- og tækninefndar Nató-þingsins

Bryndís Haraldsdóttir
alþingismaður og nefndarmaður í utanríkismálanefnd

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook