Misskilningur um jafnara aðgengi að námi

Nú liggur fyrir frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á lögum um Háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera Háskóla, nr. 85/2008.

Samkvæmt upplýsingum í samráðsgátt er markmið breytinganna að jafna möguleika framhaldsnema sem ljúka prófi á þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla til háskólanáms. 

Því má fagna að nú loks sé verið að breyta aðgangsskilyrðum í háskóla svo iðnmenntun sé metin til jafns við stúdentspróf. Það er göfugt markmið að auka tækifæri nemenda sem lokið hafa list-, tækni- eða starfsnámi til menntunnar á æðra stigi. Löngu tímabært. En er raunverulega verið að auka tækifæri? Eða er verið að boða aðgangstakmarkanir í alla háskóla landsins?

Aukin tækifæri – hver á valið?

“Frumvarpið er auk þess hvatning til háskóla að þeir setji sér skýr og gagnsæ aðgangsviðmið um það hvernig þeir meti hæfni, þekkingu og færni inn á einstakar námsbrautir.” Segir í frumvarpinu. Semsagt boðaðar eru þrengingar á aðgengi að námi.

Ég hef áhyggjur af þessum 15 ára einstaklingum, börnum, sem nú þurfa að skoða aðgangsviðmið í einstaka háskóladeildir háskólanna áður en þau velja sér námsleið í framhaldsskóla. Með þessari breytingu stendur grunnskólanemi ekki lengur frammi fyrir vali á framhaldsskóla, þetta klassíska Versló, MA eða Kvennó. Það skiptir ekki máli lengur, heldur er þetta val um hvaða deild og í hvaða háskóla börnin vilja nema við seinna í framtíðinni. Auk þess sem þau þurfa að gæta þess að framhaldsskólanámið passi alveg örugglega við kröfur háskóladeildarinnar. Er þetta álagið sem okkur finnst eðlilegt að leggja á herðar barna? Ég myndi telja minnihluta grunnskólanema vera harðákveðna í því hvað gera eigi eftir framhaldsskólann. Sjálf man ég eftir því hvað valið var erfitt á sínum tíma og núna virðast möguleikarnir endalausir.

Fæstir grunnskólanemar eru í þann stakk búnir að velja framhaldsskólanám sem hefur þá afleiðingu að valið getur verulega heft aðgengi þeirra að frekara námi eftir 3-4 ár. Við eigum ekki að leggja ábyrgðina þar. Verkefnið liggur í því að skilgreina almennari aðgangsviðmið eða grunn þvert á háskólana, að minnsta kosti opinberu háskólanna, svo að raunverulega sé hægt að tala um jafnara aðgengi að námi. Þessi tillaga að lagabreytingu skilur eftir fleiri spurningar en svör. Það að barn velur námsleið eftir þágildandi áhugasviði, eða jafnvel afþví að hann hafði heyrt að tiltekin námskeið í námsleiðinni væri svo einfalt, á ekki að hafa jafn drastískar afleiðingar og sú að menntun á æðra stigi sé í húfi. 

Hér er ég augljóslega ekki að segja að nemendur eigi að geta tekið hvaða fög sem er til að geta gengið í hvaða nám sem er að loknu framhaldsskólanámi. En hvar er sá grunnur skilgreindur í dag? Ekki veita lögin neitt frekari skýringu á þessu. 

Skýrleiki útskýringa

Skýringar með frumvarpinu eru óskiljanlegar á köflum. Sagt er að núgildandi lög hafi ekki verið nægjanleg hvatning til háskólanna að móta aðgangsviðmið fyrir nemendur sem lokið hafa iðn- og starfsnámi, sem vissulega er hægt að taka undir þar sem stúdentspróf er nú aðalviðmiðið. Síðan er sagt að „Nauðsynlegt er að lagt sé mat á raunverulega hæfni, en hæfniviðmiðin gera nemendum, skólum, atvinnuveitendum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að sjá hvaða hæfni og getu nemendur geti vænst að búa yfir við námslok.“ 

Eiga aðgangsviðmið háskóladeilda að lýsa því yfir hvaða hæfni nemendur eigi að búa yfir við námslok? Snúast aðgangsviðmið ekki um þá hæfni sem nemandi á að búa yfir við inntöku í námið? Spyr sá sem ekki skilur. Auk þess sem háskólum ber nú þegar að birta lýsingar fyrir hverja námsleið á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok, sbr. 5. gr. laga um háskóla. 

Aðgangsviðmið eða takmarkanir í háskólanám?

Að mínu mati er búið að færa mat á grunnhæfni til 15 ára barnsins, sem þarf að leggja saman tvo og tvo - það er þær hundruðir námsleiða í boði á framhaldsstigi og svo það sem verða tugir eða hundruðir aðgangsviðmiða einstakra deilda háskólanna. Nema hér verður svarið ekki jafn einfalt og fjórir.

Aðgangsviðmið háskóladeilda munu þrengja val á nemendum í háskólanám. Aðgangsviðmið jafngilda þannig aðgangstakmörkunum. Er mennta- og menningarmálaráðherra í duldu máli að hvetja til aðgangstakmarkana í öllum háskólum landsins án þess að þora að segja það berum orðum.

Umsagnarfrestur í samráðsgátt rennur út á morgun, 27. nóvember. Ég sendi þessa umsögn inn og hvet aðra til að skoða málið.


Berglind Ósk Guðmundsdóttir
varabæjarfulltrúi


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook