Mikil tækifæri leynast í hugverkaiðnaði sem útflutningsgrein

Herra forseti. Góðir landsmenn.

Á fullveldisdegi er við hæfi að horfa um öxl og velta fyrir sér hverju þjóðin hefur áorkað á þeim tíma sem liðinn er frá því að Danir viðurkenndu fullveldi Íslands árið 1918. Við eigum að minnast þeirra kynslóða með þakklæti sem stuðluðu að því að umbreyta einu fátækasta ríki Evrópu í eitt það ríkasta í veröldinni. Það er hreint ekki sjálfgefið að þjóðir upplifi svo miklar og vel heppnaðar samfélagsbreytingar á tiltölulega skömmum tíma, en það gerist þegar leiðtogar og þau sem í stafni standa hafa kjark, þor og skýra framtíðarsýn.

Æviskeið minnar kynslóðar telst ekki sérlega langt í árum talið en við höfum samt upplifað margt og mikið um dagana. Við ólumst upp í skugga kalda stríðsins og lásum blaðsíður í símaskrá heimilanna þar sem fjallað var um viðbrögð við kjarnorkustyrjöld. Síðar tókumst við á við aðrar aðsteðjandi ógnir gagnvart mannkyni, allt frá HIV-veirunni til súra regnsins og gats á ósonlagi á norðurslóðum.

Það hefði verið auðvelt að fyllast vonleysi en okkur lærist að lífið heldur áfram. Þess vegna vil ég hvetja til dáða unga fólkið sem nú horfir til loftslagsbreytinga með kvíða. Þótt stundum virðist miða hægt þá sjáum við samt gríðarstór skref stigin um allan heim til að snúa þessari þróun við og við hér, þingmennirnir í þessum sal, munum ekki láta okkar eftir liggja. Verum hugdjörf því að viðfangsefnin eru óþrjótandi til að leysa með bjartsýni að vopni.

Góðir Íslendingar. Það fer vel á því að ríkisstjórnin leggi áherslu á að vaxa til velsældar. Það hefur reynst okkur best í gegnum tíðina. Þannig verða til fleiri störf og aukin verðmæti til að standa undir auknum lífsgæðum landsmanna og velferð okkar. Eftir mótlæti og djúpa dýfu sem skrifast á veirufaraldurinn boðar ný ríkisstjórn mjög ákveðna viðspyrnu og stórsókn í atvinnulífinu. Það er boðskapur stjórnarsáttmálans að tryggja einkarekstri enn betri skilyrði til að þróast og dafna, samfélaginu öllu til góðs.

Mikil tækifæri liggja á sviði hugverkaiðnaðar. Hugverkaiðnaður sem byggir á hugviti og nýsköpun er vaxandi stoð útflutnings sem getur hæglega orðið öflugasta stoð atvinnulífsins. Við höfum mörg dæmi hérlendis og erlendis um árangur og áhrif nýsköpunar. Því ber að fagna að ríkisstjórnin tryggi góða umgjörð nýsköpunar og með öflugum frumkvöðlum um land allt er ég sannfærð um að við munum sjá ávöxt þess á komandi árum.

Í sáttmálanum er talað um að efla nýsköpunarhugsun í menntakerfinu. Þar getum við verið á grænni grein. Ég staldra líka við markmið um að festa í sessi heimildir lífeyrissjóða til að eiga yfir 20% í nýsköpunar- og vaxtarsjóðum og að stuðlað verði að því að lífeyrissjóðir fái rýmri heimildir til að ávaxta eignir sínar.

Í stjórnarsáttmálanum eru mörg fleiri skilaboð sem falla mér sérlega vel í geð. Fyrir utan atvinnumál þá stóðu heilbrigðismálin og málefni aldraðra kjósendum nærri. Það fann ég glöggt á ferðum mínum vegna kosninganna og því er ánægjulegt að sjá ríkisstjórnina koma til móts við þær áherslur með auknum fjárframlögum og markmiðum um að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga í almannatryggingakerfinu og bæta afkomu eldri borgara og öryrkja.

Ég varð vör við það á ferðum mínum í Suðurkjördæmi á árinu að ríkisstjórnarsamstarfið naut víðtæks stuðnings og að sama skapi gaf fólk á förnum vegi lítið fyrir málflutning stjórnarandstöðunnar. Fólk vill stöðugleika og óttast afleiðingar kollsteypustjórnmála. Þess vegna komu úrslit kosninganna mér ekki á óvart og rökrétt var að láta reyna á áframhaldandi samstarf flokkanna þriggja sem mynduðu ríkisstjórn fyrir fjórum árum.

Í heildina litið ber stjórnarsáttmáli með sér pólitískan vorblæ nú þegar við erum annars stödd í svartasta skammdeginu. Hann ber með sér von og þess vegna leyfi ég mér að vera bjartsýn á komandi kjörtímabil.

— Góðar stundir.


Guðrún Hafsteinsdóttir
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook