Jarðstrengurinn

Í þessari viku eru liðin tvö ár frá því að Landsnet lagði fram frummatsskýrslu vegna umhverfismats fyrir Hólasandslínu 3 (Rangárvellir – Krafla). ,,Markmið framkvæmdarinnar er að bæta orkunýtingu, auka flutningsgetu og tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi“. Í þeirri frummatskýrslu kom fyrst fram að jarðstrengur frá Rangárvöllum að Bíldsárskarði, tæplega 10 km leið, yrði hluti af aðalvalkosti Landsnets vegna þessarar mikilvægu framkvæmdar.

Það var ánægjulegt að sjá að baráttan um að verja hagsmuni Akureyrarflugvallar var að skila árangri. Barátta sem hafði staðið frá árinu 2011 þar sem annars vegar barist var fyrir því að framtíðarhagsmunir Akureyrarflugvallar yrðu varðir og hins vegar að tekið yrði tillit til þess að strengur yrði lagður í jörðu í næsta nágrenni við þéttbýlið á Akureyri í stað loftlínu. Hagsmunir tengdir flugvellinum snúa helst að tveimur þáttum sem eru flugöryggi og aðflugslágmörk að flugvellinum, en hið síðarnefnda snýr að því að lækka mögulegar lágmarkshæðir aðfluga úr suðri. 



Mikilvæg þingsályktunartillaga

Forsendan fyrir því að gera þetta mögulegt var þingsályktunartillaga þáverandi iðnaðarráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur sem samþykkt var í þinginu árið 2015. Þingsályktunartillagan markaði stefnu stjórnvalda í málaflokknum þar sem meðal annars var tekið tillit til þessara þátta, þéttbýlis og alþjóðaflugvalla.

Fyrstu ummerkin um framkvæmdir í tengslum við Hólasandslínu 3 og jarðstrenginn frá Rangárvöllum yfir í Bíldsárskarð er nýbyggð brú yfir vestari kvísl Eyjafjarðarár og nú eru jafnframt hafnar framkvæmdir rétt ofan við Naustaflóa í Naustaborgum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það verður stór áfangi þegar allar raflínurnar sem nú liggja ofan við hesthúsabyggðina í Breiðholti, í gegnum Naustaborgir, hluta Kjarnaskógar og þaðan yfir óshólma Eyjafjarðar sunnan við Akureyrarflugvöll yfir í Bíldsárskarð hverfa sjónum okkar við það að vera lagðar í jörð.

Jarðstrengurinn mun leysa af hólmi núverandi raflínur á öllu fyrrnefndu svæði og þegar hann verður kominn í notkun verða þessar línur teknar niður. Þar með taldar Laxárlína og Kröflulína 1 sem verður lögð í jarðstreng sömu leið frá Rangárvöllum yfir í Bíldsárskarð.

Nú er bara að vona að það gangi vel með framhaldið þannig að hægt sé að tryggja raforkuöryggi á svæðinu sem allra fyrst.



Flutningskerfi raforku hugsað til áratuga

Þegar nýjar raflínur eru settar upp í meginflutningskerfi raforku eru þær hugsaðar til að standa í áratugi. Gert er ráð fyrir að mannvirkin nýtist í 50 – 60 ár í það minnsta, og í sumum tilfellum jafnvel lengur. Það er því mjög ánægjulegt að tekist hafi að koma þessu máli í þennan farveg svo góð niðurstaða hafi fengist í málið eins og raun ber vitni. Að því sögðu er mér ómögulegt að fjalla um málið öðruvísi en að benda á frábært starf Víðis Gíslasonar, vinar míns, sem hefur lagt mikla vinnu í málið. Símtölin og fundirnir hafa verið ótal margir síðan 2011.

Þegar við hófum þessa vegferð héldu forsvarsmenn Landsnets því fram að kostnaður við rafstreng á þessari leið væri sjö- til nífalt dýrari kostur en hefðbundinn raflína í lofti. Við höfðum hins vegar ekki mikla trú á að svo væri. Jú, það yrði líka að hafa í huga að lengdin á strengjalausninni væri rétt um 10 km löng á meðan raflínulausnin teygði sig yfir um 17 km leið. Fjörðinn þyrfti auk þess að þvera mun sunnar og með mjög áberandi hætti. Það var því gríðarlega ánægjulegt að tekist hafi að ná þeim sjónarmiðum fram að nauðsynlegt væri að koma nýrri byggðalínu í jörð á þessum hluta Hólasandslínu 3. 



Nú þegar framkvæmdir eru hafnar held ég að það sé vart annað hægt að segja en að lendingin í málinu sé ásættanleg og röksemdir úrtöluradda um íþyngjandi aukakostnað við lagningu jarðstrengs á því svæði sem um ræðir hafi ekki reynst á rökum reistar. Enda þarf, líkt og fyrr hefur fram komið, að taka tillit til þess að sú leið sem varð ofaná er umtalsvert styttri en hún hefði getað orðið hefði sá valkostur orðið fyrir valinu að leggja hefðbundna loftlínu. Til viðbótar við þetta tryggir lögn línunnar í jarðstreng í nágrenni flugvallarins á Akureyri að raflínan muni ekki með neinum hætta skerða öryggi og notkunarmöguleika flugvallarins.

Áætlað er að framkvæmdir við Hólasandslínu 3 sem er 70 km löng verði lokið fyrir árslok 2021. Hér er um stórframkvæmd að ræða, framkvæmdakostnaður er áætlaður um níu milljarðar.

Verkefnið er klárlega eitt af veigameiri málum svæðisins!

Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi


Greinin birtist áður í Vikublaðinu


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook