Vefritið Íslendingur 20 ára

Í dag, 9. apríl, eru 20 ár liðin frá því Íslendingur, vefrit okkar sjálfstæðismanna á Akureyri, hóf göngu sína á Netinu. Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, opnaði vefinn í hófi í Kaupangi þann dag. Dagsetningin var ekki valin af neinni tilviljun enda dagurinn og nafnið skírskotun í þjóðmálaritið Íslending sem fyrst kom út 9. apríl 1915. 

Halldór var lykilmaður í sögu gamla Íslendings, ritstýrði því, kom að skipulagningu útgáfunnar og skrifum í blaðinu með reglubundnum hætti í áratugi og var velgjörðarmaður vefsins með skrif þau ár sem hann sat á þingi og lagði drjúga hönd á plóg við uppbyggingu vefsins með skrifum sínum og þönkum. 

Íslendingur var borgaralega sinnað þjóðmálarit allt frá fyrsta útgáfudegi og síðar meir mikilvægur vettvangur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri eftir stofnun Íhaldsflokksins 24. febrúar 1924 og Sjálfstæðisflokksins sem varð til við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins 25. maí 1929. Íslendingur kom út með reglubundnum hætti allt þar til í ársbyrjun 1986 þegar hefðbundin flokksmálgögn tóku að falla hvert af öðru af hefðbundnum dagblaðamarkaði. 

Síðan hefur Íslendingur komið út með reglubundnum hætti fyrir kosningar til Alþingis og sveitarstjórnar og reglulega þess fyrir utan til fjáröflunar fyrir Sjálfstæðisflokksins. Á aldarafmæli gamla Íslendings, 9. apríl 2015, fór ég yfir sögu blaðsins í ítarlegri grein hér á vefritinu þar sem stiklað var á stóru. Greinin birtist að nýju í sérstöku afmælisblaði Íslendings síðar sama ár. 

Mikill metnaður einkenndi þá ákvörðun að opna vefinn. Íslendingur.is var fyrsti flokksvefurinn á netinu hér á Akureyri og var vel uppfærður og sinnt af mikilli elju. Íslendingur varð strax í upphafi ein öflugasta vefsíða sjálfstæðismanna á landinu – þar voru í senn nýjustu fréttinar úr flokksstarfinu, pistlar og greinar flokksmanna og allt sem máli skipti fyrir okkur sem styðjum flokkinn.



Mikil gæfa var fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri að fá Helga Vilberg til að stýra vefnum í upphafi. Hann var faðir vefsins, hafði mikinn áhuga og metnað fyrir tæknihlið vefsins og þeirri umgjörð að hafa hann líflegan, ferskan og ábyrgan miðil upplýsinga og skoðana. Stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar, með Helga sem formann, ýtti þessu verkefni úr vör af miklum krafti og framsýni. Það ber að þakka þeim sem þá skipuðu stjórn félagsins fyrir að opna vefinn af svo miklum metnaði á þeim tímapunkti. 

Enginn vafi leikur á að sé netið notað með markvissum og reglubundnum hætti er hægt að skapa fjölmiðil sem vegur ekki síður þyngra en hinir hefðbundnu miðlar. Íslenskir stjórnmálamenn og frambjóðendur hafa allt frá upphafi skynjað mátt netsins og notað hann. Sumir þó aðeins í prófkjöri og átökum, aðrir hafa ræktað miðilinn betur og nýtt af meiri elju alla þá möguleika sem þessum miðli fylgir.

Á upphafsdögum Íslendings var þessi kraftur sannarlega til staðar og vonandi höfum við öll skynjað hversu mjög við höfum notið góðs af þessari vefsíðu. Íslendingur á netinu hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks í flokksstarfinu - þau skipta sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt.

Ég hef komið að starfi Íslendings nær frá upphafi og naut þess að finna áhugann og kraftinn í öllu starfinu kringum vefinn. Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um netið og skoðanaskipti þar. Því hef ég metið þennan vef mikils og tel heiður að hafa tekið þátt í þessu verkefni í gegnum árin. Helgi Vilberg á mikið hrós og heiður skilið frá okkur fyrir að hafa stýrt þessum vef af svo miklum krafti. Hann lagði mikið að mörkum til að vefurinn myndi njóta sín sem traustur miðill upplýsinga og skoðana. Sú vinna var mikils virði. Þegar Helgi lét af ritstjórastörfum 2007 tók Jóna Jónsdóttir við ritstjórninni og sinnti henni næstu þrjú árin.

Ég hef verið ritstjóri vefritsins frá haustinu 2010, í rúman áratug, meira en helming af þeim tíma sem Íslendingur hefur verið í loftinu sem vefrit. Þegar ég tók við hafði vefurinn hafði verið í nokkurri lægð, við höfðum tekið skell í kosningum og framundan uppbygging eftir vonda byltu. Mér fannst verkefnið áhugavert, vildi leggja mitt að mörkum og vona að sú vinna hafi verið flokknum mikilvæg. Frá upphafi hef ég einsett mér að félagsmenn sjái á vefnum allt sem er að gerast, geti þar bæði kynnt sér viðburði, lesið skoðanir forystufólks okkar og sjái kraft í starfinu okkar og vilji tilheyra liðsheild okkar. 

Ég trúi því og treysti að framtíð vefsins sé björt. Það er lykilatriði fyrir okkur sjálfstæðisfólk á Akureyri að rækta þennan miðil upplýsinga og skoðana. Á 20 ára afmæli vefsins er það okkur mikilvægt. Ég vil stuðla að því og trúi því og treysti að við séum öll sammála um það.

Til hamingju með daginn!

Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook