Í upphafi árs - kosningaárs

 

Í upphafi árs 2018 er ástæða til bjartsýni. Það virðist vera sem Íslendingar vilji stöðugleika og hin nýja þverpólitíska ríkisstjórn fær mikinn meðbyr í upphafi. Þetta er ekki ólíkt þeim anda sem skapast þegar vora tekur hvert ár. Það birtir yfir öllum og vonin um gott sumar með öllu sem því fylgir kviknar í hjörtum okkar.

 

Það er líka full ástæða til bjartsýni. Hagvöxtur er mikill, laun hafa hækkað verulega, verðbólga hefur haldist lág og það þýðir að ráðstöfunartekjur heimila hafa vaxið. Þetta sjáum við t.d. í hækkun á úrsvarstekjum sveitarfélaganna, sem hefur m.a. leitt til þess að hægt hefur verið að auka útgjöld og þjónustu á ýmsum sviðum.

 

Það vekur vissulega vonir að sjá að ríkisstjórnin ætli að leggja áherslu á mörg þeirra mála sem við höfum verið að berjast fyrir á liðnum árum. Þar má nefna réttlátari tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, aukna dreifingu ferðamanna um landið ásamt stuðningi við markaðsskrifstofur landshlutanna og eflingu atvinnu og þjónustu um land allt. Í því samhengi er mikilvægt að halda áfram að minna á og þrýsta á að:

  • hafist verði handa við uppbyggingu nýrrar legudeildar á SAk samhliða uppbyggingu Landspítalans,

  • daggjöld til öldrunarheimila verði hækkuð, þannig að þau standi undir kostnaði við rekstur þeirra.

  • flugþróunarsjóðurinn verði efldur þannig að hann geri meira en að standa undir hærra eldsneytisverði á flugvélar í millilandaflugi til og frá Akureyri og Egilsstöðum. Það er forsenda þess að millilandaflug verði að veruleika og um leið þess að dreifa ferðamönnum meira og jafnar um landið allt.

  • lokið verði við framkvæmdir á flughlaðinu á Akureyrarflugvelli.

  • framkvæmdum við Dettifossveg verði hraðað og þeim lokið.

  • rekstur Reykjavíkurflugvallar verði tryggður fyrir innanlandsflug og sjúkraflug a.m.k. þar til jafn góður eða betri kostur finnst.

En þegar vel árar hvílir mikil ábyrgð á herðum þeirra sem halda um stjórnvölinn á hverjum stað. Það þarf að huga vel að því hvar ákveðið er að auka þjónustu og tilgangurinn þarf að vera skýr. Það er nefnilega fátt erfiðara en að skera niður nauðsynlega þjónustu og útgjöld þegar verr árar eins og nýleg dæmi sýna. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa skýra langtímasýn sem byggir á öflugum og góðum gagnagrunni. Á þetta höfum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt mikla áherslu á frá upphafi þessa kjörtímabils. Nú fylgja fjárhagsáæltun hvers árs starfsáæltanir sem lýsa því hvernig fjármunir verða og hafa verið nýttir, ásamt greinargerð sem fylgdi nú í fyrsta skiptið fjárhagsáæltuninni og verður þróuð áfram og betrumbætt. Þá liggur fyrir að ákveðið hefur verið að fara í vinnu við gerð 10 ára áætlunar sem við höfum margt bent á þörf fyrir. Slík áætlun var unnin árin 2013 og 2014 en hefur því miður ekkert verið gert með fram að þessu, sem er í raun sorglegt. En viljann verður að taka fyrir verkið og bindum við góðar vonir við þá stefnumótunarvinnu sem nú fer í hönd.

 

En hvaða máli skiptir slík vinna gæti einhver spurt. Ef ætlunin er að auka íbúalýðræði á Akureyri verða upplýsingar að vera aðgengilegar öllum sem vilja. Við getum ekki tekið málefnalega umræðu út frá getgátum og því sem við höldum að sé rétt, en vitum það ekki fyrir víst. Það hafa verið stigin ákveðin skref í þessa átt með áðurnefndri greinargerð, opnu bókhaldi og þá er verið að vinna að aukinni rafrænni stjórnsýslu sem mun auka á aðgengi íbúa að upplýsingum. Þá þarf að skipuleggja fundi þar sem íbúum gefst raunverulegur kostur á því að koma skoðunum sínum á framfæri. Stóra málið er svo að taka tillit til þessara skoðana þegar ákvarðanir eru teknar á hverjum tíma um mikilvæg mál.

 

Þessi mál geta snúið að framkvæmdum ýmis konar, forgangsröðun og eðli þeirra. Að ná upp þátttöku getur tekið tíma því reynslusögur sem við heyrum erum oft á þann veg að ekkert sé hlustað á raddir íbúanna. Þar koma skipulagsmál oft við sögu. Það er í raun merkilegt því þar er lögfest ferli sem á að tryggja íbúum þátttöku í ákvörðunum. Þetta hefur komið skýrt fram í umræðum um þrengingu og tilfærslu Glerárgötunnar, þéttingu byggðar t.d. í Kotárborgum og þá fannst mér merkilegt að heyra af því að íbúar í eldra hverfi bæjarins hafi ekki vitað af því að það væri búið að breyta skipulagi og úthluta auðri lóð í miðju hverfinu. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem við verðum að breyta og tryggja virka þátttöku íbúanna.

 

Við þurfum nefnilega að komast út úr neikvæðu og niðrandi umræðunni sem alltof oft einkennir skoðanaskipti á samfélagsmiðlunum. Það verður best gert með því að fólk finni að það hafi raunveruleg áhrif, sem er ekki einfalt mál en þess virði að reyna allt til að breyta.

 

Það er umhugsunarefni hvort farið hefði verið í ýmsar framkvæmdir á Akureyri ef tekið hefði verið mark á raunverulegum gögnum í stað þess að fegra þau til að réttlæta ákvarðanatökuna. Við höfum t.d. gagnrýnt samþykktir meirihlutans um kostnað við sundlaugina, Listasafnið og lóð Naustaskóla svo eitthvað sé nefnt, þar tekin hefur verið pólitísk ákvörðun um kostnað í stað þess að horfa til raunverulegs kostnaðar sem legið hefur fyrir. Hefði t.d. verið farið í framkvæmdirnsr við Listasafnið ef það hefði legið fyrir að kostnaðurinn yrði 700 milljónir hið minnsta en ekki 400 milljónir eins og fram kom þegar framkvæmdin var samþykkt.

 

Það er því marg sannað að það þarf að byggja ákvarðanir á gögnum og horfa til framtíðar. Við viljum efla og styrkja Akureyri sem samfélag sem getur veitt öfluga og fjölbreytta þjónustu. Þá verðum við að horfa til þess að fjölga barnafólki. Til þess að geta það þarf að vera nægjanlegt framboð á þjónustu við barnafólk s.s. næg leikskólarými, og öflugir og góðir leik- og grunnskólar sem veita framúrskarandi þjónustu og ná árangri eins og best gerist. Það verður ekki gert nema með skýrri stefnumótun þannig að allir geri sér grein fyrir því hvert stefnt skal á hverjum tíma. Það er því mikilvægt að taka meðvitaða ákvörðun um að börn verði tekin inn í leikskóla frá 16 mánaða aldri frá næsta hausti og vinna þá út frá því til framtíðar að lækka leikskólaaldurinn í 12 mánuði. Það er markmið sem eðlilegt er að stefna að þar sem lengja á fæðingarorlof i 12 mánuði á næstu árum.

 

Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir 20 milljónum til nútímavæðingar skóla á Akureyri og í allt 60 milljónum næstu þrjú árin. Þetta er í sjálfu sér virðingarvert svo langt sem það nær. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvað skal gera eða hvernig. Ef ætlunin er að horfa til þess að tölvuvæða nám í grunnskólum sem dæmi, þarf ekki bara að fjölga tækjum í skólunum, það þarf einnig að efla til mikilla muna ráðgjöf til kennara sem á að skila sér í breyttum starfsháttum. Til þess að svo verði þarf miklu meira fjármagn til a.m.k. fimm ára ef ekki lengri tíma. Við gætum t.d. lært í þessu efni af reynslu skólakerfisins í Kópavogi.

 

Eins og hér hefur verið dregið fram eru verkefnin mörg sem bíða okkar í framþróun Akureyrar sem samfélags. Það þarf ekki síður styrka stjórn í sveitarfélögin en í landsmálin. Því verðum við sjálfstæðismenn að stilla upp sterkum, fjölbreyttum og samstilltum lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Trúverðug stefnuskrá sem endurspeglar áherslur sjálfstæðisstefnunnar og væntingar íbúanna er nauðsynleg svo árangur verði í samræmi við væntingar okkar. Samtal við fulltrúa íbúanna verður því að taka í undirbúningsferlinu og vanda þarf til úrvinnslu. Við verðum að leggja áherslu á sterka liðsheild sem fylgt getur málum eftir á næsta kjörtímabili og kvíði ég því ekki í ljósi reynslunnar af starfinu á þessu kjörtímabili. Við verðum öll að leggja okkar að mörkum og vinna skipulega. Þá verðum við að hafa gaman líka, njóta og skemmta okkur. Gangi þetta allt eftir er ég sannfærður um að við verðum í lykilstöðu við myndun meirihluta í vor.

 

Gleðilegt ár, með kærum þökkum fyrir samskipti og samveru á liðnum árum.

 

 

Gunnar Gíslason
bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook