Hvað er málið?

Ljósmynd: Hörður Geirsson

Á fimmtudag í síðustu viku var í bæjarstjórn Akureyrar haldinn aukafundur sem bæjarfulltrúar minnihlutans óskuðu eftir. Á dagskrá voru embættisfærslur skipulagsstjóra Akureyrarbæjar er varða Hafnarstræti 106, Braunshús, og viðbrögð skipulagsnefndar við þeim. Einnig voru til umræðu svör bæjarstjóra við spurningum sem beint var til bæjarstjórnar sem og framtíð miðbæjarskipulagsins. Vegna þess hversu langur fundurinn var og þess hversu umræður voru ómarkvissar langar okkur, bæjarfulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn á Akureyri, að skerpa á málefnalegum athugasemdum okkar við stjórnsýslu embættismanna og viðbrögð meirihlutans við þeim.

Hafnarstræti 106 – afgreiðsla skipulagsnefndar

Þetta var yfirskrift fyrsta liðar fundarins. Bæjarfulltrúar minnihlutans lögðu fram þá tillögu að bæjarstjórn samþykkti að láta gera stjórnsýslu- og þjónustuúttekt á skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Sú úttekt skyldi unnin af óvilhöllum aðilum og þar yrði afgreiðsla skipulagsstjóra á byggingarleyfi vegna Hafnarstrætis 106 sérstaklega til skoðunar.

Stefnubreyting á 40 dögum

En hvers vegna þykir okkur mikilvægt að slík úttekt fari fram? Kjarni málsins er sá að pólitískur vilji skipulagsnefndar varðandi uppgerð á húsinu var skýrt settur fram sem svar við athugasemd sem barst þegar auglýst var eftir athugasemdum vegna deiliskipulags miðbæjarins. Athugasemdin var á þá leið að viðkomandi lagði til að húsið yrði gert upp og það látið standa þar sem það er nú en tengibyggingar til beggja hliða væru fjarlægðar til að opna leið yfir í Skipagötu. Svar skipulagsnefndar hljómaði svo: „ Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir að húsið víki og því fundinn verðugur staður í samræmi við umgjörð og byggingarstíl. Húsið passar illa inn í núverandi götumynd. Með því að fjarlægja húsið myndast góð tenging við gönguleið frá göngugötu í átt að Hofi.“ Þarna var pólitískur tónn skipulagsnefndarinnar sleginn og var skipulagsstjóra kunnugt um það.

Samþykkt skipulagsnefndar er dagsett 16. apríl 2014 og staðfest í bæjarstjórn 6. maí 2014. Þann 27. maí, aðeins 41 degi síðar, barst skipulagsstjóra erindi frá Ingólfi Guðmundssyni, starfsmanni arkítektastofunnar Kollgátu, þar sem óskað var eftir leyfi til breytinga á húsinu samkvæmt teikningum sem undirritaðar eru af bæjarfulltrúanum Loga Einarssyni. Skipulagsstjóri samþykkti erindið 12. júní en daginn áður hafði fulltrúi í minnihluta skipulagsnefndar spurt út í málið og fengið þau svör að um væri að ræða minniháttar breytingar.

Þann 22. september barst svo ósk um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum við allt húsið sem skipulagsstjóri samþykkti á afgreiðslufundi þann 23. október, reyndar eftir að sami fulltrúi í minnihluta skipulagsnefndar hafði spurst fyrir um afgreiðsluna og enn fengið þau svör að um minniháttar breytingar væri að ræða.

Skipulagsnefnd gerir athugasemdir við afgreiðsluna

Þegar ljóst er orðið að um meiriháttar breytingar er að ræða á Hafnarstræti 106 sendi skipulagsnefnd frá sér bókun 25. febrúar sl. og greinargerð vegna afgreiðslna skipulagsstjóra á málum sem varða Hafnarstræti 106. Bókunin, sem samþykkt var af öllum fulltrúum hljómar svo: „Skipulagsnefnd gerir athugasemd við að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir verulegum breytingum á Hafnarstræti 106 án umfjöllunar nefndarinnar. Nefndin telur að breytingarnar vinni gegn samþykktu skipulagi bæjarins og séu til þess fallnar að festa húsið í sessi. Skipulagsnefnd mun í framhaldi skerpa á verklagsreglum gagnvart framkvæmd stefnu bæjarins í skipulagi miðbæjar Akureyrar.“

Minniháttar eða meiriháttar?

Deilan milli skipulagsstjóra og skipulagsnefndar snýr að því hvort um sé að ræða minniháttar eða meiriháttar breytingar, þar sem að lög og reglugerðir vísa í það að meiriháttar breytingar skuli fara fyrir skipulagsnefnd. Í greinargerð skipulagsnefndar kemur fram að „Undirritaðir nefndarmenn Skipulagsnefndar og áheyrnarfulltrúi telja breytingarnar þó alls ekki minni háttar heldur þvert á móti verulegar. Þær fela í sér mikla breytingu á notkun og útliti hússins. Þessar verulegu breytingar urðu nefndinni fyrst ljósar eftir að nefndarmenn sáu teikningar af framkvæmdinni í byrjun árs 2015.“

Það er ljóst að fulltrúar allra flokka í skipulagsnefnd eru ósáttir við málsmeðferð skipulagsstjóra. Eða eins og það er orðað í lok greinagerðarinnar: „Þegar saman fer skýr stefna bæjarins um að færa húsið sem og hversu umfangsmiklar breytingar á að gera á því er erfitt að skilja af hverju skipulagsstjóri Akureyrarkaupstaðar ákvað að afgreiða málið án þess að kynna það sérstaklega fyrir nefndinni.“ Þess má geta að samþykkt um stjórn Akureyrarbæjar kveður á um það að embættismanni sé óheimilt að taka ákvörðun sem fer gegn stefnu bæjarins í veigamiklum málum.

Skipulagsstjóri í verkfalli

Skipulagsstjóri brást við með því að setja fram sína eigin greinargerð þar sem fram kom að hann muni ekki samþykkja nýjar umsóknir um byggingarleyfi er varða breytingar á útliti eða formi mannvirkis nema að undangengnu samþykki skipulagsnefndar eða þangað til fyrrnefndar verklagsreglur hafa verið afgreiddar í skipulagsnefnd og samþykktar í bæjarstjórn. Þessi viðbrögð skipulagsstjóra verða að teljast óeðlileg því eðlilegt væri að hann sendi öll vafamál til afgreiðslu skipulagsnefndar en ekki öll mál. Þannig er hann að brjóta gegn starfsskyldum sínum.

Meirihlutinn andæfir skipulagsnefnd

Í umræðum um málið á fyrrnefndum bæjarstjórnarfundi lýsti Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins, fyrir hönd meirihlutans yfir stuðningi við afgreiðslur skipulagsstjóra. Hann lagði einnig fram þá tillögu að frekari umræðum og ákvarðanatöku um stjórnsýslu- og þjónustuúttekt yrði vísað til afgreiðslu í bæjarráði. Það er því ekki útséð um hvort af úttektinni verði en við höldum þó í vonina um að fagmennska og vilji til að koma öllum kurlum til grafar verði ofan á í ákvörðun meirihlutans. Það er þó erfitt að spá um vegna þess hversu sérstök afstaða meirihlutans til skipulagsnefndar er.

Óviðunandi stjórnsýsla

Á umræddum bæjarstjórnarfundi kom fram í máli oddvita Framsóknarflokksins og fulltrúa Samfylkingarinnar að allar líkur væru á að skipulagsnefnd hefði samþykkt erindið hefði málið komið til þeirra kasta. Þessu halda þau fram þrátt fyrir fyrrnefnda bókun og greinargerð skipulagsnefndar. Gott og vel. Það er þó í grunninn ekki það sem málið snýst um heldur það hvort það er á hendi skipulagsstjóra að snúa við samþykktri pólitískri stefnu varðandi skipulag án þess að bera það undir nefndina. Í vörn skipulagsstjóra kemur fram að pólitískum fulltrúum hafi átt að vera kunnugt um málsmeðferðina og þeim því í lófa lagið að taka málið upp í skipulagsnefnd. Eins og komið hefur fram lagði fulltrúi í minnihluta skipulagsnefndar fram fyrirspurnir vegna málsins en þar sem hann hafði ekki aðgang að teikningum að breytingunum tók hann orð skipulagsstjóra um að framkvæmdirnar væru minniháttar trúanleg. Þar hefur augljóslega orðið trúnaðarbrestur. Auk þess rökstyður skipulagsstjóri mat sitt á því að ónauðsynlegt hafi verið að fara með málið fyrir pólitíska fulltrúa í skipulagsnefnd vegna þess að teikningarnar að breytingunum hafi komið frá sitjandi bæjarfulltrúa. Þetta er að okkar mati óviðunandi stjórnsýsla og ef ekkert er að gert mun þetta verða til þess að röddum, sem stundum verða ansi háværar, um að bænum sé í raun og veru stjórnað af embættismönnum, vex fiskur um hrygg.

Bæjarstjóri okkar allra

Það er ástæða til að árétta það að svar bæjarstjóra við spurningum Ragnars Sverrissonar kaupmanns, sem birtust í Akureyri Vikublaði 19. febrúar s.l. endurspegla ekki afstöðu minnihlutans í bæjarstjórn. Það má þó ætla af því hvernig bæjarstjóri setur mál sitt fram. Bæjarstjóri er þar einungis að svara fyrir hönd meirihlutans. Það kom fram á bæjarstjórnarfundinum að meirihlutinn hafði blessað þessi skrif bæjarstjórans. Því er í raun lýst yfir í svarbréfi bæjarstjóra að bæjarstjórn hafi skipt um skoðun hvað stöðu Hafnartrætis 106 varðar. Þar er fullyrt að:„Þar sem uppgerð hússins sé ekki í trássi við gildandi skipulag, þótt vissulega vinni staðsetning þess gegn einu af markmiðum þess, kemur bæjarstjórn ekkert að meðferð málsins.“ Rétt er að benda á að hér er notað orðið „uppgerð“ en eins og fram hefur komið snúa deilur skipulagsstjóra og skipulagsnefndar einmitt að því um hversu miklar breytingar sé að ræða. Hér virðist því koma fram stuðningur við það sjónarmið að afgreiðsla skipulagsstjóra hafi verið eðlileg, þrátt fyrir að slík stefnubreyting sem þessi afgreiðsla felur í sér hafi aldrei komið inn á borð skipulagsnefndar eða bæjarstjórnar.

Það er mikilvægt að við höfum traust á stjórnkerfinu okkar og stjórnmálafólkinu okkar. Við tölum um lýðræðisleg vinnubrögð, gegnsæja og réttláta stjórnsýslu. Hér hefur okkur mistekist hrapalega og við þurfum að taka ábyrgð á því. Ekki stinga höfðinu í sandinn og bíða eftir að storminn lægi. Við þurfum að gera þetta mál upp svo við vitum hvernig við eigum að sjá til þess að þetta gerist ekki aftur.

Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Margrét Kristín Helgadóttir, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar
Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook