Hugleiðing um lokun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli

Nú er liðinn rúmur mánaður síðan Hæstiréttur felldi þann dóm að loka skyldi neyðarbrautinni á Reykjavíkurflugvelli í síðasta lagi 29. september. Dómur sem snérist fyrst og fremst um valdheimildir ráðherra en ekki með nokkrum hætti um öryggishagsmuni almennings svo því sé haldið til haga.

Í síðustu viku, einmitt á þeim degi sem Bretar afhentu íslenskum stjórnvöldum flugvöllinn til eignar fyrir 70 árum síðan, sendi Isavía rekstraraðili flugvallarins út þetta NOTAM-skeyti. Í skeytinu kemur fram að neyðarbrautinni hafi verið lokað fyrir fullt og allt 4. júlí sl. eins og kemur fram í lið E:   "E) RWY 06/24 HAS BEEN PERMANENTLY CLOSED“.

Það eru liðin rúm sex ár síðan ég hóf afskipti af pólitík hér á Akureyri. Eitt af þeim málum sem ýttu undir þau afskipti voru meðal annars málefni Reykjavíkurflugvallar og í hvaða stöðu þau voru komin. Á þeim tímapunkti (2010) var gert ráð fyrir að norður-suður flugbrautinni, lengstu braut vallarins yrði lokað árið 2016 og einungis vestur-austur brautin yrði opin til 2024.

Hins vegar var öllum þeim sem þekktu til mála ljóst að yrði aðalflugbrautinni lokað 2016 yrðu engar forsendur til áframhaldandi flugreksturs í Vatnsmýrinni frá og með þeim tímapunkti. Nothæfisstuðull flugvallarins færi niður í ruslflokk sem þýddi að flugvöllurinn væri lokaður fjórða til fimmta hvern dag.

Þið ágætu lesendur myndu vart trúa því hversu oft ég hef heyrt frá ráðherrum, alþingismönnum, sveitarstjórnarmönnum og svo mörgum, mörgum öðrum: "Njáll, hafðu engar áhyggjur af þessu þetta mun aldrei gerast“.

Til þeirra sem hafa talað með þessum hætti á undanförnum árum vil ég segja: 
Þetta er að gerast og það er að gerast á ykkar vakt. 

Því miður er það þannig að sumarið er stutt hjá okkur og það er ekki langt í fyrstu haustlægðirnar og síðan veturinn.

Takið þá ákvörðun sem þið ein getið tekið.

Tryggið Reykjavíkurflugvöll óskertan áfram í Vatnsmýri.

Njáll Trausti Friðbertsson
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður Hjartans í Vatnsmýri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook