Grunnurinn var lagður af íslenskum sjómönnum

Það er óumdeilt að starf sjómannsins er um margt gjörólíkt öðrum önnum í lífi fólks. Starfið krefst mikillar fjarveru frá fjölskyldu og vinum, er í senn einmannalegt, erfitt og hart. Frá því sjómennskan var mitt aðalstarf hefur starfið tekið gríðarmiklum breytingum að öllu því er snýr að ytri umgjörð þess en inntakið er enn það sama - hæfni, þolgæði og æðruleysi. Starfið er því í eðli sínu enn hið sama og þegar að ég fór fyrst til sjós 16 ára gamall á skuttogaranum Björgvin EA 311.

Vissulega hafa orðið stórstígar framfarir til góðs á liðnum árum og í dag er aðbúnaður þeirra sem starfa til sjós allt annar og betri en var fyrir ekki svo löngu síðan. Með sama hætti hafa kröfur til starfsins breyst á undra skömmum tíma. Nægir í því sambandi að nefna aukna afkastagetu skipastóls Íslendinga í ljósi þeirra framfara sem orðið hafa í smíði skipa og sömuleiðis þeirrar tækni sem nýtt er hvort heldur er við fiskveiðar eða sjóflutninga.  Á sama tíma hafa kröfur um öryggi og bættan aðbúnað íslenskra sjómanna tekið stórstígum framförum.

Þar munar að minni hyggju mest um Slysavarnaskóla sjómanna sem á stærstan þátt í þeim langþráðu breytingum til góðs sem snúa að öryggismálum sjómanna. Hilmar Snorrason og samstarfsfólk hans hafa á undanförnum árum unnið gríðarlega gott starf í þágu öryggismála um borð í íslenskum skipum. Ég leyfi mér að fullyrða að þeirra góða starf á einna stærstan þátt í þeirri hugarfarsbreytingu meðal starfstéttarinnar sem hefur skilað fleiri sjómönnum heilum í heimahöfn en ella hefði verið.

Okkur Íslendingum hefur á undanförnum þremur til fjórum áratugum auðnast að skapa forsendur fyrir þeirri öflugu atvinnugrein sem íslenskur sjávarútvegur er í dag. Atvinnugrein sem er í fararbroddi á heimsvísu en um leið hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum hringinn í kringum landið. Þar eru að verki margir samverkandi þættir, meðal annars sjálfbær nýting auðlinda hafsins á grundvelli vísindalegra rannsókna, skynsamlegt fiskveiðistjórnunarkerfi og öflugt samspil hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja og tækni- og þekkingarfyrirtækja. Grunnurinn að þessum frábæra árangri, og um leið stórbættum lífskjörum okkar Íslendinga, var hins vegar lagður fyrir margt löngu af íslenskum sjómönnum sem öðrum stéttum fremur hafa hætt lífi sínu við vökur, vosbúð og kulda.

Sjómannadagurinn er í senn táknrænn fyrir þann hlýhug og þá virðingu sem íslenska þjóðin ber til íslenskra sjómanna en einnig mikilvægur minnisvarði um þýðingarmikið og öflugt framlag sjómanna í áranna rás. Dagurinn er fyrir mig persónulega einn merkasti dagur ársins þó vægi hans í þjóðlífi Íslands sé allt annað en áður var þegar fábreytni í atvinnu og afþreyingu var til muna minni. 

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar og hamingju í tilefni dagsins.


Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook