Formannskjörið 1991 - aðdragandi og eftirmáli

Það telst eitt mesta lán Sjálfstæðisflokksins að þar hafa verið sterkir forystumenn í rúmlega 90 ára sögu hans. Jafnan hafa flokksmenn getað treyst því að forystumenn flokksins séu stjórnmálamenn sem þjóðin treysti til forystu, skörungar í stormum sinnar tíðar. Aðeins hafa níu menn gegnt formennsku í Sjálfstæðisflokknum frá stofnun 25. maí 1929. Flokkurinn hefur verið í forystusveit ríkisstjórnar á Íslandi nú nær samfellt frá árinu 1991, ef aðeins er frátalið vinstratímabilið að loknu hruni 2009-2013.

Táknræn þáttaskil urðu innan Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í marsmánuði 1991 í aðdraganda þingkosninga þegar að Davíð Oddsson, þáv. varaformaður og borgarstjóri í Reykjavík, felldi Þorstein Pálsson af formannsstóli. Það er einsdæmi í sögu flokksins að formanni hafi verið hafnað í kosningu á landsfundi. Í þessum pistli verður fjallað um söguna á bakvið formannskjörið örlagaríka á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 1991 - aðdraganda þess og eftirmála. Það á vel við enda eru 30 ár í dag liðin síðan Davíð varð forsætisráðherra, enginn hefur setið lengur í forsæti ríkisstjórnar á Íslandi, rúm 13 ár.

Enginn deilir um að árið 1978 var örlagaríkt fyrir Sjálfstæðisflokkinn - ár mikilla sviptinga fyrir flokkinn. Í tveimur kosningum; borgarstjórnarkosningunum í maí og þingkosningunum í júní, missti hann hreinan meirihluta sinn í borgarstjórn Reykjavíkur, sem hann hafði haft allt frá upphafi, og forystu í ríkisstjórn Íslands. Við haustbyrjun 1978 var flokkurinn því valdalaus bæði við stjórn landsins og borgarinnar - hafði goldið afhroð og verið afgerandi hafnað. Það hafði aldrei gerst áður frá stofnun Sjálfstæðisflokksins að hann væri valdalaus í lands- og borgarmálum samtímis. Birgir Ísleifur Gunnarsson hafði misst borgarstjórastólinn og Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var skyndilega orðinn leiðtogi eins flokks stjórnarandstöðu, eftir fjögurra ára forsætisráðherraferil sem hafði hafist með stærsta kosningasigri Sjálfstæðisflokksins 1974. Staða flokksins var döpur – hann var í raun orðinn eyland í stjórnmálalitrófinu. Leitað var skýringa meðal flokksmanna á þessari höfnun sem fólst í valdamissinum. Þeir vildu tala hreint út um vandann, greina hann og halda til verkanna sem framundan voru.



Allir voru sammála því að bretta þyrfti upp ermar. Þeir sem höfðu þó forystu um að hefja þetta verk voru ungir sjálfstæðismenn. Það er ljóst að ungir sjálfstæðismenn og félög þeirra og forysta eiga að vera samviska flokksins. Það hefur enda alltaf verið svo. Þeir eiga að þora að tala meðan að aðrir hugsa og taka af skarið hratt og örugglega. Það voru því ungir sjálfstæðismenn sem tóku auðvitað af skarið eftir afhroðin í kosningunum 1978 og vildu fá öll mál upp á borð, ræða stöðuna og greina hana. Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, boðaði til fundar í Valhöll, Háaleitisbraut 1, þann 26. júlí 1978. Það varð hitafundur á pólitísku hásumri. Þar var farið yfir stöðuna og öll mál rædd, sum hver höfðu legið í þagnargildi í flokknum um árabil. Meðal þess var togstreita og spenna milli Geirs Hallgrímssonar og dr. Gunnars Thoroddsens, formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hafði ríkt árum saman en ekki verið rædd mikið opinskátt. Fjöldi forystumanna tók til máls og talað var enga tæpitungu í greiningunni á þeim víðtæka vanda er við blasti.

Meðal þeirra ungliða sem fluttu sterkar og afgerandi ræður á fundinum í Valhöll á þessum júlídegi árið 1978 var þrítugur lögfræðingur, Davíð Oddsson, borgarfulltrúi, sem kjörinn hafði verið í borgarstjórn Reykjavíkur í kosningunum 1974. Davíð talaði kjarnyrt og afgerandi, eins og svo oft síðar meir. Fleiri ungliðar tóku til máls á fundinum auk hans, meðal þeirra var Friðrik Sophusson, nýkjörinn alþingismaður, en hann hafði verið formaður SUS árin 1973-1977. Ræður þeirra vöktu það mikla athygli að þær voru síðar gefnar út á prent í bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar, með fleiri vönduðum greinum. Meginboðskapur hinna ungu manna var með þeim hætti að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti nú að stokka sig upp: skýra betur stefnu sína og bjóða kjósendum annan og frjálslyndari kost en vinstriflokkarnir. Það þyrfti að stokka upp með öðrum orðum algjörlega stefnu flokksins og stöðu hans. Tími væri kominn til að hefja nýja sókn með öflugum hætti.

Ákalli ungliðanna var svarað. Tími þeirra ungu var líka að renna upp í forystunni. Davíð Oddsson varð eftir þetta einn af öflugustu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og varð einn af lykilforystumönnum sinnar kynslóðar í flokksstarfinu. Davíð var kjörinn eftirmaður Birgis Ísleifs Gunnarssonar sem oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins árið 1980, tók við keflinu í endurreisn flokksins í borginni. Það val þótti mörgum djarft, enda litu margir á Davíð þá sem hálfgerðan grínista í stjórnmálum og tóku hann ekki alvarlega eftir fræga kómíska þætti, Útvarp Matthildi, sem hann vann í félagi við vini sína Hrafn Gunnlaugsson og Þórarinn Eldjárn. Hann átti eftir að sýna og sanna fyrir öllum stjórnmálaáhugamönnum eftir það hvers hann væri megnugur í stjórnmálabaráttu. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í nóvemberlok 1981 var Davíð kjörinn formlega leiðtogi framboðslista flokksins við kosningarnar 1982. Sigraði hann borgarfulltrúana Albert Guðmundsson og Markús Örn Antonsson í prófkjörinu. Var talningin æsispennandi og aðeins sjónarmunur á milli þremenninganna í talningunni. Munaði er yfir lauk aðeins 23 atkvæðum á Davíð og Markúsi. Albert fékk um 100 atkvæðum færra en Davíð.



Davíð leiddi Sjálfstæðisflokkinn með miklum glæsibrag í kosningabaráttunni 1982. Markmiðið var einbeitt og skýrt og málefnastaða Sjálfstæðisflokksins var gríðarlega sterk. Þessi barátta var litrík og öflug. Markmiðið var sigur og tekist var á við meirihlutaflokkana, vinstriöflin, með snörpum hætti. Sjálfstæðisflokknum tókst að koma sínum áherslum einbeitt og vel til skila. Djörf en metnaðarfull sýn Davíðs og Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum heillaði kjósendur - hafði betur í áróðursstríðinu við andstæðingana. Kosið var 22. maí 1982. Sjálfstæðisflokknum tókst að sigra í kosningunum undir forystu Davíðs Oddssonar. Hann hlaut tæp 53% atkvæða. Davíð hafði í þessari kosningabaráttu sýnt það og sannað að hann væri framtíðarmaður í íslenskum stjórnmálum og lagt borgina að fótum sér, 34 ára gamall. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum drógu eftir þennan glæsilega sigur Davíðs ekki í efa hversu styrkur hann væri sem stjórnmálamaður. Hann tók við embætti borgarstjóra með miklum slagkrafti skömmu eftir kosningar og hóf fljótt og afgerandi að breyta borgarpólitíkinni - framkvæmdi kosningaloforðin fljótt og vel.

Stórtíðindi urðu innan Sjálfstæðisflokksins á svipuðum tíma og Davíð varð oddviti borgarstjórnarflokksins 1980 þegar að Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi, studda af samherjum Gunnars innan þingflokksins, í febrúar 1980. Sjálfstæðisflokkurinn logaði stafna á milli í þessari rimmu og Sjálfstæðisflokkurinn lýsti sem flokksstofnun yfir fullri andstöðu við ríkisstjórn leidda af varaformanni sínum. Á þessum átakatímum hlakkaði í andstæðingum flokksins sem töldu hann varanlega skaddaðan og sundraðan. Með einbeitni og ákveðni tókst Geir Hallgrímssyni, formanni flokksins, að leiða brotin saman undir lok valdatíma stjórnarinnar veturinn 1982 og snemma árs 1983. Geir varð þó fyrir verulegu pólitísku áfalli í prófkjöri flokksins í Reykjavík í nóvember 1982 þegar að hann lenti í sjöunda sæti, sem var ekki öruggt sæti í kosningum. Ákvað Geir eftir mikla umhugsun að taka sætið, þrátt fyrir mikil vonbrigði sín með útkomuna.

Öllum varð ljóst að komið var að leiðarlokum á formannsferli Geirs Hallgrímssonar. Hann ákvað að sitja fram að landsfundi og leiddi Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningunum 1983 úr sjöunda sæti á framboðslista flokksins í borginni. Svo fór að Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur í þeim kosningum. Hann var sameinaður þrátt fyrir sundrung við stjórnarmyndun Gunnars. Það varð skuggi á úrslitunum að Geir náði ekki kjöri í Reykjavík og þingflokkurinn valdi frekar að fá fleiri ráðherrastóla í samstarfi undir forystu Framsóknarflokks en að fá sjálft forsætisráðherrastólinn fyrir Geir, sem varð honum sár vonbrigði. Hann varð þó utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem mynduð var í maí 1983 og leiddi flokkinn innan stjórnar þrátt fyrir það, sem utanþingsráðherra. Geir tók þá af skarið með að hann ætlaði ekki fram á landsfundi 1983. Mun Geir hafa litið á þessi tímamót sem þáttaskil í flokknum og nú væri komið að nýrri kynslóð að leiða Sjálfstæðisflokkinn til nýrra sigra og verkefna sem framundan væru. Það væri rökrétt að kynslóðin sem boðaði fundinn fræga í Valhöll í júlí 1978 og krafðist uppstokkunar í áherslum og stefnutali flokksins tæki við forystunni.

Geir kallaði á fund sinn í utanríkisráðuneytinu sumarið 1983 þá tvo menn sem hann taldi heppilegasta til þessa verks. Það voru borgarstjórinn Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson, fyrrum ritstjóri Vísis og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, sem kjörinn hafði verið á þing í kosningunum vorið 1983 sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi. Davíð og Þorsteinn eru nær jafnaldrar, fæddir með nokkurra vikna millibili undir lok fimmta áratugar síðustu aldar og áttu báðir rætur að rekja til Selfoss. Þeir voru afgerandi forystumenn innan yngri armsins í flokknum þá.

Boðskapur Geirs var skýr. Hann ætlaði sér að hætta formennsku og vildi að þeir myndu útkljá sín á milli hvor væri betur til þess fallinn að taka við forystu í flokknum og myndi styðja annan þeirra. Davíð taldi sig ekki geta farið fram þá, enda nýtekinn við borgarstjóraembætti, þar biðu sin krefjandi verkefni og hann þyrfti að sinna því umboði sem borgarbúar höfðu falið honum. Svo fór því að Þorsteinn fór fram, með stuðningi Davíðs og Geirsarmsins, og var hann kjörinn formaður á landsfundi í nóvemberbyrjun 1983. Sigraði hann Friðrik Sophusson, sem var endurkjörinn varaformaður í kjölfarið, og Birgi Ísleif Gunnarsson í kjörinu með afgerandi hætti.

Þorsteinn Pálsson var 36 ára gamall er hann var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Mörgum þótti hann þá tákn nýrra tíma og boða nýtt upphaf í forystu flokksins. Það urðu mörgum flokksmönnum því verulega sár vonbrigði að Þorsteinn varð ekki ráðherra strax við formannskjör sitt. Sat hann utan ríkisstjórnar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins í nær tvö ár eftir formannskjörið. Það var ekki fyrr en haustið 1985 sem hann tók loks sæti í ríkisstjórn og þá sem fjármálaráðherra eftir mikla ráðuneytauppstokkun meðal ráðherranna. Helgaðist það einkum að því að enginn ráðherra flokksins vildi hliðra til fyrir honum. Ekki bætti úr skák að varaformaðurinn, Friðrik Sophusson, var líka utan stjórnar. Niðurstaðan eftir mikla umhugsun varð sú að Geir Hallgrímsson vék úr ríkisstjórn og myndaði rými fyrir eftirmanni sínum, eftir átök bakvið tjöldin þar sem sótt var að Geir undir rós. Það var Geir og fylgismönnum hans nokkur vonbrigði hvernig það þróaðist og fór hann ef marka má lýsingar vina hans og pólitískra samferðamanna (sú saga er rakin af Styrmi Gunnarssyni í bókinni Átök og uppgjör 2012) fullur eftirsjár af stjórnmálavettvangi og varð seðlabankastjóri síðustu æviár sín. Sjálfstæðisflokkurinn styrktist vart við þessa atburðarás.

Önnur stór vonbrigði á stjórnmálaferli Þorsteins Pálssonar voru alþingiskosningarnar 1987. Í aðdraganda þeirra, í mars 1987, nokkrum vikum fyrir kosningarnar, hafði Albert Guðmundsson, iðnaðarráðherra og oddviti flokksins í Reykjavík, neyðst til að segja af sér ráðherraembætti vegna Hafskipsmálsins og ólgu innan þingflokksins með aðkomu Alberts að málinu. Vík varð milli Þorsteins og Alberts er Þorsteinn lýsti því yfir í viðtali á Stöð 2 skömmu eftir afsögn Alberts að það kæmi ekki til greina að hann yrði ráðherraefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að loknum þingkosningunum. Albert brást hinn versti við og tók til sinna ráða. Hann kallaði á dóttur sína og helsta pólitíska ráðgjafa, Helenu, heim frá Bandaríkjunum til ráðagerða og boðaði síðan til fundar með nánustu fylgismönnum innan flokksins til fundar í Þórscafé og vinna hófst við undirbúning sérframboðs. Albert sagði sig af framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík með stormasömum hætti og tilkynnti um stofnun flokks síns, sem hlaut nafnið Borgaraflokkurinn. Á sex sólarhringum fór Albert um landið, safnaði liði og kom upp framboði í öllum kjördæmum.

Borgaraflokkurinn hjó mjög í kjarnafylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningunum 1987 og hlaut sjö þingmenn kjörna, þar af þrjá í Reykjavík. Í forystu fyrir flokknum fóru fjöldi landsþekktra sjálfstæðismanna – umfram allt þótti Albert Guðmundsson hefna sín á Þorsteini Pálssyni og hljóta uppreisn æru sem stjórnmálamaður með sérframboðinu. Sjálfstæðisflokkurinn var skaddaður að loknum kosningunum, hafði aldrei hlotið minna fylgi og gat ekki myndað tveggja flokka stjórn. Sterk ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í kosningunum þrátt fyrir rausnarlegan þingmeirihluta, vegna fylgistaps sjálfstæðismanna. Svo fór þó að Sjálfstæðisflokkurinn leiddi nýja ríkisstjórn ásamt Framsóknarflokki og Alþýðuflokki eftir langa og erfiða stjórnarkreppu sem stóð í tæpa þrjá mánuði. Þorsteinn Pálsson varð forsætisráðherra tæplega fertugur að aldri, þrátt fyrir að hafa leitt flokkinn til lakasta árangurs síns í þingkosningum. Samstarf innan stjórnarinnar varð þó fljótt stormasamt og loft lævi blandið.

Stjórnin sprakk með sögulegum hætti í kastljósi fjölmiðla í beinni útsendingu í fréttaþættinum 19:19 á Stöð 2 í september 1988. Þá hafði staðið yfir þrátefli flokkanna svo mánuðum skipti um efnahagsmál og fleiri mál sliguðu stjórnina ennfremur stig af stigi. Hún var aldrei sterk og fáir urðu hissa þegar að hún loksins geispaði golunni. Hún var eins og flestar þriggja flokka stjórnir veikar og stjórnlausar við alvöru ákvarðanatöku um lykilmál, þó á því séu undantekningar. Við tók vinstristjórn. Sjálfstæðisflokkurinn leiddi í kjölfarið stjórnarandstöðu með Borgaraflokki og Kvennalista. Þorsteinn þótti veikjast gríðarlega vegna stjórnarslitanna haustið 1988 og undruðust margir í þeirri atburðarás að hann skyldi ekki hafa gripið til þess ráðs að reka ráðherra Framsóknar- og Alþýðuflokks úr stjórninni. Þorsteinn hafði litla stjórn á stöðu mála og þótti opinberast veik forysta hans innan Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarmenn voru sérstaklega illir í garð Þorsteins og mun Ólafur Þ. Þórðarson, þingmaður flokksins á Vestfjörðum, hafa sagt að forsætisráðherraferill Þorsteins hefði verið dýrasta stjórnunarnámskeið Íslandssögunnar.

Staða Sjálfstæðisflokksins var vart beysin við lok stjórnarinnar og það þótti kristallast í veikbyggðri forystu Þorsteins hvernig samstarfið fjaraði út - forsætisráðherrann hefði ekki brugðist nógu afgerandi við klækjabrögðum og beittu plotti samstarfsaflanna. Á meðan pólitísk forysta Þorsteins veiktist til muna styrktist Davíð Oddsson aftur á móti sífellt. Hann hafði leitt Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegs kosningasigurs í Reykjavík vorið 1986 og var orðinn afgerandi stjórnmálaleiðtogi og þótti í essinu sínu við stjórnvölinn í Reykjavík - hafði stjórnarandstöðuna alveg undir kontról og gnæfði yfir sem risi yfir borgarmálunum. Sífellt jukust vangaveltur manna í kjölfar þessarar velgengni hvenær að Davíð myndi söðla um og halda á vettvang landsmálanna. Það þótti vart spurning að svo myndi fara, þó að Davíð sjálfur gerði sem minnst úr þeim vangaveltum. Þorsteinn sá að rétt væri að vinsældir Davíðs myndu nýtast við forystu flokksins og beitti hann sér fyrir því að Davíð yrði varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi haustið 1989.

Á varaformannsstóli sat hinsvegar Friðrik Sophusson og hafði gert allt frá árinu 1981, er dr. Gunnar Thoroddsen lét af varaformennsku á sínum síðasta landsfundi. Þá var Friðrik einn hinna öflugu ungu manna í forystunni, hafði verið formaður SUS í fjögur ár, setið á þingi frá 1978 og verið iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Þorsteins. Friðrik sýndi því lítinn áhuga að rýma til. Þegar að til landsfundar kom virtist það afgerandi krafa landsfundarfulltrúa að kalla Davíð til verka sem varaformann og tilkynnti Davíð um framboð sitt á fundinum. Í miðjum landsfundarklíðum skynjaði Friðrik vanmátt sinn gegn Davíð og tilkynnti að hann myndi ekki gefa kost á sér til varaformennsku áfram. Staðan var orðin þannig að Davíð myndi hljóta kjör og Friðrik taldi hið eina rétta að stíga sjálfur til hliðar, sú ákvörðun átti eftir að leika lykilrullu síðar meir þegar Friðrik sneri aftur á varaformannsstól fyrr en varði. Lofuðu margir afstöðu Friðriks, þrátt fyrir að hún hefði væntanlega verið honum mjög erfið og þung, en hann hafði tekið við leiðtogahlutverkinu í Reykjavík snögglega fyrir þingkosningarnar 1987 er Albert Guðmundsson hafði yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn og farið í sérframboð, og sinnt leiðtogahlutverkinu með sóma.

Davíð var kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins með nær öllum greiddum atkvæðum á landsfundinum. Eining ríkti milli hans og Þorsteins á fundinum og forystan virtist samstillt og öflug halda til næstu verkefna. Davíð fór að nýju fram í borgarstjórnarkosningum vorið 1990 og öllum varð ljóst að staða hans væri sterkari en nokkru sinni fyrr. Í miðri kosningabaráttu veiktist Davíð er hann fékk alvarlega vírussýkingu og varð hann frá að hverfa hluta baráttunnar vegna þess en sneri aftur á elleftu stundu til að fullkomna sinn stærsta pólitíska sigur. Davíð leiddi jú Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegasta kosningasigurs í borgarstjórnarkjöri. Hlaut flokkurinn rúm 60% atkvæða og 10 borgarfulltrúa kjörna - sem reyndist um leið síðasti meirihlutasigur flokksins í borginni, afrek sem enn hefur ekki náðst að nýju. Eftir þennan sögulega sigur lék lítill vafi á því að Davíð væri orðin slík pólitísk stjarna að ekki yrði aftur snúið. Framundan væri landsmálaframboð og að hann myndi nú taka við því hlutverki að leiða Sjálfstæðisflokkinn. Flokksmenn töldu flestir að nýta þyrfti atbeina hans í komandi þingkosningum, ekki veitti af til að rífa flokkinn upp eftir ólán fyrri ára. Svo fór að kallað var með einbeittum hætti á Davíð til verka í landsmálum.




Davíð Oddsson hlýddi kallinu og gaf við svo búið kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í nóvember 1990 fyrir þingkosningarnar sem halda átti í aprílmánuði 1991. Davíð vann afgerandi sigur í prófkjörinu og hlaut fyrsta sætið með miklum glans. Friðrik Sophusson hlaut annað sætið og nýr inn í þriðja sætið kom Björn Bjarnason, sem taldist með Davíð hinn sanni sigurvegari prófkjörsins. Þeir áttu eftir að vinna samhent saman í landsmálunum í 15 ár. Nýir tímar þóttu framundan fyrir flokkinn með þessum prófkjörsúrslitum og öllum varð ljóst að Davíð yrði öflugur forystumaður innan þingflokksins hvernig sem færi á landsfundi í aðdraganda kosninganna, enda umboð hans í prófkjörinu í Reykjavík svo afgerandi. Vinstristjórnin, sem hafði reyndar aldrei verið sterk, var á fallanda fæti þessa lokamánuði fyrir kosningarnar og hafði er þarna kom sögu hlotið liðsstyrk með stjórnarþátttöku hluta Borgaraflokks. Albertsarmurinn hafði yfirgefið flokkinn er þarna kom sögu og haldið til baka eftir að Albert yfirgaf sviðið og varð sendiherra í París 1989. Ingi Björn, sonur Alberts, sem fór inn á þing 1987 hlaut fimmta sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í borginni.

Þrýstingur jókst á Davíð Oddsson í kjölfar prófkjörsins að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi sem fyrirhugaður var dagana 7. – 10. mars 1991. Þótti mörgum flokksmönnum orðið tímabært að Davíð fengi sitt tækifæri við stjórn flokksins og hann tæki við forystuhlutverkinu sem hann hafði í raun unnið fyrir með því að reisa Sjálfstæðisflokkinn aftur til vegs og virðingar við forystu Reykjavíkurborgar í þremur kosningasigrum. Ekkert fararsnið var þó á Þorsteini úr forystu flokksins og lýsti fljótt yfir því að hann ætlaði sér að gefa kost á sér til formennsku á landsfundinum. Þessar vikur var mikið þrýst á Davíð að fara fram. Ákvað hann að taka þeim áskorunum. Tveimur vikum fyrir landsfundinn, mánudaginn 25. febrúar 1991, boðaði Davíð til blaðamannafundar í Valhöll og tilkynnti um formannsframboð sitt og svaraði þar spurningum fjölmiðlamanna með málverk af Bjarna Benediktssyni eldri í bakgrunni. Fyrr þann dag og helgina áður hafði hann kynnt Þorsteini Pálssyni og öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins frá þeirri ákvörðun sinni. Var henni misvel tekið og öllum ljóst að fylkingamyndanir væru hafnar fyrir alvöru. Stóru orðin voru ekki spöruð í þeim væringum.

Í kjölfar blaðamannafundar Davíðs, sem þótti takast mjög vel, tilkynnti Þorsteinn þá afgerandi niðurstöðu sína að fara fram engu að síður og hvika hvergi þrátt fyrir formannsframboð Davíðs Oddssonar. Sagðist hann halda sigurviss í þann slag og telja sigurlíkur sínar þónokkrar. Við tók formannsslagur sitjandi formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, þessara fyrrum pólitísku fóstbræðra frá Selfossi. Margar sögur hafa farið af frægum vinskap Davíðs og Þorsteins fyrir formannskjörið örlagaríka árið 1991. Báðir fæddust þeir á Selfossi og áttu þar sín fyrstu skref og kynntust þar fyrst, urðu síðar pólitískir samherjar og baráttufélagar innan Sjálfstæðisflokksins. Vinslit urðu með æskufélögunum þessar örlagaríku vikur árið 1991 og hefur Davíð Oddsson sjálfur sagt í viðtölum löngu eftir þessi átök að aldrei hafi gróið um heilt milli þeirra eftir rimmuna miklu í þessum tiltölulega stutta en mjög snarbeitta formannsslag sem átti sér stað árið 1991. Formannsslagurinn varð í það minnsta mjög sögulegur fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Er haldið var til landsfundar í marsbyrjun 1991 hafði harður formannsslagur staðið í rúma viku og þótti nær vonlaust að spá í spilin við upphaf fundarins. Það þótti merkileg stund er landsfundurinn var settur með yfirlitsræðu Þorsteins Pálssonar að þar sátu formannskandidatarnir hlið við hlið með eiginkonum sínum, enda forystumenn flokksins. Það var lágstemmd stemmning en mikil spenna sem einkenndi upphafsdag þingsins ef marka má lýsingar fundarmanna. Mikil stilling einkenndi formannskandidatana en mikil alvara var þó undir niðri. Mikið var plottað og unnið þessa daga í formannsslagnum og héldu báðar fylkingar sigurvissar inn á fundinn, vissar um sigur. Viðstaddir sérfræðingar um stöðu flokksins sem höfðu skipað sér í fylkingar töldu sinn mann vera vissan um sigur. Þó er ljóst að sú var afstaða manna að Þorsteinn hafi mætt sterkari til leiks en Davíð verið í stöðugri sókn, bæði eftir framboðsyfirlýsinguna í Valhöll og dagana sem á eftir fylgdu til setningar landsfundarins.



Mikið var plottað í Laugardalshöll þessa marsdaga þar sem formannskandidatarnir reyndu allt sem þeir gátu til að afla sér stuðnings og vinna sér stuðning landsfundarfulltrúa um allt land. Öllum varð ljóst að hvert atkvæði skipti máli og baráttan varð hörð en þó á plani heiðursmanna á yfirborðinu. Landsbyggðarmenn innan flokksins þóttu frekar skipa sér í fylkingar með Þorsteini Pálssyni og margir landsbyggðarhöfðingjarnir í flokknum sem höfðu verið áberandi þar í áratugi töluðu með þeim hætti að það mætti hreinlega ekki gerast að formanni Sjálfstæðisflokksins yrði hafnað í kosningu á landsfundi í aðdraganda þingkosninga. Þrátt fyrir allt væri það ekki hið rétta í stöðunni. Davíðsmenn töluðu aftur á móti með þeim hætti að breytinga væri þörf í æðstu forystu flokksins eftir mögur ár og varð mikið tíðrætt um endalok ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem sýndi og sannaði að Þorsteinn gæti vart myndað ríkisstjórn að loknum þingkosningunum miðað við stöðu mála á kjörtímabilinu.

Formannsefnin fluttu ræður á laugardeginum og kynntu framboð sín og áherslur. Unnið var skipulega og af krafti alla helgina í herbúðum beggja. Reynt var að ná til allra, hvert atkvæði gæti ráðið úrslitum. Baráttan væri það jöfn að jafnvel landsfundarfulltrúinn frá Raufarhöfn eða Djúpavogi gæti skorið úr um það hvor yrði formaður Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni. Þótti útilokað að spá um sigur en báðir voru mjög sigurvissir. Gengið var til atkvæða laust eftir hádegið á sunnudegi. Rafmagnað andrúmsloft var milli fylkinga og yfir Laugardalshöll var loft óvissu og spennu. Er kosningu lauk var haldið til talningar í bakherbergjum hallarinnar. Talning tók ekki mjög langan tíma. Á meðan biðu stuðningsmenn formannsefnanna í salnum eftir uppgjörinu, ekkert var lengur hægt að gera nema að bíða og taugarnar þandar. Það var tekið að líða á fjórða tímann á þessum spennuþrungna sunnudegi, 10. mars 1991, þegar að Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, kom fram á sviðið í Laugardalshöll með úrslitin á litlum hvítum pappírsseðli.



Það kom í hlut Friðriks Sophussonar, fundarstjóra og fyrrum varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að taka við pappírsseðlinum og halda í pontu. Áður en hann gekk fram og tilkynnti úrslitin hvísluðust hann og Kjartan á og Friðrik leit spenntur á blaðið og sást líta á það aftur til að sannreyna hvernig hefði farið. Eftir örstutt spjall kom að því sem allir í salnum biðu svo óþreyjufullir eftir. Friðrik las upp atkvæðatölurnar. Davíð Oddsson hafði hlotið 733 atkvæði, eða 52,8% atkvæða, en Þorsteinn hlaut 651 atkvæði, eða 46,9%. 1.388 landsfundarfulltrúar greiddu atkvæði í kosningunni. Davíð var hylltur sem réttkjörinn formaður með langvinnu lófaklappi við þessi sögulegu úrslit. Davíð Oddsson hafði verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og fellt Þorstein Pálsson af formannsstóli. Davíð sagði í sigurræðu sinni að þar sem formannsslagurinn hefði farið málefnalega fram væri hann ekki í vafa um að sárin sem hefðu myndast með átökunum myndu gróa fljótt og Sjálfstæðisflokkurinn verða í kjölfarið sterkari en nokkru sinni.

Allir biðu spenntir eftir viðbrögðum Þorsteins Pálssonar við úrslitunum. Fór hann í ræðustól og flutti lágstemmda en beitta ræðu. Hann sagði þar að vinnubrögð í kringum formannsframboð Davíðs Oddssonar hefðu verið þess eðlis að niðurstaðan í kjörinu hlytu að túlkast sem ósk landsfundarins um harðara yfirbragð á Sjálfstæðisflokknum en verið hefði í átta ára formannstíð sinni. Sagðist Þorsteinn telja þessa niðurstöðu boða nýja og harðari tíma innan flokksins. Þetta væri allt önnur sál sem afhjúpast hefði í formannskjörinu en hann hefði þekkt til innan Sjálfstæðisflokksins til þessa. Að lokinni ræðu nýs formanns og fráfarandi formanns var gengið til varaformannskjörs. Skoraði Davíð Oddsson á Friðrik Sophusson að gefa kost á sér til embættis sem tákn samstöðu um varaformennskuna í aðdraganda kosninganna. Svo fór að Friðrik var kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, öðru sinni, og hlaut yfir 75% atkvæða. Friðrik gegndi varaformennsku í flokknum í önnur átta ár, samhliða farsælli setu í fjármálaráðuneytinu, allt þar til að hann hætti í stjórnmálum í ársbyrjun 1999 og varð forstjóri Landsvirkjunar.



Í kjölfar landsfundarins hófst kosningabarátta flokksins af miklum krafti. Davíð Oddsson fór sem formaður um allt land í fundaherferð og þótti standa sig vel sem formaður í sinni fyrstu kosningabaráttu. Úrslit þingkosninganna voru mikill sigur Sjálfstæðisflokksins. Hann hlaut 38,6% atkvæða og 26 alþingismenn kjörna. Það var ekki stærsti sigur Sjálfstæðisflokksins, hann hlaut rúm 40% í alþingiskosningunum 1974 undir forystu Geirs Hallgrímssonar, en þetta var hinsvegar fjölmennasti þingflokkur Sjálfstæðisflokksins til þessa, enda þingmönnum verið fjölgað þá úr 60 í 63. Þetta taldist því góður og eftirminnilegur sigur. Borgaraflokkurinn hvarf í kosningunum og Sjálfstæðisflokknum tókst að endurheimta klofningsfylgið sem farið hafði á Borgarana fjórum árum áður. Sjálfstæðisflokkurinn náði því vopnum sínum aftur og endurheimti fyrri stöðu sem öflugt stjórnmálaafl sem gæti myndað sterka tveggja flokka stjórn. Vinstristjórnin hélt þó velli en ekki reyndist vilji til áframhaldandi samstarfs. Sjálfstæðisflokkurinn gat boðið Alþýðuflokknum betur, helmingaskipti á ráðherrum og stuðning við lykilmál þeirra. Svo fór eftir nokkurra daga stjórnarmyndunarviðræður í Viðey að Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar. Stjórn Davíðs tók við völdum 30. apríl 1991.

Davíð gegndi embætti borgarstjóra meðfram forsætisráðherraembættinu fram á sumar. Samstaða náðist ekki innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um það hver ætti að verða borgarstjóri. Opinberlega tilkynntu fjórir borgarfulltrúar um áhuga sinn á embætti borgarstjórans; þau Árni Sigfússon, Katrín Fjeldsted, Magnús L. Sveinsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Þegar að líða tók á júnímánuð hjó Davíð á hnútinn og kergjuna innan borgarstjórnarflokksins og gerði tillögu um að Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins (1970-1985), yrði borgarstjóri í Reykjavík. Markús Örn hafði tapað með 23 atkvæða mun leiðtogaslagnum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins árið 1981, eins og fyrr segir frá. Tók Markús við embættinu formlega þann 1. júlí 1991. Fylgi flokksins í borginni minnkaði verulega í tíð Markúsar Arnar og ýmis vandamál tóku við - svo fór að hann sagði af sér þann 14. mars 1994 og tók Árni Sigfússon við. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði kosningum um vorið fyrir sameiginlegu framboði vinstriaflanna, R-listanum, sem átti eftir að ríkja samfellt í 12 ár og enn hefur flokkurinn ekki náð hreinum meirihluta í borginni síðan - hefur setið pikkfastur í minnihluta frá 2010.



Allir þekkja eftirmála þess að Davíð Oddsson varð formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 1991 og forsætisráðherra Íslands í apríllok sama ár. Hann varð sigursælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar og ríkti sem forsætisráðherra samfellt í rúmlega 13 ár, fyrst í fyrrnefndu samstarfi með Alþýðuflokki til 1995 og síðan með Framsóknarflokki. Davíð vann sinn glæsilegasta sigur sem formaður Sjálfstæðisflokksins vorið 1999 þegar að flokkurinn hlaut rúm 40% atkvæða og 26 alþingismenn kjörna, eftir 8 ára samfellda stjórnarforystu.

Samið var um það að loknum alþingiskosningunum 2003 að Halldór Ásgrímsson, þáv. formaður Framsóknarflokksins, yrði forsætisráðherra í stjórn flokkanna þann 15. september 2004 og fór það svo. Davíð tók þann dag við embætti utanríkisráðherra í ráðuneyti Halldórs eftir sinn sögulega forsætisráðherraferil. Hann tilkynnti um starfslok sín í stjórnmálum á sögulegum blaðamannafundi í Valhöll þann 7. september 2005 og hætti sem formaður á landsfundi í október 2005. Hann varð seðlabankastjóri og formaður bankastjórnar þann 20. október 2005. Sú seta fékk snöggan endi í eftirmála bankahrunsins 2008 og Davíð hefur verið ritstjóri Morgunblaðsins frá 2009 - haldist virkur í þjóðmálaumræðunni svo um munar.

Það má telja það eitt mesta lán Sjálfstæðisflokksins að Davíð Oddsson skyldi verða kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 1991. Undir forystu Davíðs vann Sjálfstæðisflokkurinn glæsilega sigra og hann ríkti í tæpa tvo áratugi á grunni þess umboðs sem Davíð fékk í upphafi. Formannskjörið 1991 varð örlagaríkt fyrir Sjálfstæðisflokkinn og mikill vendipunktur fyrir flokkinn. Þá hófst sókn til sigurs - Davíð var hreinn og beinn leiðtogi sem talaði enga tæpitungu og ófeiminn við að láta kveða að sér, þó ekki allir væru sammála honum... stóð og féll með sannfæringu sinni. 

Formannskjörið 1991 var vissulega erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn meðan á því stóð, enda tókust þá á sitjandi formaður og varaformaður um forystu Sjálfstæðisflokksins. En þeim auðnaðist eftir formannskjörið að vinna saman með heill og hag flokks og þjóðar að leiðarljósi. Þorsteinn Pálsson tók sæti sem ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs fyrstu átta árin eftir formannsslaginn en ákvað að víkja af hinu pólitíska sviði í aðdraganda þingkosninganna 1999 og varð sendiherra um stund áður en hann tók við ritstjórn Fréttablaðsins 2005 og varð ötull í stuðningi við ESB-aðild, sem reyndist upphafið að þáttaskilum þegar Þorsteinn sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn 2016 og gekk til liðs við nýjan ESB-miðaðan hægriflokk, Viðreisn.



Davíð Oddssyni tókst að sætta ólíkar áherslur sem kristölluðust í ólíkum öflum á landsfundinum 1991 og gera flokkinn aftur að því stórveldi sem hann hafði verið svo lengi fram til þeirrar sundrungar sem svo lengi mörkuðu flokkinn eftir andlát dr. Bjarna Benediktssonar. Farsæl forysta Davíðs í stormum sinnar tíðar tryggir honum því þann sögulega sess að vera sigursælasti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í langri sögu hans.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings


Greinin er byggð á sögugrein SFS sem birtist á vefritinu sus.is haustið 2006 (sem hann ritstýrði þá)


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook