Enn af Reykjavíkurflugvelli - því hjartans máli

Að gefnu tilefni eftir að hafa lesið grein í Akureyri vikublaði í síðustu viku eftir samstarfsmann minn Sigurjón Jónasson og mótframbjóðanda hjá Bjartri framtíð vil ég taka fram hvernig málefnum Reykjavíkurflugvallar var háttað fyrir einu ári síðan. Á þeim tíma samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur að auglýsa nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík þar sem ekki yrði gert ráð fyrir nema einni flugbraut á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni frá og með árinu 2016 og að hann yrði farinn árið 2024.


Það hefði þýtt að öllum flugrekstri yrði sjálfhætt eftir tvö ár þar sem nothæfisstuðull flugvallarins yrði einungis um 82% sem þýddi að flugvöllurinn væri lokaður að meðaltali fimmta hvern dag. Nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík var auglýst fyrir athugasemdir 9. ágúst í fyrra og var frestur veittur til 20. september. Fjölmargar athugasemdir bárust við aðalskipulagstillöguna. Þar á meðal voru undirskriftir tæplega 70.000 kosningabærra Íslendinga og þar af yfir 9.300 undirskriftir Akureyringa.


Eflaust muna margir hvernig og með hvaða hætti Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs tóku á móti fjölmennustu undirskriftasöfnun á Íslandi til þessa sem beinist að íslenskum stjórnvöldum. Þeim fannst lítið til koma. Í framhaldinu var gerð sú breyting á aðalskipulaginu að gert er ráð fyrir tveimur flugbrautum í Reykjavík og norður-suðurbrautin fær að vera til ársins 2022 í stað 2016.


Rögnunefndin


Mánuði eftir að undirskriftir voru afhentar eða í lok október var stofnað til „Rögnunefndarinnar“ svokölluðu í samkomulagi við Innanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg, og Icelandair group. Í nefndinni sitja fjórir aðilar í stýrihópi og bakvið þann hóp var skipaður töluvert fjölmennari samráðshópur þar sem undirritaður situr fyrir hönd Hjartans í Vatnsmýrinni.


Það var almennur skilningur þeirra sem tóku sæti í þessari nefnd að ekkert yrði það aðhafst í Vatnsmýrinni sem gæti skemmt fyrir framtíðarmöguleikum flugvallar í núverandi eða breyttri mynd á meðan hún væri að störfum Nefndin myndi skoða hvaða möguleikar væru fyrir nýjan flugvöll í Reykjavík og væri núverandi staðsetning einn af þeim möguleikum sem yrðu skoðaðir. Með opnum huga fór vinnan af stað.


Það kom því mjög á óvart þegar nýtt deiliskipulag fyrir Vatnsmýrina var samþykkt og auglýst fyrir síðustu jól. Á einungis sex dögum um mánaðarmótin mars/apríl var nýja deiliskipulagið samþykkt í umhverfis – og skipulagsráði, borgarráði og borgarstjórn af meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar með liðsinni Vinstri grænna. Á þessari stundu er nýja deiliskipulagið til skoðunar hjá Skipulagsstofnun.


Ég held að það sé ekkert leyndarmál að mikillar óánægju gætir hjá mörgum í „Rögnunefndinni“ og samráðshópnum. Nýja deiliskipulagið þrengir mjög að ýmsum möguleikum sem skoðaðir hafa verið í sambandi við framtíðarskipulag flugvallarins í Vatnsmýrinni.


Í þessu samhengi er rétt að geta þess að á síðustu áratugum hafa fjölmargar „staðarvalsnefndir“ fyrir nýjan flugvöll í Reykjavík skilað af sér sömu niðurstöðu eða þeirri að heppilegast er að völlurinn verði áfram á núverandi stað.


Reykjavík og landsbyggðirnar


Ég tek heilshugar undir það sem starfsbróðir minn leggur til í grein sinni að gefa ætti „Rögnunefndinni“ vinnufrið. Það var einmitt það sem við nefndarmenn héldum að stæði til. Að Ragna Árnadóttir og hennar nefnd fengi frið til að sinna mikilvægum störfum sínum. Það varð því miður ekki niðurstaðan.


Mikilvægt er að hafa í huga að ef Reykjavík á að verða sú sterka borg sem oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri Logi Már Einarsson talaði um á bæjarstjórnarfundi síðastliðið haust þarf einnig öflugar landsbyggðir. Styrking höfuðborgarinnar má aldrei vera á kostnað landsbyggðanna.


Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er og verður lífæðin.


Njáll Trausti Friðbertsson

flugumferðarstjóri og varabæjarfulltrúi - skipar 3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook