Án atvinnulífsins verður engin viðspyrna

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Þetta eru ekki lengur fordæmalausir tímar, var niðurstaða upplýsingafundar almannavarna fyrir um það bil tveimur vikum. Við erum í þeirri skrýtnu stöðu að hið óvenjulega er orðið venjulegt. En við þær aðstæður er líka mikilvægt að muna að þetta er samt sem áður tímabundið ástand, þetta er ekki ástand sem er komið til að vera. Við erum í tímabundnum erfiðleikum og við erum staðráðin í að vinna bug á þeim, bæði veirunni og efnahagsvandanum. En þar með er ekki sagt að sá veruleiki sem tekur við að því loknu verði alveg eins og hann var fyrir. Og mig langar til að segja hér að hann eigi beinlínis ekki að verða það.

Það sem ég vil fá aftur er næg vinna, óheft samskipti og heilsufarslegt öryggi. Hversdagslíf sem gengur eðlilega fyrir sig, eins og við erum vön, þar sem fólk fer ekki í sóttkví eftir að hafa farið með barnið sitt á leikskólann og þar sem ekki þarf að sigla í land með fullan bát af veikum sjómönnum. En það sem ég vil að breytist er fjölbreytni atvinnulífsins. Fleiri stoðir, áhersla á þekkingu og atvinnugreinar sem eru ekki eins viðkvæmar fyrir sveiflum náttúrunnar — jafnvel dyntum náttúrunnar — og þær sem við treystum svo mjög á nú.

Ég vil sjá veg rótgróinna stoða sem mestan, að ferðaþjónusta blómstri, útvegurinn afli vel og álframleiðslan verði greidd sanngjörnu eins og allt sem kemur úr orkufrekum iðnaði og standist um leið alþjóðlega samkeppni. Við viljum að allt þetta verði aftur eins og það hefur verið og geti orðið til framtíðar.

En við viljum líka tengja okkur betur við umheiminn, opna landið fyrir fólki sem vill koma hingað til að vinna og margfalda þekkingu okkar á ýmsum sviðum. Við eigum að vera opin fyrir því að fá sérfræðinga sem vilja gjarnan koma, búa hér, deila þekkingu sinni með samfélaginu, fá þá hingað til að vinna með okkur að framtíð landsins. Við eigum áfram að hlúa að nýsköpun og rannsóknum, og við þurfum að gera meira til að finna nýja styrkleika og koma þannig sterkari út úr erfiðleikunum en við fórum inn í þá.

Þetta ástand er ógn. Það er ógn við heilsu og efnahag. Atvinnuleysi hefur aukist hratt og óvissan er erfið. Það er sárt fyrir fólk að tapa vinnunni og vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Eins er staðan erfið fyrir atvinnurekendur, fyrir fólk sem hefur byggt upp fyrirtæki, hefur jafnvel verið lengi í rekstri en sér nú fótunum kippt undan sér. En við verðum öll að koma þeim skilaboðum skýrt til skila að þetta er tímabundið ástand. Og við, sem höldum um stjórnartaumana, höfum gefið það loforð að gera meira en minna.

Það er mikilvægt að taka þannig utan um samfélagið, bæði fólk og fyrirtæki, að þau komist hratt á fæturna aftur þegar glaðnar til. Að við töpum ekki verðmætum að óþörfu, að hjarta lífvænlegrar starfsemi geti haldið áfram að slá. Án atvinnulífsins verður engin viðspyrna. Án atvinnulífsins eru engin störf, hvorki núna né til að snúa aftur í. Þess vegna er mikilvægt að við gerum núna það sem hægt er að gera til að milda áfallið og stytta atrennuna að næsta hagvaxtarskeiði. Það er okkur öllum því lífsnauðsynlegt að atvinnustarfsemin taki aftur við sér. Þeir sem gera lítið úr vanda atvinnulífsins eða telja rangt af stjórnvöldum að standa með fyrirtækjum skilja einfaldlega ekki þetta mikilvæga samband milli þess að sköpuð séu verðmæti í einkageiranum og lífskjara okkar allra.

Góðir landsmenn. Vissulega höfum við ekki stjórn á veirunni, eða þeim áhrifum sem hún hefur á fólk. Ekki enn þá. En það kemur. Og það er til mikils að vinna að reyna að halda lífi fólks eins venjulegu og hægt er, innan þess óvenjulega. Þess vegna höfum við ákveðið að gera það sem í okkar valdi stendur til að lífið geti haldið áfram sinn vanagang. Að við skerðum ekki opinbera þjónustu heldur stöndum vörð um hana þótt við vitum að það þýði hallarekstur um tíma. Við þessar aðstæður er hallarekstur réttlætanlegur.

Halli ríkissjóðs er ekki tapað fé. Honum er varið til að: standa með heimilunum og styðja fyrirtæki í gegnum erfiða tíma; efla innlenda framleiðslu, allt frá matvælaframleiðslu til fjölbreyttrar iðnaðarframleiðslu, en um leið hugbúnaðargerð og við stöndum með hugviti og skapandi greinum. Hallanum er líka varið í að fjárfesta í betri tækni, sterkari innviðum og styðja rannsóknir; við fjárfestum með hallanum í hraðari orkuskiptum og stefnum að því að ná markmiðum í loftslagsmálum, leggjum mikið undir þar. Og við erum að lækka skatta og tryggja skattalegar ívilnanir til að örva fjárfestingu einmitt á þeim tíma sem hana skortir sárlega. Þetta gerum við best með beinum stuðningi, með lægri álögum, með því að láta ríkissjóð bera auknar byrðar, með grænum lausnum, nýjum hugmyndum og með því að taka höndum saman um að koma sterkari út úr vandanum.

Við tefldum fram aðgerðum undir merkjum verndar, varna og viðspyrnu í vor, en við verðum líka að sækja fram, verðum að líta á þetta sem tækifæri til að uppfæra Ísland. Tæknivæddara, skilvirkara, grænna, sanngjarnara og kraftmeira samfélag. Það verður Ísland í uppfærslu 2.0.

Bjarni Benediktsson
fjármála- og efnahagsráðherra


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook