Aldursvæni bærinn Akureyri

Með hækkandi hlutfalli eldri borgara í samfélaginu er nauðsynlegt að huga að heilsueflingu þeirra. Aldraðir lifa lengur og eru almennt hraustari en á árum áður. Hópurinn er fjölbreyttur og þarfir einstaklinga innan hans mjög mismunandi og mikilvægt að koma til móts við þær þegar getan minnkar. Úrræði sem í boði eru þurfa að vera næg s.s. félagsþjónusta, heimahjúkrun, dagvist, hvíldarrými og hjúkrunarrými.

Tækifærin til að gera betur eru mörg en kannski eitt af því mikilvægasta er að leggja áherslu á heilsueflingu allra íbúa Leggja þarf áherslu á lýðheilsu, forvarnir og heilsueflandi aðgerðir þar sem einstaklingar eru hvattir til þess að bera ábyrgð á eigin heilsu. Þannig má draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi. 

Heilsuefling og aukin virkni aldraðra í samfélaginu er mikilvæg og stefnt er á að styrkja aldraða til þátttöku með því til dæmis að efla starfssemi öldungaráðsins, tryggja gott aðgengi og fjölbreytt val á hreyfingu og tómstundum. Ráða þarf verkefnastjóra sem vinnur að heilsueflingu og bættri næringu eldri borgara, skipuleggur og hefur yfirsýn yfir möguleika sem í boði eru. 

Gera þarf eldri borgurum kleift að búa eins lengi heima og frekast er unnt með þeim stuðningi sem þörf er á. Öflug heimahjúkrun og félagsþjónusta eru þar mikilvæg en leggja þarf aukna áherslu á velferðartækni og skoða leiðir til að nýta hana til að bæta þjónustu og öryggi þar sem þörf er á. Þá þarf að auka framboð af dagþjónustu í samvinnu við ríkið og fá það sem viðurkennt úrræði sem ríkið beri kostnað af. Vinna þarf áfram að öflugri starfsemi Öldrunarheimila Akureyrar og að ná samkomulagi við ríkið um að það standi undir lögmætum kostnaði við rekstur þess.

Öflug heilbrigðisþjónusta með góðu aðgengi þarf að vera í boði og vinna þarf að því að ný legudeild rísi við Sjúkrahúsið á Akureyri sem fyrst. Nauðsynlegt er að byggðar verði tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri þar sem núverandi húsnæði og aðgengi er óásættanlegt. Tryggjum að Akureyri verði aldursvænn bær.


Þórhallur Harðarson, mannauðsstjóri
skipar 6. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook