Akureyri til forystu

Ó­hætt er að segja að verk­efni mín sem um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra séu ólík þeim sem ég hafði á minni könnu á liðnu kjör­tíma­bili sem utan­ríkis­ráð­herra. Það var afar skemmti­legt, lær­dóms­ríkt og mikill heiður að fá að ferðast um allan heim og tala máli okkar Ís­lendinga í fyrra em­bætti.

Það er ekki síður á­nægju­legt að fá að ferðast um landið okkar sem um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra og finna þann kraft og á­huga sem ríkir í hugum lands­manna þegar kemur að verk­efnum á mál­efna­sviði ráðu­neytisins.

En sum verk­efni þessara tveggja ó­líku em­bætta eru þó ná­tengd og þar ber kannski hæst norður­slóða­málin.

Ég hef þrí­vegis nú á síðustu mánuðum komið norður á Akur­eyri. Í lok mars var ég með erindi á ráð­stefnu um orku­málin í Há­skólanum á Akur­eyri og heim­sótti í leiðinni skrif­stofur Norður­skauts­ráðsins, CAFF og PAME, en þær mynda stærsta setur vísinda- og ráð­gjafar­vinnu Norður­skauts­ráðsins (utan Noregs) og heyra undir ráðu­neyti um­hverfis-, orku- og lofts­lags­mála.

Við Ís­lendingar gegndum for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu árin 2019–2021 og lagði ég sem utan­ríkis­ráð­herra mikla á­herslu á leiðandi hlut­verk okkar sem for­mennsku­ríkis. Á þeim árum jukust fjár­fram­lög til þessara mikil­vægu skrif­stofa en verk­efni þeirra eru um hundrað talsins, flest tengd hafinu og líf­fræði­legum fjöl­breyti­leika. Eftir að for­mennsku okkar lauk minnkuðu fjár­fram­lögin og gátu skrif­stofurnar því ekki sinnt sínum verk­efnum nægi­lega vel.

Ég tel mikil­vægt að Ís­land sinni norður­skauts­málunum af krafti. Mál­efni norður­slóða snerta hags­muni okkar Ís­lendinga með marg­vís­legum hætti. Við eigum að vera leiðandi afl á norður­skautinu og reyna eftir fremsta megni að verja hags­muni okkar og ganga fram með góðu for­dæmi, sér í lagi í um­hverfis­málum.

Ég hef því á­kveðið að hækka ár­leg fjár­fram­lög til skrif­stofa CAFF og PAME um 50% til þess að þær geti starfað af sama metnaði og krafti og á for­mennsku­árum Ís­lands í Norður­skauts­ráðinu.

Mikil­vægt er að nýta á­fram þá þekkingu og reynslu sem byggst hefur upp á Akur­eyri. Þessi á­kvörðun festir Akur­eyri enn frekar í sessi sem höfuð­stað norður­slóða á Ís­landi. 

 

Guðlaugur Þór Þórðarson

umhverfis- orku- og loftslagsráðherra 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook