Viðtal við Gunnar Gíslason í Vikudegi

Eftir fimmtán ár í starfi fræðslustjóra ákvað Gunnar Gíslason að söðla um og hella sér í bæjarmálin á Akureyri. Hann situr sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn og segir það sem af er kjörtímabili hafa verið lærdómsríkt. Hann er ákveðinn í halda áfram á pólitískum vettvangi og vill fá pólitískan bæjarstjóra. Sjálfur ætlar hann að gefa kost á sér sem slíkan. Vikudagur heimsótti Gunnar og spjallaði við hann bæjarmálin, fjölskylduna, daginn og veginn.

Gunnar er fæddur í Reykjavík og ólst upp í Hafnarfirði framan af ævi en fluttist til Akureyrar 13 ára gamall. „Taugarnar hafa alltaf legið hérna fyrir norðan og ég lít á mig sem Akureyring, hvað sem tautar og raular,“ segir Gunnar og brosir. „Ég fann fyrir því þegar ég flutti hingað fyrst að maður taldist nú ekki vera Akureyringur, enda linmæltur að sunnan og ég fékk heldur betur að heyra það. En ég var svo heppinn að kynnast tveimur frændum mínum sem voru nýfluttir frá Ólafsfirði og voru mjög harðmæltir. Ég var fljótur að tileinka mér þann sið og þá féll ég betur í kramið,“ segir Gunnar.

Hann gegndi stöðu fræðslustjóra hjá Akureyrarbæ í 15 ár áður en hann ákvað að hella sér í bæjarmálin fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar. Samhliða pólitíkinni hefur hann unnið sjálfstætt undanfarin ár. „Ég ákvað að horfa á starf bæjarfulltrúans sem mitt aðalstarf, þótt það dugi ekki til að framfleyta fjölskyldu. Því setti ég upp ráðgjafarfyrirtæki í kringum sjálfan mig en það atkvikaðist með þeim hætti að ég var beðinn um að aðstoða Mosfellsbæ vegna veikinda fræðslustjórans þar. Síðan þá hef ég dottið inn í verkefni hér og þar um landið. Þetta hefur gengið ágætlega og ég hef ekki enn haft tíma til að auglýsa mig. Mér hefur tekist að stýra þessu þannig að þetta komi ekki niður á mínu pólitíska starfi. Sem oddviti er maður líka upptekinn í innra félagsstarfi flokksins, auk hefðbundinna bæjarmála,“ segir Gunnar. 

Vildi nýjar áskoranir í lífinu

Gunnar segist hafa farið nokkuð óvænt inn í bæjarmálin fyrir þremur árum og það hafi alls ekki verið á döfinni. „Tveir vinir mínir komu að máli við mig og spurðu hvort ég væri ekki til í að láta vaða í prófkjör. Þá var ég búinn að vera fræðslustjóri í 15 ár en af þeim tíma var ég eitt ár í námsleyfi. Þegar ég var í námleyfinu fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta væri nú ekki að verða gott og fara að snúa sér að einhverju öðru. Námsleyfið var ákveðin vítamínssprauta fyrir mig og ég fann að ég þyrfti að fara að breyta til. Ég varð hins vegar að skila af mér ákveðnum tímum í starfi fræðslustjóra eftir námsleyfið,“ segir Gunnar.

„Þegar ég var að velta því fyrir mér að fara í bæjarmálin þá hugsaði ég til baka og komst að því að ég hafði lifað í vernduðu umhverfi mjög lengi, og aldreisjaldan tekið neinu áhættu. Heldur hefur þetta meira gerst af  sjálfu sér að mörgu leyti. Ég segi ekki að ég hafi verið að taka stóra áhættu með því að söðla um og fara í prófkjör, en það var engu að síður áskorun á nýjum vettvangi og mig langað til að taka smá sjens. Ég lét slag standa og fór í prófkjörsslag sem var gríðarlega mikil reynsla. Mér finnst t.d. ekkert skemmtilegt að standa einhversstaðar og upphefja sjálfan mig. Það er mjög sérstök staða en var engu að síður stór hluti af þessu og mikil áskorun.“

Mikill styrkur að þekkja til í kerfinu

Gunnar segir mikinn tíma fara í að sinna bæjarmálunum. „Frá sl. hausti hefur verið sérstaklega mikið að gera og mér finnst mjög mikilvægt að bæjarfulltrúar gefi sér tíma til þess að setja sig inn í flest mál. Sjálfur var ég embættismaður og fann þegar ég kom inn í bæjarmálin að það var mikill styrkur að hafa verið inni í kerfinu og þekkja til. Við þurfum samvisku okkar vegna að hafa sem flestar hliðar máls upp á borðum, og það tekur tíma. Mér finnst að maður eigi að geta gefið sér tíma í hluti eins og að fara á milli stofnana og fyrirtækja og kynna sér hvað er í gangi. Það er ekki alltaf nóg að lesa skýrslur, þú verður líka að fara á staðinn og upplifa. En vandinn er sá að við bæjarfulltrúar erum öll meira en minna í annarri vinnu meðfram pólitíkinni. Því skortir tíma til að skoða mörg mál til hlýtar og vera á staðnum og því verður að breyta.“

Hann segir tímann í bæjarstjórninni hafa verið góðan og gefandi. „Ég hef haft mjög gaman af þessu og er ákveðinn í því að bjóða mig fram aftur í næstu sveitastjórnarkosningum. Það er ekkert leyndarmál. Ég tel mig hafa eitthvað fram að færa og er búinn að setja mig inn í fullt af málum á þessu kjörtímabili. Ég var vel inn í fræðslumálunum þegar ég byrjaði en núna finnst mér ég vera reiðabúinn til að gefa enn meira af mér til málefna sem ég þekkti kannski minna til. Þannig tel ég að ég muni nýtast betur sem bæjarfulltrúi næsta kjörtímabil.“ 

„Fráleitt að byggja á svæðinu við Akureyrarvöll“

Mörg mál hafa brunnið á bæjarbúum undanfarnar vikur. Nýlega var nýtt aðalskipulag Akureyrarbæjar kynnt í Hofi og málefni á borð við byggð í Kotárborgum, þrenging Glerárgötunnar og breytingar á Miðbænum hafa mætt mikilli andstöðu. „Ég held að þessi áhugi og skoðanir bæjarbúa snúi mikið að því hvernig málin eru framreidd. Ég varð hreinlega sjokkeraður eftir íbúafundinn í Hofi þar sem aðalskipulagið var kynnt. Fundurinn var afleitur. Málið er að þegar við erum að taka umræðu um málefni sem snerta okkur öll þá finnst mér að við eigum að leggja þau þannig fram að við séum að bjóða fólki upp á samtal. Ég nefni sem dæmi Kotárborgir, en mjög skiptar skoðanir eru um hvernig eigi að nýta það svæði og það hefur ekkert samtal átt sér stað,“ segir Gunnar.

Sjálfur er hann alfarið á móti þéttingu byggðar í Kotárborgum, svæðinu fyrir ofan Háskólann, og vill einnig sjá ýmislegt annað en byggingar á húsnæði á svæðinu við Akureyrarvöll. „Við verðum t.d. að gæta okkur á því að þrengja ekki mikið að Háskólanum og ég er á móti því að horfa á Kotárborgir sem þéttingarsvæði. Varðandi Akureyrarvöll er ég einnig andsnúin því að líta á það svæði sem þéttingu fyrir byggð. Mér finnst það fráleitt. Þetta á að vera útivistareining Akureyringa, þarna eigum við að halda okkar hátíðir, búa til góða stemmningu og reyna að draga fólkið þangað saman. Svæðið fyrir neðan Samkomuhúsið, sem hefur oft verið nýtt fyrir ýmsar uppákomur, finnst mér ekki henta eins vel til þessa. Ég mun tala fyrir þessu.“ 

Segir skort á langtímasýn í mörgum málaflokkum

Leikskólamálin hafa verið í brennidepli á Akureyri undanfarnar vikur, og í raun allan vetur eftir að Vikudagur greindi frá óánægju foreldra í bænum vegna skorts á  leikskólaplássum. Gunnar starfaði lengi við fræðslumál bæjarins og þekkir vel til á því sviði. Hann segir vanta stefnu í skólamálum.

„Það sem mér finnst hafa einkennt síðustu ár í bæjarpólitíkinni er að það vantar langtímasýn í alltof marga málaflokka. Þegar við sjáum þróunina í fjölda fæðinga barna á Akureyri og að þeim fari fækkandi þá er strax brugðist við því með fækkun leikskóla. Ég skil það að mörgu leyti, en það vantar að búa til plan um hvernig við bregðumst við ef allt í einu er von á fjölda barna inn á leikskóla eins og raunin er með næsta haust. Þessi staða hefur nefnilega komið upp áður. Þá var brugðist við því með að setja upp færanlegar kennslustofur í Pálmholti og Lundarseli en þetta er það mikil fjölgun núna að það dugar ekki til.“

Bæjaryfirvöld hyggjast bregðast við þessu með opnun fimm ára deildar í grunnskóla bæjarins. Gunnar segir það skref í rétta átt. „Við eigum mikið pláss í grunnskólum og það er ekkert að því að bjóða foreldrum upp á fimm ára deildir. Þá sköpum við sveigjanleika til að mæta aðstæðum sem þessum og stígum skref til framtíðar skipulags skólamála .“ „Það sem mér finnst í raun alvarlegast við þetta mál var úrræðaleysið sem birtist í fjölmiðlum. Við verðum alltaf að vera viðbúin óvæntum uppákomum og vera snögg til að finna lausnir svo forðast megi neikvæðu umræðuna sem skapar viðhorf sem er mjög erfitt að breyta aftur.“ 

Vill sjá pólitískan bæjarstjóra

Eins og fram kemur að ofan hyggst Gunnar bjóða sig fram til áframhaldandi setu í næstu sveitastjórnarkosningum sem fram fara vorið 2018. „Ég mun gefa kost á mér og svo er að sjá hvort mínir flokksfélagar treysta mér til verka. Maður tekur engu sem gefnu,“ segir Gunnar.  Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar á Akureyri var töluverð umræða um pólitískan eða ópólitískan bæjarstjóra. Gunnar fer ekki í grafgötur með sína skoðun það varðar.

„Það er algjörlega kristaltært að í svona stóru bæjarfélagi á bæjarstjórinn að vera pólitískur. Hann á að vera talsmaður meirihlutans og er andlit sveitarfélagsins. Ópólitískur bæjarstjóri hefur ekki þau völd að geta tekið af skarið um mörg mál þegar mikið liggur við og lítill eða enginn tími til samráðs. Bæjarstjórinn hér á Akureyri getur ekki sagt neitt sem er pólitískt viðkvæmt nema að hafa fyrir því samþykki meirihlutaflokkanna þriggja. Þetta hlýtur að veikja embættið,“ segir Gunnar.

Hann segist ætla að bjóða sig fram sem oddvita og bæjarstjóraefni í næstu kosningum. „Ég er alveg harður á því en það verður ekki gert nema með samþykki og vilja félaga minna í flokknum..“

Ferðalög og fjölskyldan 

Fyrir utan vinnu fer mestur tími Gunnars í að sinna fjölskyldunni sem er býsna stór. „Þegar ég kynntist konunni minni átti ég þrjú börn fyrir og hún þrjú. Svo eigum við eina stúlku saman og því eru þetta samtals sjö börn. Það er því líf og fjör þegar við komum öll saman. Við erum mjög samrýmd fjölskylda og reynum að hittast sem oftast.“

Spurður um sumarið segir Gunnar að ýmislegt sé framundan. „Sumarið leggst afskaplega vel í mig. Bæjarmálin munu örugglega taka sinn toll þar sem margt er í pípunum eins og ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag á rekstri í Hlíðarfjalli, aðaskipulagið, raforkuflutningar, millilandaflug o.fl... En svo ætlum við fjölskyldan að reyna að ferðast töluvert innanlands með hjólhýsið. Við reynum að gera mikið af því. Yngsta stúlkan á heimilinu datt inn í fótboltann hjá KA og því fylgja ýmis ferðalög. Það er í raun kapituli útaf fyrir sig,“ segir Gunnar og hlær. „Þannig að ég verð á faraldsfæti í sumar í bland við pólitíkina.“ 

Viðtal: Þröstur Ernir Viðarsson (Vikudagur)


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook