Við látum ekki okkar eftir liggja þegar á reynir

Frá því ég gaf kost á mér að starfa í stjórnmálum hefur ávallt verið mín sýn að vinna að heilindum og með þeim leiðum sem ég tel heillavænlegastar fyrir bæjarbúa. Nú er komið svo að óskað var eftir aðkomu okkar minnihlutaflokkanna að vinnu við að takast á við fjárhagsstöðu bæjarins.

Við kölluðum eftir því að ef ætlunin væri að mynda samstöðu um aðgerðir yrðum við að vera formlegir aðilar að meirihlutastarfi. Þannig mætti tryggja að jafnræði væri algjört milli allra bæjarfulltrúa í aðkomu að verkefninu sem framundan væri, en vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs er verkefnið ærið.

Það er mín skoðun að til þess að efla og styrkja bæjarfélagið okkar verði allir að leggjast á árarnar og að það sé slæmur valkostur að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins stöndum einir utan þeirrar vinnu sem til stendur að ráðast í, vinnu þar sem hugmyndafræðin byggir á því að hún sé unnin á sem breiðustum grunni.

En til þessa samstarfs hefði aldrei komið nema vegna þess að traust og virðing ríkir milli aðila í bæjarstjórn og allir eru tilbúnir til þess að vinna með samræðupólitík og með lausnamiðuðu hugarfari. Grunnurinn að samstarfinu á sér því aðdraganda.

Með þessu er samt ekki verið að leggja pólitík eða gagnrýna umræðu af. Við höfum sammælst um að það standi allir áfram á sannfæringu sinni og ef ekki næst samstaða um einstök mál gera þeir sem ekki eru sammála grein fyrir afstöðu sinni með bókun og á annan opinbera hátt ef svo vill til.

Það er hins vegar keppikefli okkar að ná samstöðu um öll mál ef þess er nokkur kostur. Ég hlakka til að takast á við verkefnið og þakka það traust sem mér hefur verið sýnt.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook